Í vikunni var lögð fram tillaga til þingsályktunar um Jafnréttissjóð Íslands (þingskjal 1445 – 803. mál), þar sem Alþingi ályktar að í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt, þá verði stofnaður Jafnréttissjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum 100 milljónir kr. á ári næstu fimm árin.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því að Alþingi stofni Jafnréttissjóð Íslands og veiti veglega til jafnréttismála. Þetta er rausnarleg gjöf á þessu ári þegar við fögnum því að allir Íslendingar, sama hvers kyns þeir eru, njóti borgaralegra réttinda.
Að þessu sögðu, þá gerum við alvarlegar athugasemdir við þingsályktunartillöguna og hvernig styrkjum sjóðsins skal útdeilt.
Jafnréttissjóði ber að styrkja verkefni til að efla jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði; verkefni til að hvetja konur til forystu og nýsköpunar í atvinnulífi og menningu; verkefni til að efla stöðu kvenna í þróunarlöndum og stuðla að aukinni þekkingu hérlendis á stöðu þeirra; verkefni til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi; þróunarverkefni í skólakerfinu til að stuðla að sterkri sjálfsmynd pilta og stúlkna, svo sem með aukinni fræðslu í kynjafræðum; verkefni til að hvetja ungt fólk til aukinnar þátttöku í stjórnmálastarfi og stuðla að aukinni kosningaþátttöku; og rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kvenna jafnt í samtíð sem í fortíð.
Allt að helmingi árlegs ráðstöfunarfjár Jafnréttissjóðs Íslands verður varið til verkefna sem tengjast stöðu kvenna í þróunarlöndum.
Stjórn Kvenréttindafélag Íslands mótmælir að settar séu þessar takmarkanir á fjárveitingum úr Jafnréttissjóði Íslands. Það er óviðeigandi að á degi þegar við fögnum jafnrétti kynjanna á Íslandi, þegar við lítum til framtíðarinnar til allra þeirra verkefna sem enn eru eftir óunnin hér á landi, að stofnaður sé sjóður sem er með þeim reglum að allt að helmingur fjárveitinga falli til verkefna sem unnin eru utan landsteinanna.
Íslenskar sem og alþjóðlegar stofnanir hafa ítrekað bent á hvað betur má fara í jafnréttismálum hér á landi. Skemmst er að minnast þess að Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna skilaði skýrslu um stöðu jafnréttismála á Íslandi 2014 þar sem hún lýsti þungum áhyggjum yfir stöðu einstakra málaflokka hér á landi, sér í lagi yfir launamun kynjanna og kynbundið ofbeldi. Óeðlilegt er að Jafnréttissjóður Íslands skuli vera skuldbundinn að veita allt að helming styrkja á hverju ári til verkefna erlendis, í stað þess að bæta stöðu kynjanna og jafnrétti hér á landi.
Við erum stolt af framlagi Íslendinga til jafnréttismála í heiminum, af öflugu þróunarstarfi okkar erlendis, og af því hve jafnréttismál eru áberandi í utanríkisstefnu Íslands. Þróunarstarfi er ekki gerður greiði með þessu fyrirkomulagi. Okkur ber að hlúa að þróunarstarfi erlendis og styðja vel við þróunarverkefni.
Óeðlilegt er að þróunarstarf skuli þurfa að fjármagna með því að sækja í samkeppnissjóð eins og Jafnréttissjóður Íslands á að vera. Og óeðlilegt er að setja þróunarstarf erlendis í samkeppni við jafnréttismál hér á landi. Báðir þessir málaflokkar eru gífurlega mikilvægir, og þrátt fyrir að starf þeirra skarist á ýmsum sviðum, þá eru þessir flokkar mjög ólíkir.
Styðjum veglega við báða málaflokka. Veitum vel til jafnréttismála hér á landi og veitum vel til þróunarstarfs erlendis.
16. júní 2015
Hallveigarstöðum, Reykjavík
One Comment
Comments are closed.
Mjög vel orðað.