Sagan

Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað árið 1907 á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu saman nokkrar konur að Þingholtsstræti 18 í Reykjavík, heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Tilgangurinn var að ræða stofnun félags sem gengist fyrir ýmsum breytingum á löggjöf landsins sem snerti konur og börn og framkvæmd laganna, eða eins og segir í 2. gr. fyrstu laga félagsins: “að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir”.

Til fundarins boðuðu Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Sigríður Hjaltadóttir Jensson. Telst þessi fundur stofnfundur félagsins þar sem samþykkt var af öllum fundarkonum að stofna félagið. Félagið hlaut nafnið Hið íslenska kvenréttindafélag og var kosin bráðabirgðastjórn sem falið var að semja frumvarp að lögum félagins. Kosningu í stjórn hlutu: Frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir formaður, frú Sigríður Hjaltadóttir Jensson, frú Guðrún Pétursdóttir, frk. Sigríður Björnsdóttir og frk. Laufey Vilhjálmsdóttir.

Þingholtsstræti 18
Þingholtsstræti 18

Á stofnfund félagsins mættu fimmtán konur og eru nöfn stofnfélaganna sem hér segir: Sigríður Hjaltadóttir Jensson, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Ingibjörg Þorláksson, Kristín Vídalín Jacobson, Guðrún Björnsdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Ingibjörg Guðbrandsdóttir, Elín Matthíasdóttir, Sigríður Björnsdóttir, Jórunn Guðmundsdóttir, Guðrún Daníelsdóttir, Margrét Stefánsdóttir, Þórunn Pálsdóttir, Laufey Vilhjálmsdóttir og Guðrún Aðalsteins.

Sigríður Th. Erlendsdóttir skrifaði sögu Kvenréttindafélagsins og kom bókin Veröld sem ég vil út á 85 ára afmæli félagsins 1992. Er þessi bóok enn í dag heildstæðasta saga kvennabaráttunnar hér á landi. Hægt er að kaupa eintök af Veröld sem ég vil á skrifstofu Kvenréttindafélagsins á 1000 kr. Hafið samband, postur [hjá] kvenrettindafelag.is!

Komdu í Kvenréttindafélagið!

Félagaskráning - Popp

Stuðningur þinn skiptir máli!

Kvenréttindafélag Íslands hefur staðið vörð 
um réttindi kvenna á Íslandi síðan 1907. 
 
Félagsgjöld eru 4.000 kr. á ári.