Kvenréttindafélagið fagnar 113 ára afmæli sínu

Kvenréttindafélag Íslands fagnaði 113 ára afmæli sínu í vikunni, en félagið var stofnað þann 27. janúar 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. 

Var Kvenréttindafélagið stofnað til að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir. Konur á Íslandi náðu kosningaréttinum 1915 og jafnan kosningarétt árið 1920, en enn höfum við ekki náð hinum markmiðunum sem konur settu sér fyrir rúmri öld síðan. Enn er kjaramisrétti kynjanna mikið og kynbundið ofbeldi og áreiti er landlægt. 

Formenn Kvenréttindafélags Íslands. Á mynd: Efri röð frá vinstri: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir framkvæmdastýra, Sigríður Lillý Baldursdóttir (1997-1999), Fríða Rós Valdimarsdóttir (2015-2019), Gerður Steinþórsdóttir (1989-1990), Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir (1999-2001), Ragnheiður Bóasdóttir (2012-2013), Arndís Ármann Steinþórsdóttir (1989-1990). Neðri röð frá vinstri: Inga Jóna Þórðardóttir (1992-1995), Tatjana Latinovic (2019- ), Þorbjörg Inga Jónsdóttir (2001-2008). Ljósmyndari Juliette Rowland.

Þrátt fyrir að við höfum náð langt í að tryggja jafnrétti kynjanna á Íslandi eigum við enn langt í land. Kvenréttindafélag Íslands stendur því enn vaktina og vinnur að jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Núlifandi formenn og heiðursfélagar Kvenréttindafélagsins hittust í vikunni til að ræða árangur liðinna áratuga og þær áskoranir sem eru framundan. 

Á þessu ári minnumst við stórra áfanga í jafnréttisbaráttunni. Hundrað ár eru liðin síðan allar konur á Íslandi fengu kosningarétt, 50 ár eru frá því Rauðsokkahreyfingin var stofnuð og síðan kona varð fyrst ráðherra á Íslandi, Auður Auðuns. 40 ár eru frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti, 25 ár eru frá því að ákvæði var sett í stjórnarskrána um jafnan rétt kvenna og karla í hvívetna og 25 ár er síðan Sameinuðu þjóðirnar héldu síðustu kvennaráðstefnuna í Beijing, Kína, og samþykktu framkvæmdaáætlun þjóða heims í jafnréttismálum. 

Heiðursfélagar Kvenréttindafélags Íslands. Á mynd: Sigríður Th. Erlendsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir, Björg Einarsdóttir. Ljósmyndari Juliette Rowland.

Mikið verk er framundan við að tryggja jafnrétti kynjanna, allra kynja, ekki aðeins á Íslandi heldur alls staðar í heiminum. Bakslag er í jafnréttismálum og kvenréttindum á alþjóðavettvangi og Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki boðað kvennaráðstefnu síðasta aldarfjórðunginn því óttast er að sá árangur sem vannst í Beijing 1995 verði dreginn til baka.

Tökum höndum saman og breytum heiminum! Jafnrétti strax!

Formenn, heiðursfélagar og stjórn Kvenréttindafélags Íslands og formenn Menningar- og minningarsjóðs kvenna fagna 113 ára afmæli félagsins 27. janúar 2020.
Ljósmyndari Juliette Rowland.

Sjá fleiri myndir úr veislunni hér.