Stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð

Stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð á Austurvelli, miðvikudaginn 4. sept. kl. 17:30

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna er á leið til Íslands. Stefna hans og stjórnarinnar í Hvíta húsinu misbýður fjölmörgum Íslendingum. Fjöldi félagasamtaka hefur tekið höndum saman um að skipuleggja útifund sem verður vettvangur fólks til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk.

Flutt verða fimm stutt ávörp, en ræðumenn verða Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fv. formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni, Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur og Isabella Rivera innflytjandi frá Bandaríkjunum og aktívisti hjá No Borders.

Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði auk þess sem almenningur er hvattur til að mæta og láta skoðun sína í ljós, hver með sínu nefi.