Mbl.is 3. nóvember greinir frá Þjóðarpúlskönnun Capacent Gallup þar sem yfir sextíu prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni töldu að ástand þjóðfélagsins væri betra á Íslandi ef fleiri konur hefðu verið við stjórn fjármálafyrirtækja landsins undanfarin ár. Rúmlega 34% svarenda voru þeirrar skoðunar að efnahagsástandið væri hvorki betra né verra en það er í dag ef fleiri konur hefðu verið við stjórn fjármálafyrirtækja undanfarin ár en einungis 4% töldu að efnahagsástandið væri verra. Marktækur munur var á afstöðu kynjanna.

Tæplega 77% kvenna töldu að efnahagsástandið væri betra í dag ef fleiri konur hefðu verið við stjórn fjármálafyrirtækja. Tæplega helmingur karla voru sömu skoðunar. Jafnframt var marktækur munur í könnuninni eftir aldri og stjórnmálaskoðun. Eftir því sem fólk var eldra var það líklegra til þess að telja að efnahagsástandið væri betra ef konur hefðu verið við stjórn fjármálafyrirtækja undanfarin ár. Því lengra til vinstri sem fólk var í stjórnmálum því betra þótti þeim líklegt að efnahagsástandið væri ef konur hefðu í ríkari mæli verið við völd.