28. febrúar 2018
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands hefur tekið til umsagnar lög nr. 10/2008, jafnréttislög, í heild sinni, að ósk stjórnvalda. Félagið fagnar því að lögin séu nú tekin til endurskoðunar og skilar eftirfarandi athugasemdum.

Almennar athugasemdir:

Kvenréttindafélag Íslands telur að skerpa þurfi gildissvið laganna. Það mætti gera í 1. kafla laganna. Telur félagið mikilvægt að kveða á um forgangsrétt jafnréttislaga, þ.e. að þau gildi um öll svið stjórnsýslunnar og ríkisvalds (og víðar ef það á við) og að þau gangi framar öðrum lögum. Það má t.d rifja upp að þegar skipað var í hæfisnefnd um skipan dómara 2010 að Lögmannafélagið taldi sér ekki skylt að fylgja ákvæðum jafnréttislaga um jafnt kynjahlutfall í nefndum og ráðum. Rökstuðningur LFMÍ var á þá leið að sérlög um skipan dómsvalds gengju framar jafnréttislögum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að það verði skýrt við endurskoðun laganna að jafnréttislög hafi forgangsrétt.

Kvenréttindafélag Íslands bendir á að 10. mars 2016 skilaði nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum tilmæli til íslenskra stjórnvalda um hvað betur má fara í jafnréttismálum hér á landi (sjá: CEDAW: Concluding observations on the combined seventh and eight periodic reports of Iceland, 2016. Hér eftir nefnt CEDAW/C/ISL/CO/7-8). Nefndin bendir á vankanta í íslenskri löggjöf til að uppfylla alþjóðlega sáttmála og samninga, þ.á.m.:

  • að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi fullgilt Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna 1985 og viðauka árið 2001, hefur Alþingi ekki enn innleitt hann í íslenska löggjöf. Nefndin hvetur stjórnvöld til að innleiða Kvennasáttmálann í íslenska löggjöf tafarlaust, sem og setja löggjöf sem tekur á fordómum og mismunun í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins 2000/78/ESB og 2000/43/ESB (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 10). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni.
  • Að íslensk stjörnvöld eigi enn eftir að innleiða Evrópuráðssáttmálann um afnám ofbeldis gegn konum, hinn svokallaða Istanbúlsáttmála (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 20). Tekur Kvenréttindafélag íslands undir þessa gagnrýni.
  • Að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn stofnað sjálfstæða mannréttindastofnun, eins og við höfum skuldbundið okkur að gera í samræmi við svokallaðar Parísarreglur frá 1991 (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 14). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni. Sjálfstæð mannréttindastofnun sem starfar í góðu og nánu samstarfi við Jafnréttisstofnun er algjört grundvallaratriði til að tryggja mannrétti hér á landi og styrkja stöðu kvenna og karla.
  • Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum lýsti einnig áhyggjum yfir því hve fáum sértækum aðgerðum sé beitt til að jafna stöðu kynjanna (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 15a) og gagnrýndi íslensk stjórnvöld fyrir að meta ekki áhrif þeirra sértækra aðgerða sem beitt eru (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 16a). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni og hvetur stjórnvöld til að stórefla rannsóknir og gagnaöflun innan stjórnsýslunnar svo að hægt sé að meta raunáhrif sértækra aðgerða á stöðu kynjanna.
  • Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum gagnrýndi einnig íslenska jafnréttislöggjöf og stefnumótun stjórnvalda fyrir að ekki taka tillit til kynjasjónarmiða og hvatti stjórnvöld til að beita samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslu á öllum sviðum, og þá sérstaklega að kynjagreina opinberar fjárveitingar (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 16b). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni og leggur ennfremur til að í jafnréttislög verði kveðið á um að opinberar fjárveitingar í menningum, listum og íþróttum skuli skipt jafnt á milli kynjanna, líkt og nefndin leggur til (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 40).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur nefndina sem nú hefur það starf til að endurskoða lögin að athuga hvort hægt sé að bæta inn ákvæði um kynjuð fjárlög, að tryggja að opinber fjárlög  bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi séu sem gerð með samþættingu kynjasjónarmiða í huga.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur nefndina sem nú hefur það starf að endurskoða lögin að athuga hvort að hægt sé að bæta inn ákvæðum til að tryggja dagvistun barna frá eins árs aldri, til að brúa bilið á milli foreldraorlofs og trygggrar dagvistunar, sem og leita leiða að bæta stöðu einstæðra foreldra sem ekki geta gengið að jafn löngu foreldraorlofi og foreldrar í sambúð. Ljóst er að jafnrétti kynjanna verður ekki náð ef ekki er hægt að treysta atvinnuþátttöku kvenna og karla með því að tryggja það að daggæsla barna sé tryggð strax að loknu fæðingarorlofi.

