Kvenréttindafélag Íslands hefur staðið vörð um réttindi kvenna á Íslandi í meira en hundrað ár.

Kvenréttindafélag Íslands eru ein elstu félagasamtök Íslands, en það var stofnað árið 1907 af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til að stuðla að framgangi kvenna í íslensku samfélagi, hvort sem er í stjórnmálum, atvinnulífi, menntun eða menningu.

Við skrifum umsagnir um lagafrumvörp og opinberar skýrslur, við höldum reglulega opna fundi og málþing um málefni sem varða opna fundi um jafnréttismál sem eru á döfinni hverju sinni, og við styðjum við yngri grasrótarsamtök sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna og bjóðum þeim aðstöðu á heimili okkar, Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Félagið heldur ávallt upp á kvenréttindadaginn 19. júní með því að blása til veislu á heimili sínu á Hallveigarstöðum og útgáfu tímaritsins 19. júní.

Kvenréttindafélagið skipuleggur einnig samráðsfundi með konum til að efla einstök jafnréttismál, t.d. fundi með konum á Alþingi og í sveitarstjórnum um leiðir til að auka þátttöku kvenna og styrkja stöðu þeirra á vettvangi stjórnmálanna og með kennurum í því augnamiði að auka þekkingu og færni kennara á sviði jafnréttismála.

Kvenréttindafélagið hefur mikinn áhuga á því að stuðla að öflugu samstarfi samtaka sem starfa að jafnréttis- og kvenréttindamálum. Því skipuleggur félagið svokölluð kynjaþing á árlega þar sem einstaklingar og félagasamtök sem starfa að jafnréttismálum gefst tækifæri til að ráða ráðum sínum og kynna starf sitt. Kvenréttindafélagið frá upphafi staðið í breiðfylkingu kvennasamtaka  á kvennafrídegi og heldur utan um vefsvæði kvennafrísins, kvennafri.is.

Bókaútgáfa og tímarit

Félagið hefur gefið út ýmsar bækur um kvenréttindi og kvennasögu. Ber þar sérstaklega að nefna Gegnum glerþakið: valdahandbók fyrir konur eftir Maria Herngren, Eva Swedenmark og Annica Wennström í þýðingu Bjargar Árnadóttur og Veröld sem ég vil : saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992 eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur sem enn í dag er heildstæðasta saga kvennabaráttunnar hér á landi.

Árið 2014 gaf Kvenréttindafélagið út ljóðabókina Konur á ystu nöf í samstarfi við bókaútgáfuna Meðgönguljóð. Konur á ystu nöf er afrakstur samnefndrar bókmenntahátíðar sem haldin var í Reykjavík júlí 2014. Í safninu birtast ljóð eftir Arngunni Árnadóttur, Bergrúnu Önnu Hallsteinsdóttur, Björk Þorgrímsdóttur, Valgerði Þóroddsdóttur, Juuli Niemi og Vilja-Tuulia Huotarinen frá Finnlandi, Katti Frederiksen frá Grænlandi og Vónbjørt Vang frá Færeyjum.

Kvenréttindafélagið hefur gefið út ársritið 19. júní síðan árið 1951. Nú er hægt að lesa alla árganga þessa tímarits á veraldarvefnum. Smellið hér!

Árið 2017 gaf Kvenréttindafélagið Íslands öllum nýnemum í framhaldsskólum landsins bókina We Should All Be Feminists eftir Chimamanda Ngozi Adichie, um 4300 ungmennum. Bókin er þýdd af Ingunni Ásdísardóttur og gefin út af Benedikt bókaforlagi.

Lítið námsefni er til á íslensku um kynjafræði og jafnrétti, sérstaklega á framhaldsskólastigi. Við ættum öll að vera femínistar er frábær viðbót við þann bókakost sem framhaldsskólakennarar í kynjafræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og sagnfræði geta nýtt til kennslu; sem og frábær lesning fyrir ungt fólk sem er að hefja framhaldsskólagöngu sína. Í bókinni lýsir Adichie femínískri hugmyndafræði á aðgengilegan hátt og vekur lesendur sína til umhugsunar um óréttlæti samfélags sem byggt er á ákveðnum hugmyndum um kyn og kynhlutverk.