Vigdís Finnbogadóttir

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands var gerð að heiðursfélaga í Kvenréttindafélagi Íslands árið 1997.  Vigdís var kjörin forseti Íslands árið 1980, fyrst kvenna í heimi til að vera lýðræðislega kjörinn þjóðhöfðingi.

Framboð Vigdísar og kjör spratt upp úr grósku femínísku baráttunnar á 8. áratugnum og störf hennar í forsetatíð og eftir að hún lét af embætti hafa verið okkur öllum fyrirmynd og drifkraftur í áframhaldandi baráttu til kynjajafnréttis.

Árið 1987 birtist viðtal við Vigdísi í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins, þar sem hún ræddi mikilvægi þess að konur taki jafnan og fullan þátt í samfélaginu. Vigdís lauk viðtalinu með eftirfarandi sögu:

„Ég get sagt þér að ég hef tekið upp þann sið að rísa alltaf úr sæti þegar karlarnir standa upp á samkomum og syngja Fósturlandsins freyju. Ég dáist að fósturlandsins freyju og af hverju eiga þá karlar einir að standa upp? Finnst þér ekki fyndið að konur skuli límdar við stólana þegar verið er að syngja óð til landsins kvenna almennt? Ég hlakka til þess dags, þegar allt kvenfólk í landinu sprettur á fætur og horfir beint framan í karlana sína – og ekki upp til þeirra – þegar sú ágæta fósturlandsins freyja er lofuð á söngglöðum mannamótum.“

Fjögur viðtöl hafa birst við Vigdísi Finnbogadóttur í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins. Árið 1980 ræddi Þórunn Sigurðardóttir við Vigdísi, sem þá var í forsetaframboði. Ári seinna birtist viðtal Helga H. Jónssonar við nýjan forseta um fyrsta árið í embætti og árið 1987 spjallaði Rannveig Jónsdóttir við Vigdísi um forsetastörfin og uppvaxtarárin.

Myndasafn úr forsetatíð Vigdísar birtist í 19. júní árið 1996 þegar Vigdís lét af embætti og árið 2010 var birt viðtal við Vigdísi um störf hennar eftir forsetaembættið, en það árið fagnaði hún áttræðisafmælinu og við minntumst þess að 30 ár væru liðin frá kjöri hennar sem forseta.

Hægt er að votta Vigdísi virðingu sína með því að styðja Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem styrkir verkefni á sviðum tungumála, menningar og samskipta. Vigdís er formaður stjórnar sjóðsins, en viðfangsefni hans hafa hafa löngum verið meðal hennar helstu hugðarefna.

Jóhanna Sigurðardóttir

Jóhanna Sigurðardóttir er gerð að heiðursfélaga í Kvenréttindafélagi Íslands 27. janúar 2023 fyrir að brjóta glerþakið fyrir konur og hinsegin fólk í stjórnmálum á Íslandi og heimsvísu.

Jóhanna settist fyrst á þing árið 1978 fyrir Alþýðuflokkinn og var lengi vel ein af fáum konum á Alþingi. Hún stýrði þverpólitískri framkvæmdanefnd um launamál kvenna sem stofnuð var 1983, þar sem í sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, verkalýðshreyfingarinnar og kvennahreyfinga, þar á meðal Kvenréttindafélags Íslands.Á árunum 1987 til 1994 gegndi Jóhanna embætti félagsmálaráðherra og var hún allan þann tíma eina konan í ríkisstjórn. Á stjórnmálaferli sínum á Alþingi lagði Jóhanna fram fjölda mála er varða jafnrétti með einum eða öðrum hætti, þar á meðal stjórnarfrumvörp um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, málefni fatlaðra og málefni aldraðra.

