Haldið verður upp á 97 ára afmæli kosningaréttar kvenna með ýmsum hætti á morgun, 19. júní. Hér eru nokkrir viðburðir sem hægt er að sækja!

 

Hvenær sem er. Fréttablaðið
19. júní, ársrit Kvenréttindafélagsins

Ársriti Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní, verður nú annað árið í röð dreift með Fréttablaðinu í dagblaðabroti. Í í ár fögnum við framtíðinni. Við fjöllum um félög og hópa sem hafa sprottið upp síðustu árin og fagna jafnrétti kinnroðalaust, stiklum á jafnréttismálum á Íslandi á árinu, tölum við nýkjörinn biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, og fjöllum ítarlega um Stóru systurnar sem vöktu mikla athygli á síðasta ári með aðgerðum sínum gegn vændiskaupum á Íslandi. Sjá nánari upplýsingar hér.

 

Kl. 8-10. Grand Hótel Reykjavík
Morgunverðarfundur um staðal um launajafnrétti.

Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og velferðarráðuneytið hafa frá því í árslok 2008 haft forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna. Verkið hefur verið unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila. Jóhanna Sigurðardóttir, Gylfi Arnbjörnsson og Hannes Sigurðsson flytja ávörp. Nánari dagskrá má finna hér.

 

Kl. 12. Hólavallakirkjugarður í Reykjavík
Athöfn við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur

Forseti borgarstjórnar mun leggja blómsveig að leiði kvenréttindakonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Allir eru boðnir velkomnir til athafnarinnar í Hólavallakirkjugarði. Nánari upplýsingar má finna hér.

 

Kl. 13. Rás 1
Ólgusjór kvennabaráttunnar: 19. júní fyrr og nú

Íslensk kvenréttindabarátta í tali og tónum á Rás 1 19. júní kl. 13. Í þættinum verður stiklað á stóru yfir sögu kvenréttindabaráttunnar hér á landi og velt upp mismunandi merkingu hugtaksins „femínisma“. Farið verður yfir þrjár bylgjur femínismans og hugað að því hvort fjórða bylgjan stefni að landi. Í þættinum veltum við fyrir okkur hugtakinu „femínisma“. Hvað þýðir orðið, hvaðan kemur það, hvernig skilja Íslendingar „femínisma“? Hvað í ósköpunum er „öfgafemínismi“ eiginlega? Umsjónarmenn eru Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Helga Birgisdóttir. Lesari með þeim er Hjörtur Jóhann Jónsson. Tæknimaður er Jón Þór Helgason. Sjá nánari upplýsingar hér.

 

Kl. 16:30. Café Björk, Akureyri
Kvennasöguganga

Gangan hefst við nýja kaffihúsið í Lystigarðinum, Café Björk, kl. 16:30 og endar við Minjasafnið á Akureyri. Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðsins mun ávarpa göngufólk. Leiðsögumaður kvennasögugöngunnar í ár er Hörður Geirsson, safnavörður Minjasafnsins. Boðið verður uppá kaffi að göngu lokinni. Nánari upplýsingar má finna hér.

 

Kl. 17:30. Hallveigarstaðir, Túngötu 14, Reykjavík
Hátíðardagskrá og kaffiveitingar

Félögin á Hallveigastöðum bjóða til hátíðar í tilefni 19. júní. Kaffi, kökur, ávörp, ræður og spjall. M.a. mun Ragnhildur Jóhanns frá Endemi fjalla um konur í list, Fríða Rós Valdimarsdóttir um niðurstöður rannsókna um íslenska vændiskaupendur og Steinunn Gyðu- Guðjónsdóttir um Kristínarhús, athvarf fyrir konur sem hafa verið seldar mansali eða stundað vændi og vilja komast úr því. Í boði er kaffi og gómsætar veitingar. Nánari dagskrá má finna hér.

 

Kl. 20. Hallveigarstígur 1, Reykjavík
19. júní kvöldganga

Kvennahreyfing Samfylkingarinnar býður til kvöldgöngu um söguslóðir kvenréttindabaráttunnar í miðbæ Reykjavíkur þriðjudaginn 19. júní. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrv. þingkona og umhverfisráðherra verður leiðsögukona í göngunni. Að göngu lokinni verða léttar veitingar á Bríetarreit. Nánari upplýsingar má finna hér.

 

Kl. 20. Þvottalaugarnar í Laugardal
Guðsþjónusta Kvennakirkjunnar

Séra Agnes M. Sigurðardóttir verðandi biskup predikar og kvenprestar taka þátt í messunni. Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng, Ásdís Þórðardóttir leikur á trompet og Kór Kvennakirkjunnar leiðir söng við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Nánari upplýsingar má finna hér.