Athugasemdir við einstakar greinar:

4. grein

Í 4. gr. er fjallað um skipulag og hlutverk Jafnréttisstofu.

Kvenréttindafélag Íslands telur að bæta þurfi umgjörðina í kringum Jafnréttisstofu. Það verður að skilja á milli stjórnsýsluhlutverks og eftirlitshlutverks Jafnréttisstofu. Jafnréttisstofa kemur að því að undirbúa tillögur innan stjórnsýslunnar sem hún hefur á síðari stigum eftirlit með, og hefur hvorki lagaúrræði, valdheimildir eða fjármagn til að fylgja þeim eftir.

Kvenréttindafélag Íslands leggur einnig áherslu á að það þurfi að stórefla starfsemi Jafnréttisstofu. Það þarf að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu, auka nálægð Jafnréttisstofu við stjórnsýslu ríkisins og tryggja það að starfsemi Jafnréttisstofu sé á landsvísu.

Við minnum á að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum hvatti íslensk stjórnvöld til að tryggja nægilegt fjármagn til Jafnréttisstofu til að gera henni kleyft að hafa eftirlit með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 12b og mgr. 30c).

6. grein

Í 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um aðild að málum fyrir kærunefnd jafnréttismála. Þar er nefnt að félög geti í eigin nafni rekið mál fyrir nefndinni. Kærunefnd jafnréttismála hefur túlkað þetta ákvæði afar þröngt, og telur að félög þurfi að reka mál fyrir hönd einstaklinga sem eigi lögvarða hagsmuni (Sjá t.d. Kærunefnd jafnréttismála, mál nr. 12/2017.).

Kvenréttindafélag Íslands telur að tryggja þurfi félagasamtökum aðild að málum fyrir kærunefnd jafnréttismála.

8. grein

Í 8. gr. er kveðið á um hverjir sitja í Jafnréttisráði.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að farið verði yfir hverjir fá að skipa fulltrúa í Jafnréttisráð, en a.m.k. ein félagasamtökin sem nefnd eru í greininni hafa ekki verið virk í tvö ár.

9. grein

Í 9. gr. er farið yfir hlutverk Jafnréttisráðs. Í greininni er kveðið á að Jafnréttisráð skal vera framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna og að skipuleggja jafnréttisþing. Kvenréttindafélag Íslands telur þetta hlutverk vera bæði óljóst og ráðinu ofviða. Í reynd hefur ráðið ekki bolmagn til að sinna þessum lögbundnu skyldum. Jafnréttisþing hefur verið skipulagt síðustu árin ekki af nefndarmönnum jafnréttisráðs heldur af opinberum embættismönnum í öðrum stofnunum, og óljóst er hvort að Jafnréttisráð gæti yfirhöfuð skipulagt jafnréttisþing þar sem ráðið hefur ekki starfsmann í fullu starfi.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að nefndin fari yfir hlutverk Jafnréttisráðs og stöðu þess innan stjórnsýslunnar og meti hvort að hægt sé með skilvirkari máta að tryggja aðkomu frjálsra félagasamtaka, kvennahreyfingarinnar og samtaka launafólks að stefnumótun í jafnréttisstarfi stjórnvalda.

11. grein

Í 11. gr. er kveðið á um þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Í greininni er ráðherra gert skylt að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í seinn innan við árs frá alþingiskosningum. Síðustu tíu árin hafa kosningar staðið yfir örara en á fjögurra ára fresti, og einnig hefur framkvæmdaáætlun á þessum sama áratug verið skilað inn mun seinna en á kveður a.m.k. einu sinni. Það er óhæft að ef kallað er til kosninga skyndilega og áður en fjögurra ára kjörtímabili er lokið, þurfi ný ríkisstjórn að skipuleggja jafnréttisstarf sitt út frá áætlunum fyrri ríkisstjórnar. Einnig er óhæft að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem samþykkt er of seint stýri aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar langt fram á næsta kjörtímabil.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að skerpt verði á þessari lagagrein, þar sem tryggt verður að hver ríkisstjórn geti markað sín spor í jafnréttismálin með því að skila inn aðgerðaráætlun, tímanlega, sem gildir í fjögur ár eða eins lengi og ríkisstjórnin heldur.