Árið 1995 stofnaði Jóhanna stjórnmálaflokkinn Þjóðvaka og 2007 tók hún aftur sæti í ríkisstjórn fyrir hönd Samfylkingarinnar sem félagsmálaráðherra og svo félags- og tryggingamálaráðherra. Árið 2009 leiddi Jóhanna Samfylkinguna til kosningasigurs í kjölfar fjármálahrunsins. Jóhanna er fyrsta konan sem tekur við embætti forsætisráðherra á Íslandi og fyrsti þjóðarleiðtogi á heimsvísu sem hefur verið opinberlega samkynhneigð. Hið sama ár valdi Forbes hana á lista yfir 100 valdamestu konur heims. Ríkisstjórn Jóhönnu leiddu íslensku þjóðina í gegnum hremmingar fjármálakreppunnar og lagði undirstöðurnar að fjárhagslegri endurreisn íslensku þjóðarinnar. Undir forystu Jóhönnu var hlutfall kvenna og karla í fyrsta skipti jafnt í hópi ráðherra, og í hennar stjórnartíð var í fyrsta skipti skipuð ríkisstjórn þar sem fleiri konur en karlar gegndu ráðherraembættum.

Jóhanna er ekki fyrsta konan úr fjölskyldu sinni sem gerð að heiðursfélaga í Kvenréttindafélagi Íslands. Amma Jóhönnu og nafna hennar Jóhanna Guðlaug Egilsdóttir var í hópi brautryðjenda verkalýðsbaráttu á Íslandi og ein af fyrstu félögum Kvenréttindafélagsins. Hún var varaformaður Kvenréttindafélagsins 1948-1951 og var nefnd heiðursfélagi árið 1957.

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Jóhönnu fyrir vel unnin störf í þágu kvenréttinda og íslensk samfélags. Við erum stolt að gera hana að heiðursfélaga.

Kristín Ástgeirsdóttir

Kristín Ástgeirsdóttir er gerð að heiðursfélaga í Kvenréttindafélagi Íslands 27. janúar 2023 fyrir áratuga langa baráttu sína og störf í þágu kvenréttinda og rannsóknir á sögu kvenna á Íslandi.

Kristín hefur verið virk í femínísku hreyfingunni á Íslandi í hartnær hálfa öld. Hún var í Rauðsokkahreyfingunni 1976 til 1981 og tók þátt í að stofna Kvennaframboðið í Reykjavík 1982, og Samtök um kvennalista árið 1983. Hún sat í miðstjórn Friðarhreyfingar íslenskra kvenna á árunum 1985 til 1987. Hún var einnig meðal stofnenda Femínistafélags Íslands 2003. Árið 2017 stofnaði hún ásamt öðrum femíníska félagið IceFemin og hefur verið formaður Menningar- og minningarsjóðs síðan árið 2019.

Kristín settist á þing árið 1991 fyrir Samtök um kvennalista og sat til ársins 1999. Á þingtíma sínum lagði hún fram fjölda þingsályktunartillagna til að efla stöðu kvenna, sérstaklega á vinnumarkaði. Hún gegndi embætti formanns þingflokks kvennalistans árin 1992 til 1993, 1995 og 1997. Kristín vann við friðargæslu fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Kosovó 2000-2001 að málefnum kvenna. Kristín var skipuð framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu árið 2007 og gegndi því embætti til ársins

Kristín er sagnfræðingur að mennt og hefur unnið að rannsóknum  á sögu kvenna á Íslandi, einkum um konur í stjórnmálum og störf kvennahreyfinga. Tugir greina um konur og kvennahreyfinguna á Íslandi hafa birst eftir Kristínu frá árinu 1982 og framlag hennar til íslenskrar kvennasögu er ómetanlegt.

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Kristínu fyrir vel unnin störf í þágu kvenréttinda og rannsókna á sögu kvenna. Við erum stolt að gera hana að heiðursfélaga.

Esther Guðmundsdóttir 

Esther Guðmundsdóttir er gerð að heiðursfélaga í Kvenréttindafélagi Íslands 27. janúar 2023 fyrir áratuga langa baráttu sína og störf í þágu félagsins og kvenréttinda.

Esther gekk í Kvenréttindafélag Íslands árið 1976, ári eftir að konur á Íslandi gengu út af vinnustað í Kvennafríi 1975. Hið sama ár hóf hún störf fyrir ríkisskipaða kvennaársnefnd og ritaði skýrslu nefndarinnar 1977. Árið 1978 gekk Esther í stjórn félagsins og 23. febrúar 1981 var hún kjörin formaður félagsins, þá aðeins 32 ára gömul.

Esther gegndi embætti formanns Kvenréttindafélagsins til ársins 1986 og blómstraði félagið undir hennar formennsku. Esther skipulagði fjölda námskeiða og ráðstefna um kvenréttindi til að ná til almennings og virkjaði félagsfólk til starfa með því að stofna starfshópa um afmörkuð verkefni innan félagsins.

