Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands 1975-1981 og heiðursfélagi, er látin.

Sólveig tók sæti í stjórn Kvenréttindafélagsins 1972 og var kjörin formaður félagsins 1975, aðeins 27 að aldri. Er hún enn í dag yngsta konan til að gegna embætti formanns Kvenréttindafélagsins og er einnig meðal þeirra kvenna  sem hvað lengst hefur gegnt formennsku. Árið 2007 var hún kjörin heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands.

Mikil gróska var í samfélaginu á þeim árum sem Sólveig gegndi stöðu formanns, sér í lagi í baráttunni fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna. Sólveig tók við formennsku á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975, en það ár mörkuðu íslenskar konur spor sín í söguna þegar þær lögðu niður vinnu 24. október og söfnuðust saman á Lækjartorgi til að krefjast jafnréttis. Átti þessi fundur eftir að stórefla samkennd kvenna á Íslandi og leggja grundvöll fyrir frekari jafnréttisbaráttu. Sólveig sagði seinna meir að sér hefði þótt það „hreinlega ólýsanleg upplifun að sjá samstöðuna meðal kvenna í samfélaginu, sjá hinn mikla fjölda á Lækjartorgi og finna rafmagnað andrúmsloftið þar.“

Í stjórnartíð Sólveigar beitti Kvenréttindafélagið sér fyrir margs konar aðgerðum til að bæta stöðu kvenna, þá sérstaklega í skattamálum. Sólveig lét af embætti formanns 1981, en starfaði að jafnrétti kynjanna alla sína ævi. Hún sat í yfirstjórn 85-nefndarinnar sem skipulagði aðgerðir íslenskra kvennasamtaka 1985, á lokaári kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna, var formaður útgáfunefndar um sögu Kvenréttindafélags Íslands 1992-1993 og sat í stjórn Hlaðvarpans 1987-1995, síðast sem formaður stjórnar.

Mikill missir er af þessari baráttukonu, sem átti þátt í að skapa samfélag okkar í dag byggt á jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi. Sólveig ávarpaði fundargesti á hundrað ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins og lauk orðum sínum svo: „Ég vil að lokum óska þess að komandi kynslóðir hafi þrek, kjark og áræði til að halda baráttunni áfram og gefist aldrei upp“. Konur á Íslandi eiga baráttukonum eins og Sólveigu allt að þakka og við í Kvenréttindafélaginu höldum svo sannarlega áfram baráttunni!

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Sólveigu framlag hennar til félagsins og jafnréttisbaráttu kynjanna og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Lesið ræðu Sólveigar Ólafsdóttur á afmælishátíð Kvenréttindafélags Íslands 27. janúar 2007.