12. grein

Í 12. gr. er sveitarstjórnum gert skylt að skipa jafnréttisnefndir sem hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára. Annað hvert ár skulu nefndirnar afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála innan viðkomandi sveitarfélags.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til gagnsæis í jafnréttisstarfi stjórnvalda og leggur til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða sveitarfélög hafa skilað inn skýrslu og að hægt verði að lesa skýrslurnar á vefnum.

13. grein

Í 13. gr. er kveðið á um að í sérhverju ráðuneyti skulu starfa jafnréttisfulltrúar sem hafa sérþekkingu á jafnréttismálum. Ekki er kveðið á um í hvaða starfshlutfalli þessir sérfræðingar skuli vera, og fæst ráðuneyti hafa jafnréttisfulltrúa í fullu starfi. Ennfremur er kveðið á um að jafnréttisfulltrúar skulu árlega senda Jafnréttisstofu greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málefnasviði viðkomandi ráðuneyti.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að þessari lagagrein verði breytt svo að kveðið sé á um að jafnréttisfulltrúar innan ráðuneytanna gegni fullu starfi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til gagnsæis í jafnréttisstarfi stjórnvalda og leggur til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða ráðuneyti hafa skilað inn greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málasviði viðkomandi ráðuneytis og að hægt sé að lesa þessar greinargerðir á vefnum.

15. grein

Í 15. gr. er kveðið á um að gætt skal að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40% við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Kvenréttindafélag Íslands telur að hér þurfi að útvíkka gildissvið ákvæðisins og skerpa. Ekki liggur fyrir hvort ákvæðið gildi um nefndir á vegum Alþingis, en ýmsar sveitarstjórnir hafa þó beitt því um nefndir sem skipaðar eru kjörnum fulltrúum. Einnig tekur ákvæðið ekki til dómsvaldsins og það má t.d. rifja upp að þegar skipað var í hæfisnefnd um skipan dómara 2010 að Lögmannafélagið taldi sér ekki skylt að fylgja ákvæðum jafnréttislaga um jafnt kynjahlutfall í nefndum og ráðum.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að skýrt verði kveðið á um að ákvæði um kynjakvóta gildi um allar opinberar nefndir, hvort sem er hjá stjórnsýslunni, Alþingi, á sveitarstjórnarstigi eða innan dómstóla.

Kvenréttindafélag Íslands vill árétta, af þessu tilefni, að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum sendi tilmæli til íslenskra stjórnvalda í mars 2016 um að grípa tafarlaust til aðgerða, þar á meðal sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í háttsettum embættum innan utanríkisþjónustunnar (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 26a).

Kvenréttindafélag Íslands leggur einnig til að kveðið verður á að kynjahlutföll í dómsstólum landsins skuli vera jöfn og ekki minna en 40%.

18. grein

Í 18. gr. er kveðið á um réttindi og skyldur fyrirtækja og stofnana þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn á ársgrundvelli.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að í jafnréttislögin verður bætt við þeirri grein sem kveður á um þá skyldu sem kveðið er á um í 63. gr. laga um hlutafélög 2/1995, í 39. gr. laga um einkahlutafélög 138/1994 og 29. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða 129/1997, að í stjórnum hlutafélaga skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

Kvenréttindafélag Íslands vill árétta, af þessu tilefni, að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum sendi tilmæli til íslenskra stjórnvalda í mars 2016 um að íhuga að tryggja jöfn kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja með 49 eða færri starfsmenn (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 30e).

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að ákvæðið um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og stofnana verði útvíkkað svo að það eigi við um fyrirtæki sem hafi 25 eða fleiri starfsmenn á ársgrundvelli, ekki fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eins og kveðið er á um í dag.

Í 18. gr. er einnig kveðið á um að fyrirtæki eða stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sinni og endurskoða á þriggja ára fresti. Skulu þessi fyrirtæki og stofnanir afhenda þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því. Enn fremur skulu þessi afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um framgang mála þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því innan hæfilegs frests.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til þess að öll fyrirtæki eða stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu vera skylt að senda inn þessar áætlanir til Jafnréttisstofu sem fylgist með því hvort fyrirtæki og stofnanir sinni þar með lögbundnum skyldum sínum.

