Uppröðun á framboðslista – ábyrgð stjórnmálaflokkanna

Uppröðun á framboðslista er grein eftir Halldóru Traustadóttur framkvæmdastjóra KRFÍ.

Grein í pdf skrá.


Yfirskrift þessa greinastúfs var yfirskrift á málþingi sem Kvenréttindafélag Íslsnds hélt í september í fyrra. Ekki læddist að okkur sá grunur í félaginu á þeim tíma að kosningar, með tilheyrandi uppröðun á framboðslistum, væri handan við hornið. Sú varð þó raunin og nú hafa allir framboðslistar fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl nk. verið kynntir. Við skulum rýna í framboðslista þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi með kynjagleraugum: Í þremur efstu sætum listanna eru 39 konur í framboði og 51 karl, þ.e. 43/57% skipting. Það eru 9 konur í efstu sætum listanna en 21 karl, og aðeins tvær konur leiða
lista í landsbyggðarkjördæmunum þremur.

Hvað er hægt að lesa úr þessum tölum? Jú, það er enn og aftur á brattann að sækja fyrir konur í stjórnmálum eða a.m.k. að komast til valda í stjórnmálaflokkum og að vera fulltrúar sinna flokka á þingi.

En skiptir kyn máli í þessu tilliti? Hversu oft höfum við ekki heyrt frasann um það að „það skiptir mestu máli að fá gott fólk í stöðurnar og þá skiptir ekki kyn máli“. Ég held að allir geti verið sammála um það að það skiptir miklu máli að fá gott og hæft fólk til starfa hvar sem er. En það vill nú svo til að konur eru um helmingur landsmanna og ef framboðslistar eiga að endurspegla þá sem í þessu landi búa, ætti kynjasamsetning frambjóðendanna að vera jöfn.

Á ofangreindu málþingi samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun:

“Kvenréttindafélag Íslands stóð fyrir hádegismálþingi 25. september þar sem rætt var um ábyrgð stjórnmálaflokkanna á uppröðun framboðslista með tilliti til kynjajafnréttis og leiðir til að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum. Framsögu á málþinginu höfðu Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður.

 

Það var samróma álit málþingsins að hvetja stjórnmálaflokkana til að hafa kynjajafnrétti að leiðarljósi við uppröðun á framboðslista fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2010. Einnig að hvetja Alþingi sérstaklega til að bregðast við því misræmi sem gætir í hlutfalli kynjanna á framboðslistum almennt með því að taka til umfjöllunar þingályktunartillögu Sivjar Friðleifsdóttur (þingskjal 34, 34. mál) um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, sem og önnur sambærileg þingmál sem geta leitt til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum.”