Umsögn um lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, mál nr. 126/2020, forsætisráðuneytið.


7. ágúst 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessu frumvarpi til endurskoðunar laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, endurskoðun sem er löngu tímabær. Vinna og aðdragandi þessa frumvarps hefur verið til fyrirmyndar og vert að hrósa stjórnvöldum fyrir gott samráð við femínísk samtök við vinnslu frumvarpsins. Þó má gagnrýna að þátttakendur sem sátu í starfshópum fyrir hönd femínískra samtaka við vinnslu frumvarpsins fengu ekki greitt fyrir vinnu sína, en aðrir sátu í starfshópum sem hluti af sínu launaða starfi. 

Kvenréttindafélag Íslands tók til umsagnar lög nr. 10/2008, jafnréttislög, í heild sinni að ósk stjórnvalda og sendi inn umsögn 28. febrúar 2018. Kvenréttindafélagið átti fulltrúa í fjórum starfshópum sem skipaðir voru haustið 2019 til að vinna að endurskoðun núgildandi jafnréttislaga. Hóparnir tóku ekki þátt í að móta þá lokagerð sem er til umsagnar hér.  

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því sérstaklega að í lögunum er tekið tillit til allra kynja og að nýju lögin taki til stöðu kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Einnig fagnar Kvenréttindafélagið því að í lögunum sé það skýrt tekið fram að nemendur á öllum skólastigum skulu hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi og því að stjórnvöld skuli kalla saman samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti tvisvar á ári, þar af einu sinni með jafnréttisráðherra.

Kvenréttindafélag Íslands er í megindráttum sammála drögum að frumvarpi um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en hefur þó eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið. 

Kvenréttindafélagið telur þannig mikilvægt að kveða á um forgangsrétt jafnréttislaga, þ.e. að þau gildi um öll svið stjórnsýslunnar og ríkisvalds (og víðar ef það á við) og að þau gangi framar öðrum lögum. Það má t.d rifja upp að þegar skipað var í hæfisnefnd um skipan dómara 2010 að Lögmannafélagið taldi sér ekki skylt að fylgja ákvæðum jafnréttislaga um jafnt kynjahlutfall í nefndum og ráðum. Rökstuðningur LFMÍ var á þá leið að sérlög um skipan dómsvalds gengju framar jafnréttislögum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að það verði skýrt að jafnréttislög hafi forgangsrétt.

Kvenréttindafélag Íslands minnir á að 10. mars 2016 skilaði nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum tilmæli til íslenskra stjórnvalda um hvað betur má fara í jafnréttismálum hér á landi (sjá: CEDAW: Concluding observations on the combined seventh and eight periodic reports of Iceland, 2016. Hér eftir nefnt CEDAW/C/ISL/CO/7-8). Nefndin bendir á vankanta í íslenskri löggjöf til að uppfylla alþjóðlega sáttmála og samninga, þ.á.m.:

  • að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi fullgilt Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna 1985 og viðauka árið 2001, hefur Alþingi ekki enn innleitt hann í íslenska löggjöf. Nefndin hvetur stjórnvöld til að innleiða Kvennasáttmálann í íslenska löggjöf tafarlaust, sem og setja löggjöf sem tekur á fordómum og mismunun í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins 2000/78/ESB og 2000/43/ESB (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 10). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni.
  • Að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn stofnað sjálfstæða mannréttindastofnun, eins og við höfum skuldbundið okkur að gera í samræmi við svokallaðar Parísarreglur frá 1991 (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 14). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni. Sjálfstæð mannréttindastofnun sem starfar í góðu og nánu samstarfi við Jafnréttisstofnun er algjört grundvallaratriði til að tryggja mannréttindi hér á landi og styrkja stöðu kvenna og karla.
  • Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum lýsti einnig áhyggjum yfir því hve fáum sértækum aðgerðum sé beitt til að jafna stöðu kynjanna (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 15a) og gagnrýndi íslensk stjórnvöld fyrir að meta ekki áhrif þeirra sértæku aðgerða sem beitt er (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 16a). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni og hvetur stjórnvöld til að stórefla rannsóknir og gagnaöflun innan stjórnsýslunnar svo að hægt sé að meta raunáhrif sértækra aðgerða á stöðu kynjanna, og hvetur ennfremur að í kjölfar þessara rannsókna og gagnaöflunar að gripið sér til raunverulegra aðgerða til að leiðrétta kynjahalla.
  • Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum gagnrýndi einnig íslenska jafnréttislöggjöf og stefnumótun stjórnvalda fyrir að taka ekki tillit til kynjasjónarmiða og hvatti stjórnvöld til að beita samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslu á öllum sviðum, og þá sérstaklega að kynjagreina opinberar fjárveitingar (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 16b). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni og leggur ennfremur til að í jafnréttislögum verði kveðið á um að opinberum fjárveitingum í menningum, listum og íþróttum skuli skipt jafnt á milli kynjanna, líkt og nefndin leggur til (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 40).

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er aðeins rætt um jafnrétti á grundvelli kyns. Þó er mikilvægt að líta til fleiri breytna þegar við ræðum um jafnrétti og tekur Kvenréttindafélag Íslands undir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands frá 28. júlí 2020 sem kallar eftir lögum um jafna meðferð óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins. Mannréttindaskrifstofa minnir á að skv. ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna hefði átt að leggja fyrir Alþingi frumvarp um lög þess efnis fyrir 1. september 2019. Enn hefur þetta frumvarp ekki verið lagt fram.