Esther var einn höfundur ritsins Konur og stjórnmál sem kom út 1983 og sat í ráðgjafarnefnd jafnréttisráðs 1981 til 1987. Hún var fulltrúi Kvenréttindafélagsins í alþjóðlegu kvenréttindasamtökunum International Alliance of Women og var kosin í stjórn samtakanna árið 1982 og sat í stjórn þar til ársins 1991. Einnig var hún fulltrúi félagsins í nefndinni um kvennafrí 1985. Hún var jafnframt í sendinefnd Íslands á Kvennaráðstefnu Sameinuðu Þjóðana í Nairobi. Hún sat í Jafnréttisráði fyrir hönd félagsins.

Eftir formannstíð sína sat hún í nefnd félagsins sem annaðist útgáfu á bókinni Veröld sem ég vil eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur, sögu Kvenréttindafélagsins frá stofnun 1907 til 1992. Hún sat í stjórn Menningar- og minnningarsjóðs kvenna, sem stofnaður var til minningar um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og er í umsjón Kvenréttindafélagsins, til margra ára. Hún var gjaldkeri sjóðsins árin 2010 til 2015 og skoðunarmaður reikninga hjá sjóðnum og félaginu til ársins 2019.

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Esther fyrir vel unnin störf í fjölda áratuga í þágu félagsins og kvenréttinda á Íslandi og á heimsvísu. Við erum stolt að gera hana að heiðursfélaga.

Heiðursfélagar fyrri ára

Sveinbjörg Hermannsdóttir

Sveinbjörg Hermannsdóttir var kjörin heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands á framkvæmdastjórnarfundi 25. ágúst 2009. Sveinbjörg, sem er fædd árið 1911, hefur verið félagi í KRFÍ í rúma hálfa öld og hefur sýnt félaginu mikla ræktarsemi. Á 99. aldursári sækir Sveinbjörg enn viðburði á vegum félagsins.  Á aðalstjórnarfundi KRFÍ 17. september sl. afhenti Margrét K. Sverrisdóttir, formaður KRFÍ, Sveinbjörgu heiðursskjal að þessu tilefni.

Viðtal við Sveinbjörgu birtist í 19. júní árið 2007.

Sólveig Ólafsdóttir

Sólveig tók sæti í stjórn Kvenréttindafélagsins 1972 og var kjörin formaður félagsins 1975, aðeins 27 að aldri. Er hún enn í dag yngsta konan til að gegna embætti formanns Kvenréttindafélagsins og er einnig meðal þeirra kvenna  sem hvað lengst hefur gegnt formennsku. Árið 2007 var hún kjörin heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands.

Mikil gróska var í samfélaginu á þeim árum sem Sólveig gegndi stöðu formanns, sér í lagi í baráttunni fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna. Sólveig tók við formennsku á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975, en það ár mörkuðu íslenskar konur spor sín í söguna þegar þær lögðu niður vinnu 24. október og söfnuðust saman á Lækjartorgi til að krefjast jafnréttis. Átti þessi fundur eftir að stórefla samkennd kvenna á Íslandi og leggja grundvöll fyrir frekari jafnréttisbaráttu. Sólveig sagði seinna meir að sér hefði þótt það „hreinlega ólýsanleg upplifun að sjá samstöðuna meðal kvenna í samfélaginu, sjá hinn mikla fjölda á Lækjartorgi og finna rafmagnað andrúmsloftið þar.“

Í stjórnartíð Sólveigar beitti Kvenréttindafélagið sér fyrir margs konar aðgerðum til að bæta stöðu kvenna, þá sérstaklega í skattamálum. Sólveig lét af embætti formanns 1981, en starfaði að jafnrétti kynjanna alla sína ævi. Hún sat í yfirstjórn 85-nefndarinnar sem skipulagði aðgerðir íslenskra kvennasamtaka 1985, á lokaári kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna, var formaður útgáfunefndar um sögu Kvenréttindafélags Íslands 1992-1993 og sat í stjórn Hlaðvarpans 1987-1995, síðast sem formaður stjórnar.

