Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum (tíðavörur og getnaðarvarnir), 52. mál, 149. löggjafarþing.

28. febrúar 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands styður heilshugar þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt á tíðavörum og getnaðarvörum.

Í frumvarpinu er lagt til að einnota og margnota tíðavörur þar með talin dömubindi, tíðatappar og álfabikarar, ásamt öllum tegundum getnaðarvarna, falli í lægra þrep virðisaukaskatts.

Teljum við þessa breytingu vera sjálfsagða og eðlilega. Tíðavörur og getnaðarvarnir eru nauðsynjavörur ekki lúxusvörur og virðisaukaskattlagning ætti að taka tillit til þess.

Tíðavörur og getnaðarvörur eru vörur sem nauðsynlegar eru flestum konum og öðru fólki sem fer á blæðingar og kostnaður við þær fellur aðallega á konur. Teljum við það jafnréttismál að þessar vörur séu skattlagðar í lægra þrepi virðisaukaskatts. Bendum við einnig á að í núgildandi lögum falla smokkar í lægra þrep virðisaukaskatts. Teljum við það sjálfsagt og eðlilegt að getnaðarvarnir sem nýttar eru af konum séu í sama skattþrepi.