Kvenréttindafélag Íslands kallar eftir nýrri heildarlöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Athugasemdir við einstakar greinar:

2. gr. Orðskýringar

Í 4. gr. er kynferðisleg áreitni skilgreind sem svo: „Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.“

Kvenréttindafélag Íslands leggur til þess að orðalagið sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður sé fjarlægt, og að kynferðisleg áreitni sé því skilgreind sem svo:  Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

4. gr. Jafnréttisáætlun og samþætting jafnréttissjónarmiða í starfsmannastefnu

Í 4. gr. er kveðið á um að fyrirtæki eða stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína og endurskoða á þriggja ára fresti. Skulu þessi fyrirtæki og stofnanir afhenda afrit af jafnréttisáætlun ásamt framkvæmdaáætlun þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því, sem og skýrslu um framgang mála þegar Jafnréttisstofa óskar þess.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til þess að öll fyrirtæki eða stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli vera gert skylt að senda inn þessar áætlanir til Jafnréttisstofu sem fylgist með því hvort fyrirtæki og stofnanir sinni þar með lögbundnum skyldum sínum.

Enn fremur leggur Kvenréttindafélag Íslands til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða fyrirtæki og stofnanir hafa sent inn jafnréttisáætlanir sínar og að hægt sé að lesa þessar áætlanir á vefnum.

14. gr. Menntun og skólastarf

Í 14. gr. er kveðið á um að nemendur skulu hljóta fræðslu jafnréttis- og kynjafræðslu á öllum skólastigum og að kennslu- og námsgögnum skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. 

Við minnum á að meðal tilmæla nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum er að koma á skyldukennslu í mannréttindakennslu kvenna á grunnskólastigi og menntaskólastigi, þar sem m.a. er fjallað um kynfrelsi (CEDAW 28a).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til að þessi grein verði skerpt og efld og að jafnréttis- og kynjafræði verði gerð að aðgreindu skyldufagi á öllum skólastigum. Jafnréttis- og kynjafræði ætti að kenna sem sérstaka námsgrein, auk þess að kennsla og námsefni í öðrum fögum skulu vera skipulögð á grundvelli jafnrétti.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að fjárveitingar til íþrótta- og tómstundamála skulu kynjagreindar og að fjárveitingum skuli skipt jafnt á milli kynjanna.

Kvenréttindafélag Íslands veltir fyrir sér hvaða skyldur falla á Menntamálastofnun í jafnréttismálum og hvetur til að þessar skyldur verði útlistaðar í jafnréttislögum.

23. gr. Jafnréttisráð

Í 23. gr. er rætt um hlutverk og skipulagningu Jafnréttisráðs. Kvenréttindafélagið fagnar þeim breytingum sem frumvarpið gerir á skipulagningu og hlutverki ráðsins og telur að þær eigi eftir að styrkja starf ráðsins og efla jafnréttismál í stjórnkerfinu. 

Hlutverk Jafnréttisráðs er afmarkað í frumvarpinu  svo að það tekur aðeins til jafnréttis kynjanna, ekki til jafnréttis í víðtækari merkingu eins og t.d. Jafnréttisstofa. Því teljum við mikilvægt að breyta nafni ráðsins í Kynjajafnréttisráð, til að endurspegla þetta afmarkaða hlutverk.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að Jafnréttisráð verði nefnt Kynjajafnréttisráð.

26. gr. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta

Í 26. gr. er kveðið á um að í sérhverju ráðuneyti skulu starfa jafnréttisfulltrúar sem hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna. Ekki er kveðið á um í hvaða starfshlutfalli þessir sérfræðingar skuli vera og því miður eru fæst ráðuneyti með jafnréttisfulltrúa í fullu starfi. Ennfremur er kveðið á um að jafnréttisfulltrúar skulu árlega senda Jafnréttisstofu greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur einnig til þess að hlutverk jafnréttisfulltrúa verði útvíkkað svo að þeir hafi þekkingu bæði á jafnrétti kynjanna sem og jafnrétti í víðtækari merkingu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kveðið sé á um að jafnréttisfulltrúar innan ráðuneytanna gegni fullu starfi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til gagnsæis í jafnréttisstarfi stjórnvalda og leggur til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða ráðuneyti hafa skilað inn greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málasviði viðkomandi ráðuneytis og að hægt sé að lesa þessar greinargerðir á vefnum.

27. gr. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera

Í 27. gr. er kveðið á um að gætt skal að hlutfall kvenna og karla sé ekki minna en 40% við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Kvenréttindafélag Íslands telur að hér þurfi að útvíkka gildissvið ákvæðisins og skerpa. Ekki liggur fyrir hvort ákvæðið gildi um nefndir á vegum Alþingis, en ýmsar sveitarstjórnir hafa þó beitt því um nefndir sem skipaðar eru kjörnum fulltrúum.

Einnig tekur ákvæðið ekki til dómsvaldsins og það má t.d. rifja upp að þegar skipað var í hæfisnefnd um skipan dómara 2010 að Lögmannafélagið taldi sér ekki skylt að fylgja ákvæðum jafnréttislaga um jafnt kynjahlutfall í nefndum og ráðum.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að skýrt verði kveðið á um að ákvæði um hlutfall kynjanna gildi um allar opinberar nefndir, hvort sem er hjá stjórnsýslunni, Alþingi, á sveitarstjórnarstigi eða innan dómstóla.

Kvenréttindafélag Íslands vill árétta, af þessu tilefni, að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum sendi tilmæli til íslenskra stjórnvalda í mars 2016 um að grípa tafarlaust til aðgerða, þar á meðal sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í háttsettum embættum innan utanríkisþjónustunnar (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 26a).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til þess að tryggja það að kynjahlutföll í dómsstólum landsins og í dómskerfinu öllu skuli vera jöfn og ekki minna en 40%.