Sólveig átti þátt í að skapa samfélag okkar í dag byggt á jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi. Sólveig ávarpaði fundargesti á hundrað ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins og lauk orðum sínum svo: „Ég vil að lokum óska þess að komandi kynslóðir hafi þrek, kjark og áræði til að halda baráttunni áfram og gefist aldrei upp“. Konur á Íslandi eiga baráttukonum eins og Sólveigu allt að þakka og við í Kvenréttindafélaginu höldum svo sannarlega áfram baráttunni!

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Sólveigu framlag hennar til félagsins og jafnréttisbaráttu kynjanna.

Lesið ræðu Sólveigar Ólafsdóttur á afmælishátíð Kvenréttindafélags Íslands 27. janúar 2007.

Björg Einarsdóttir

Björg Einarsdóttir var gerð að heiðursfélaga Kvenréttindafélags Íslands árið 1997. Björg stóð í áratugi fremst í flokki þeirra kvenna sem börðust fyrir jafnrétti kynjanna og var meðal annars ein þeirra sem skipulagði kvennafrídaginn 1975.

Björg var virk í starfi Kvenréttindafélags Íslands frá 1975 og alveg til dauðadags. Hún sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, var varaformaður þess 1976-80, sat í ritnefnd ársritsins 19. júní og sá um skipulagningu fjölda ráðstefna og hélt erindi á mörgum þeirra. Má þar minnast á fyrstu ráðstefnu Kvenréttindafélagsins sem haldin var 1978, um verkmenntun og jafnrétti, sem Björg skipulagði og stóð fyrir. Einnig má minnast ráðstefnu Kvenréttindafélagsins með konum í sveitarstjórnum árið 1980 sem Björg tók þátt í að skipuleggja, en hún vakti mikla athygli og upp úr henni spratt sú hugmynd að kvennahreyfingar í hverjum stjórnmálaflokki gætu sett upp kvennalista og haft um það samráð þvert á flokksbönd. Sama ár hélt Kvenréttindafélagið ráðstefnu um jafna foreldraábyrgð þar sem Björg talaði um heimili og fjölskyldu, um verkaskiptingu foreldra sem mótandi afl í að skapa ímynd foreldra í augum barna, sem enn er umræðuefni þann dag í dag.

Björg tók virkan þátt í að skipuleggja fyrsta kvennafrídag á Íslandi sem haldinn var 24. október 1975 og hefur verið endurtekinn fimm sinnum síðar, árið 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Björg var ein þeirra átta kvenna sem lögðu fram formlega tillögu á Kvennaráðstefnu á Loftleiðum í Reykjavík 1975 að haldinn yrði sérstakt kvennafrí á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október það ár. Björg skrifaði seinna frásögn sína af undirbúningi Kvennafrísins og hafði þetta að segja um það augnablik þegar hugmyndin um kvennafrí varð til:

„Undir lok ráðstefnunnar á Loftleiðum vorum við nokkrar konur staddar á ganginum framan við ráðstefnusalinn og ræddum að nú væri að hrökkva eða stökkva með þetta mál. Gripið var pappírsblað og upp við vegginn hripuð niður svohljóðandi tillaga: „Kvennaráðstefnan, haldin dagana 20. og 21. júní 1975, skorar á konur að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október næstkomandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.“ Í flýti var hóað saman flutningsmönnum, átta talsins, sem höfðu það meðal annars sér til ágætis að mynda til samans þverpólitíska heild. Skulu nöfn þeirra talin hér og geta þeir sem hnútum eru kunnugir séð í hendi sér hina pólitísku breidd: Bessí Jóhannsdóttir, Björg Einarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Sigríður Friðriksdóttir, Valborg Bentsdóttir og Þorbjörg Jónsdóttir. 

Tillögunni var komið til fundarstjóra og var fundarmönnum farið að fækka þegar hún kom til afgreiðslu. Eitt hundrað manns greiddu atkvæði og voru 72 með og 28 á móti. Man ég enn konu sem stóð og greiddi atkvæði gegn tillögunni en varð síðar ein aðaldriffjöður kvennafrísins í Reykjavík. Enginn málatilbúnaður var þarna að öðru leyti um tillöguna og til dæmis voru engir settir til framkvæmda. Það var svo ekki fyrr en ágústmánuður var byrjaður að líða að upplaukst fyrir flutningsmönnunum átta að ef þeir tækju ekki málið í sínar hendur og huguðu að framkvæmd yrði kvennaverkfallið heldur smátt í sniðum.“

Eins og henni var líkt, þá tók Björg virkan þátt í að skipuleggja kvennafríið og gerði það með þvílíkum sóma að kvennafríið vakti heimsathygli og hefur reynst okkur á Íslandi undirstaða fyrir áframhaldandi baráttu fyrir kvenréttindum og kynjajafnrétti í krafti fjöldasamstöðu.

