Þetta frumvarp til laga barst KRFÍ í nóvember 2009. Er það óbreytt frá árinu áður þegar félaginu  barst það einnig til umsagnar en ekki tókst að taka lagafrumvarpið fyrir á Alþingi þá.


Umsögn KRFÍ um frumvarp til laga um  veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (bann við nektarsýningum), nr. 85/2007.

 Kvenréttindafélagi Íslands hefur borist til umsagnar ofangreint fumvarp, þskj. 21 -21. mál, um breytingar á lögum nr. 85/2007. Kvenréttindafélag Íslands styður frumvarpið heilshugar. Það er orðið löngu ljóst að vændi er stundað á nektardansstöðum hér á landi, enda hafa bæði viðskiptavinir og stúlkur sem þar hafa starfað staðfest það. Til að vinna á því alvarlega og alþjóðlega vandamáli sem mansal er verður að ráðast gegn vændi í leiðinni, viðurkenna eðli þess og orsakir og hafna misnotkun á þeim sem leiðst hafa í vændi sökum erfiðra aðstæðna. Jafnrétti kynja verður aldrei náð ef litið er á konur sem söluvöru og í því ljósi verður ekki séð hvernig leyfa megi nektarsýningar og annað það sem fram fer á nektardansstöðum. Að öðru leyti vísar Kvenréttindafélag Íslands í fyrri umsögn sína með frumvarpinu sem fyrst var lagt fram á 136. löggjafarþinginu og veitti KRFÍ umsögn sína í bréfi dagsettu 3. apríl 2008.