Ákvörðun um stofnun ungmennaráðs Kvenréttindafélagsins var tekin á aðalfundi félagsins þann 15. apríl sl. Sama dag var 95 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta, fagnað. Afmæli fyrstu konunnar í heiminum sem var kosin til embættis þjóðhöfðinga í lýðræðilegum kosningum!

Stofnun ungmennaráðsins er að hluta til andsvar við því bakslagi sem orðið hefur í samfélagsumræðunni um jafnréttismál, kvenréttindi og réttindi hinsegin fólks sem talið er að skipulagðir og fjármagnaðir þrýstihópar standi að baki sbr. viðtal við Neil Datta, framkvæmdastjóra evrópsku þingmannasamtakanna um kyn- og frjósemisréttindi, í Silfrinu 14. apríl sl.

Þau sem standa að stofnun ungmennaráðsins með Kvenréttindafélaginu eru öll þátttakendur í Femme Empower verkefninu. Þau hafa undanfarið komið m.a. með tillögu að nafni ráðsins og formlegum stofndegi.

Ungmennaráðið hefur fengið heitið Laufey. Það er nafnið sem stofnandi Kvenréttindafélagsins, Bríet Bjarnhéðinsdóttir og eiginmaður hennar, Valdimar Ásmundsson, gáfu dóttur sinni. Laufey var jafnréttisfrömuður eins og foreldrar sínir. Sem dæmi var hún fyrsta unga konan til að taka inntökupróf inn í Menntaskólann í Reykjavík (MR) eftir að konur fengu inngöngu í skólann árið 1904. Fram að þeim tíma voru eingöngu drengir sem gátu stundað nám í MR einkum til að verða embættismenn. Laufey útskrifaðist árið 1910 og tók síðan við formennsku Kvenréttindafélagsins af móður sinni árið 1927. Hér er að finna meiri upplýsingar um hana.

Laufey hefur það að markmiði að:

  • Stuðla að því að sjónarmið og áherslur ungs fólks í jafnréttisbaráttunni séu ávallt höfð til hliðsjónar í starfi KRFÍ.
  • Stuðla að nýliðun í KRFÍ.
  • Auka þekkingu og vitund meðal ungs fólks á jafnréttismálum.
  • Auka samstarf við önnur ungmennaráð innanlands og erlendis.

Formlegur stofnfundur ungmennaráðsins verður 27. september nk. en á þeim degi fyrir 169 árum síðan fæddist Bríet, mamma Laufeyjar.

Allt ungt fólk á aldrinum 18-35 óháð kyni er velkomið að verða stofnfélagar og vinna að markmiðum félagsins.

Þau sem hafa áhuga á að aðstoða við stofnun félagsins er líka velkomið að hafa samband við Femme Empower hópinn með því að senda tölvupóst á femempowericeland@gmail.com og þau verða í bandi..!

Aðrar fréttir