Ályktun Kvenréttindafélags Íslands og Landssambands femínistafélaga framhaldsskólanna

Landssamband femínistafélaga framhaldsskólanna og Kvenréttindafélag Íslands skora á skólayfirvöld að gera kynjafræði að skylduáfanga í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Í jafnréttislögum hefur frá 1976 staðið að jafnréttisfræðsla skuli vera á öllum skólastigum. Í núgildandi löggjöf frá 2008 segir í 19. grein að á öllum skólastigum skuli veita fræðslu um jafnréttismál; að kennslu- og námsgögn séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað; að leitast skal við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf; að efla skal rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi og miðla niðurstöðum þeirra markvisst innan skólastarfsins; og að jafnréttis kynja sé gætt í íþrótta- og tómstundastarfi.

Ný aðalnámsskrá var samþykkt árið 2011, og byggist sú námsskrá á sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð, og sköpun. Í aðalnámsskrám fyrir bæði framhalds- og grunnskóla segir skýrt að á öllum skólastigum eigi að fara fram menntun til jafnréttis þar sem börnum og ungmennum er kennd gagnrýn hugsun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

Þrátt fyrir þessar nýju aðalnámsskrár er ekki hægt að sjá að kennslu hafi verið breytt að ráði til að sinna þessum kröfum um kennslu til jafnréttis.

Teljum við að skólar landsins séu að bregðast skyldum sínum við komandi kynslóðir að hafa ekki lagt meiri áherslu á jafnréttisfræðslu meðal ungs fólks en raun ber vitni.

Kynjafræði er nú kennd sem valáfangi í 17 framhaldsskólum á landinu og hefur sú kennsla verið nemendum þessara skóla til mikillar styrkingar og eflingar. Árangur kennslunnar er greinilegur, en nemendur í tíu framhaldsskólum um allt land hafa tekið sig saman og stofnað sín eigin félagasamtök til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.

Landssamband femínistafélaga framhaldsskólanna og Kvenréttindafélag Íslands hvetja yfirvöld menntamála í landinu, bæði ríki og sveitarfélög, til að leita leiða til að kenna jafnrétti og kynjafræði á öllum skólastigum. Með samstilltu átaki getum við breytt heiminum.

Hallveigarstaðir, 15. apríl 2014