Kynlegar tölur í Reykjavík

Í tilefni af baráttudegi kvenna 8. mars síðastliðinn hafa Mannréttindaskrifstofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar gefið út bæklinginn Kynlegar tölur. Í þessum bæklingi er hægt að sjá ýmsar töflur og ýmis gröf um kynjaskiptingu í Reykjavíkurborg.

Í bæklingnum kennir margra grasa. Þar kemur meðal annars fram að 18,7% útilistaverka í Reykjavík eru eftir konur en 78,9% þeirra eru eftir karla. Óþekktir höfundar eru 2,4%. Einungis 2% þeirra sýna nafngreindar konur en 18,7% þeirra nafngreinda karlmenn. Árið 2011 keypti Reykjavíkurborg 11.554 listaverk, 4.292 eftir konur eða 37% og 7262 eftir karla eða 63%. Konur eru í miklum meirihluta handahafa Menningarkortsins sem veitir aðgang að söfnum Reykjavíkurborgar, eða 71% konur og 29% karlar.

42% kvenna á Íslandi 18-80 ára hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi af hendi karla, 30% hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, 24% hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þegar könnunin var gerð haustið 2008 sögðust 4% hafa orðið fyrir ofbeldi undangengna 12 mánuði. Skráð atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu árið 2011 var 8,1%, atvinnuleysi karla var 9% og atvinnuleysi kvenna 7,2%. Atvinnuleysi var ívið meira á höfuðborgarsvæðinu en á landinu öllu. Jafnræði ríkir í ráðum og nefndum borgarinnar, en þar eru konur 48% og karlar 52%.

Hér má nálgast bæklinginn sem pdf skjal.