Björg sat einnig í hugmyndanefnd Kvenréttindafélagsins sem var stofnuð árið 1992 í þeim tilgangi að gera umræður um stöðu félagsins og starfsaðferðir hnitmiðaðri. Einnig sótti Björg alþjóðlega viðburði á vegum félagsins, m.a. hjá Alþjóðasamtökum kvenréttindafélaga (e. International Alliance of Women) í New York þar sem hún var kjörin í stjórn samtakanna og árið 1979 var hún kjörin formaður formaður nefndar samtakanna hjá Sameinuðu þjóðunum til þriggja ára.

Samhliða baráttu sinni fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna hér á landi og erlendis, vann Björg að ritun sögu kvenna, sem þótti  nýlunda í sagnaritun hér á landi og var meðal okkar fremstu og afkastamestu höfunda á sviði kvennasögu. Björg flutti útvarpsþætti um æviferil íslenskra kvenna í Ríkisútvarpinu veturinn 1983 til 1984, og voru þau erindi uppistaðan í þriggja binda ritsafninu Úr ævi og starfi íslenskra kvenna sem kom út á árunum 1984 til 1986. Þetta ritsafn er mikilvægt í íslenskri sagnaritun, uppspretta mikils fróðleiks um formæður okkar.

Áskell Einarsson, bróðir Bjargar, skrifaði grein í tilefni af sjötugsafmæli systur sinnar. Þar lýsir hann Björgu svo: „Blákalt raunsæi og ódrepandi seigla hefur einkennt öðru fremur baráttuaðferðir Bjargar. Hún sýndi það mikla afrek að hverfa í einu vetfangi úr húsmóðurhlutverki sínu í vesturbænum og komast í fremstu röð kvennabaráttu samtímans. Björg átti einnig drjúgan þátt í því að innan stærsta stjórnmálaflokks landsins myndaðist virk kvennahreyfing.“ Þykir okkur þessi orð Áskels lýsandi fyrir baráttukonuna Björgu Einarsdóttur, sem í svo langan tíma var í forystu kvenréttindabaráttunnar hér á landi.

Björg Einarsdóttir var sæmd hinni íslensku fálkaorðu 1988 fyrir störf sín að jafnréttismálum og ritstörf um málefni kvenna. Árið 1997 var Björg gerð heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands, og á félagið og konur á Íslandi henni svo sannarlega skuld að gjalda fyrir framlag hennar til kvenréttinda á skráningu á sögu kvenna.

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Björgu fyrir samstarfið, þekkinguna og vináttuna.

Sigríður Th. Erlendsdóttir

Sigríður Th. Erlendsdóttir var gerð að heiðursfélaga Kvenréttindafélags Íslands árið 1997. Hún vann ómetanlegt stórvirki fyrir Kvenréttindafélagið og kvennasögu á Íslandi þegar hún skrifaði bókina “Veröld sem ég vil“, sem kom út árið 1993 og er saga Kvenréttindafélags Íslands frá stofnun 1907 til 1992, sem og sögu jafnréttisbaráttunnar á 20. öld. Á kápu bókarinnar stendur: „Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar þegar frelsisvindar blésu og sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst. Barátta fyrir réttindum kvenna var samofin sjálfstæðisbaráttunni og framsýnir menn, konur og karlar, sáu til þess að Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða til að samþykkja almennan kosningarétt kvenna.“ Í bókinni gerði Sigríður grein fyrir aðdraganda að stofnun félagsins og fjallar um kvenfélögin, sem störfuðu fyrir daga þess, uppruna Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, stofnanda og fyrsta formanns félagsins, kvennaframboðin og baráttuna fyrir kosningarétti kvenna. Hún fjallaði ítarlega um starfsemi félagsins allt fram til ársins 1992, um þátt kvenna í mótun velferðarþjóðfélagsins, í verkalýðsbaráttu, málefnum mæðra og barna og skattamálum svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er lýst þátttöku félagsins í alþjóðlegu samstarfi. Er þessi bók enn í dag ein mikilvægasta heimild um kvennabaráttunnar hér á landi.