Enn fremur leggur Kvenréttindafélag Íslands til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða fyrirtæki og stofnanir hafa sent inn jafnréttisáætlanir sínar og að hægt sé að lesa þessar áætlanir á vefnum.

19. grein

Í 19. gr. laganna er fjallað um launajafnrétti. Þar er m.a. kveðið á um að starfsmenn sé ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að þessi grein verði skerpt og gerð skýrari, að athugað verði hvort hægt sé að banna trúnaðarákvæði í ráðningarsamningum eða atvinnurekendur skyldaðir til að hafa öll laun opinber, annað hvort innan vinnustaðar eða út á við, t.d. í gagnagrunni á vegum skattayfirvalda.

Í 19. gr. er fyrirtækjum eða stofnunum þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli gert skylt að undirgangast jafnlaunavottun á minnst þriggja ára fresti. Er Jafnréttisstofu gert skylt að halda skrá yfir fyrirtæki og stofnanir sem öðlast hafa vottun sem og skrá yfir fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli sem hafa ekki öðlast vottun og skulu samtök aðila vinnumarkaðarins hafa aðgang að skránni.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til gagnsæis í jafnréttisstarfi stjórnvalda og leggur til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða fyrirtæki hafa undirgengist jafnlaunavottun, sem og þau fyrirtæki sem ekki hafa öðlast vottun.

22. grein

Í 22. gr. er kveðið á um að atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.

Líkt og sögur sem sagðar hafa verið síðustu mánuði undir myllumerkinu #metoo benda til, er pottur víða brotinn í þessum málum. Kvenréttindafélag Íslands leggur til að þessi grein verði skerpt, að það sé skýrt hver beri ábyrgð á því að eftirlit eigi sér stað á vinnustöðum og að það sé fylgst með því hvort að atvinnurekendur, stofnanir, félagasamtök og skólar bjóði upp á fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni eða kynferðislega áreitni á vinnustað.

23. grein

Í 23. gr. er kveðið á um kynjasamþættingu í menntun og skólastarfi. Þar er m.a. kveðið á um að nemendur skulu hljóta fræðslu um jafnréttismál á öllum skólastigum og að kennslu- og námsgögnum skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Í þessari grein er kveðið á um að jafnréttis kynjanna sé gætt í skóla- og uppeldisstarfi sem og í íþrótta- og tómstundastarfi.

Við bendum á að eitt af tilmælum nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum er að koma á skyldukennslu í mannréttindakennslu kvenna á grunnskólastigi og menntaskólastigi, þar sem m.a. er fjallað um kynfrelsi (CEDAW 28a).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til að þessi grein verði skerpt og efld. Félagið veltir fyrir sér hvaða skyldur falla á Menntamálastofnun í jafnréttismálum og hvetur til að þessar skyldur verði útlistaðar í Jafnréttislögum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum. Kynjafræði ætti að kenna sem sérstaka námsgrein, auk þess að kennsla og námsefni í öðrum fögum skulu vera skipulögð á grundvelli jafnrétti.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að fjárveitingar til íþrótta- og tómstundamála skulu kynjagreindar og að fjárveitingum skulu skipt jafnt á milli kynjanna.

31. og 32. grein

Í 31. og 32. gr. laganna er kveðið á um viðurlög við brot á jafnréttislögunum, skaðabætur og sektir. Í 4. gr. laganna er Jafnréttisstofu gert heimilt að ákveða dagsektir allt að 50.000 kr. á stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem láta Jafnréttisstofu ekki í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik, ef rökstuddur grunur er að viðkomandi aðilar hafi brotið gegn jafnréttislögum. Einnig er Jafnréttisstofu heimilt að setja dagsektir á aðila sem framfylgja ekki úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Í 18. grein getur Jafnréttisstofa sett dagsektir á fyrirtæki eða stofnanir sem ekki skila inn jafnréttisáætlun þegar kallað er eftir þeim. Að bestu vitund Kvenréttindafélags Íslands hefur þessum ákvæðum aldrei verið beitt, þ.e. að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafa aldrei verið sektuð fyrir brot á jafnréttislögum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að þessi grein um viðurlög séu skýrð svo að þeim sé beitt á markvissan hátt. Það er ótækt að þeim viðurlögum sem eru í boði gegn brotum á jafnréttislögum sé ekki beitt.