Þann 20. október verða fimm ár liðin frá því að almenningur samþykkti stjórnarskrártillöguna frá 2011 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að því tilefni er boðað til opins fundar um sögu og framtíð íslensku stjórnarskrárinnar verður haldinn föstudaginn 22. september kl. 19:30 í Gerðasafni, Listasafni Kópavogs í Hamraborg 4.

Á fundinum verða kynnt mismunandi sjónarhorn á sögu og þróun stjórnarskrár Íslands og tengsl hennar við sjálfstæðis- og mannréttindabaráttu á Íslandi. Hver er merking nýju tillögunnar í samhengi við „Stjórnarskrá um hin sjerstaklegu málefni Íslands“ frá árinu 1874?

Á fundinum verða frumrit allra stjórnarskránna fimm til sýnis uppi á borði smíðað úr rekaviði úr Ófeigsfirði.

Dagskrá fundar:

Libia Castro og Ólafur Ólafsson, myndlistarmenn, opna fundinn.

19.45: „Með frelsisskrá í föðurhendi. Um varðveislusögu stjórnarskráa Íslands“ – Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri upplýsinga- og skjalasviðs Þjóðskjalasafns Íslands

20.00: „Hvers vegna vilja Íslendingar nýja stjórnarskrá?“ – Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent í sagnfræði við Hí (sérsvið er stjórnmála- og hugmyndasaga 19. og 20. aldar)

20.15: „Stjórnarskrárferli“ – Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi formaður og fulltrúi í stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands

20.30: Pallborðsumræður um sögu og framtíð stjórnarskrárinnar

Stjórnandi: Sara S. Öldudóttir, sýningarstjóri listahátíðarinnar Cycle

Þátttakendur í umræðum eru:
Andri Snær Magnason – rithöfundur og umhverfisverndarsinni
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir – framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands
Hörður Torfason – tónlistarmaður og aðgerðarsinni

Andrés Ingi Jónsson –
Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Birgitta Jónsdóttir
– skáld, alþingismaður og þingflokksformaður Pírata
Heiða Björg Hilmisdóttir – varaformaður Samfylkingarinnar


Stjórnarskrá er ferli er nýtt verk eftir listamennina Libiu Castro & Ólaf Ólafsson. Í þessu verki munu fimm íslenskar stjórnarskrár vera til sýnis opinberlega í fyrsta skipti. Listamennirnir óskuðu eftir því fyrir gerð verksins við Þjóðskjalasafn Íslands að fá lánað frumrit af hverri stjórnarskrá sem hefur á einhverjum tímapunkti verið við lýði á Íslandi og sömuleiðis tillögu að nýrri stjórnarskrá sem skrifuð var árið 2011. Þjóðskjalasafn Íslands samþykkti að lána frumritin sem í þeirra eigu eru, en það er gildandi stjórnarskrá, Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands frá árinu 1944, Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands frá árinu 1920 og Stjórnarskrá um hin sérstöku málefni Íslands frá árinu 1874. Frá Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni fengu þau svo að láni ritið Tíðindi frá þjóðfundi Íslendinga frá árinu 1851, sem inniheldur hina dönsku stjórnarskrá Grundloven, frá 1849 sem var einnig stjórnarskrá Íslands á þeim tíma. Með verkinu er einnig boðið upp á ljósrit af stjórnarskránum sem áhorfendur geta lesið og tekið með sér.

Libia Castro (f. 1970) frá Spáni og Ólafur Ólafsson (f. 1973) frá Íslandi eru tvíeyki með bækistöðvar í Rotterdam. Samvinna þeirra hófst í Hollandi árið 1997 þegar þau voru í MA námi í sjónlistum við Frank Mohr Institute í Groningen. Verk þeirra byggja á samvinnu og þverfaglegri nálgun þar sem þau nýta vídeó, ljósmyndun, hljóð- og margmiðlunarinnsetningar í framsetningu sinni. Libia og Ólafur voru fulltrúar íslenska skálans á 54. Feneyjartvíæringnum árið 2011 með verki sínu Under Deconstruction.