Sigríður Th. Erlendsdóttir fæddist hinn 16. mars árið 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1949 og hóf rannsóknir í kvennasögu upp úr 1970, þá rúmlega fertug, og lauk BA-prófi í sagnfræði árið 1976. Hún lauk kandídatsnámi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1981 með ítarlegri frumrannsókn á atvinnuþátttöku reykvískra kvenna á árunum 1890-1914. Árið 1982 varð hún fyrst til að bjóða upp á sérstök námskeið í kvennasögu í sagnfræði við HÍ þar sem hún var stundakennari þar til að hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Sigríður er brautryðjandi í rannsóknum á sögu kvenna og hefur með kennslu sinni og rannsóknum lagt grunn að kvennasögu sem fræðigrein hér á landi. Má með sanni segja að hún hafi kveikt áhuga nemenda sinna á sögu íslenskra kvenna og hvatt þá til rannsókna á því sviði. Sigríður sat einnig í fjölmörgum stjórnum og flutti fjölda fyrirlestra er varðaði sögu kvenna á Íslandi, meðal annars fyrir hönd Kvenréttindafélagsins.

Á vef Kvennasögusafnsins er ennfremur hægt að lesa erindi Sigríðar Th. Erlendsdóttur um ævi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sem hún flutti á málþingi um Bríeti þann 29. september 2006 sem Kvennasögusafn Íslands og Rannsóknastofa í kvennafræðum stóðu fyrir til að minnast þess að 150 ár voru liðin frá fæðingu Bríetar.

Árið 2001 kom út bókin Kvennaslóðir, greinasafn til heiðurs Sigríðar í tilefni af 70 ára afmæli hennar. Í viðtali við Morgunblaðið í tilefni þess var hún spurð hvað nám á miðjum aldri, kennsla og fræðistörf hafi gefið henni í gegnum tíðina, við því svaraði hún: „Kannski sjálfstraust. Konur skortir gjarnan sjálfstraust, að minnsta kosti konur af minni kynslóð. Ég held að við getum ekkert gefið dætrum okkar betra en að reyna að efla sjálfstraust þeirra. Sjálfstraustið er mjög mikilvægt í allri kvennabaráttu. Ég hafði líka alltaf haft mikinn áhuga á hversdagsleikanum í sögunni. Allt fram til 1970 var sagan aðeins saga styrjalda, kónga og keisara, en eftir það fer söguritunin að breytast í sögu hvunndagsins líka. Konur fóru að velta fyrir sér hlutverki formæðra sinna í Íslandssögunni þar sem varla er á þær minnst. Ég vildi líka vita meira um sögu kvenna þar sem mér finnst ég eiga konum skuld að gjalda og er ég þar að vísa til formæðra minna.”

Árið 1997 varð Sigríður heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands, enda á félagið og konur á Íslandi henni svo sannarlega skuld að gjalda fyrir framlag hennar til kvennasögu og kvenréttinda.

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Sigríði fyrir samstarfið, þekkinguna og vináttuna.

1987:
Sigurveig Guðmundsdóttir
Valborg Bentsdóttir
Guðrún Gísladóttir
Lóa Kristjánsdóttir

1985:
Auður Auðunsdóttir

1983:
Lára Sigurbjörnsdóttir

1977:
Anna Sigurðardóttir
Guðný Helgadóttir

1968:
Kristín L. Sigurðardóttir

1964:
Sigríður J. Magnússon

1957:
Bodil Begtrup
Jóhanna Egilsdóttir
Svafa Þórleifsdóttir
Védís Jónsdóttir
Laufey Vilhjálmsdóttir
Guðrún Pétursdóttir
Aðalbjörg Sigurðardóttir

1948:
Kristín Guðmundsdóttir
Lovísa Fjelsted
Sigríður Jónsdóttir

1945:
Margrét Bjarnadóttir
Magnea Bergmann

1942:
Helga Kristjánsdóttir

1931:
Bríet Bjarnhéðinsdóttirheiðursformaður