62 kröfur norrænu kvennahreyfingarinnar

12.-15. júní 2014 mættu 30.000 gestir til Malmö og sóttu Nordiskt Forum  – New Action on Women’s Rights til að ræða saman hvernig við getum stuðlað að jafnrétti kynjanna og hvernig megi bæta stöðu kvenna bæði í Norðurlöndunum og í heiminum.  Dagskrá ráðstefnunar tók mið af Peking yfirlýsingunni frá árinu 1995 þegar Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin og af framkvæmdaáætluninni sem byggist á henni, Pekingáætluninni.

Að ráðstefnunni stóðu 200 samtök kvenna frá Norðurlöndunum öllum sem neituðu að halda að sér höndum í heimi þar sem réttindum kvenna er sífellt ógnað, í heiminum öllum, í Evrópu og á Norðurlöndunum. Í stað þess að þegja og bíða eftir að aðrir tækju af skarið, þá reis kvennahreyfingin á fætur. Við krefjumst þess að þau loforð sem konum voru gefin fyrir tuttugu árum verði efnd og að vettvangur verði skapaður þar sem nýjar áskoranir verði ræddar. Með Nordiskt Forum látum við þessar kröfur heyrast.

Á Nordiskt Forum var lokaskjal samþykkt með aðgerðaráætlun fyrir áframhaldandi starfi að kvenréttindum og jafnrétti kynjanna. 64 kröfur er að finna í þessari áætlun, og var áætlunin afhent til norrænu ríkisstjórnanna í lok ráðstefnunnar. Þetta skjal minnir ríkisstjórnirnar á að enn á eftir að uppfylla þau skilyrði sem þau skuldbundu sig til að uppfylla þegar Pekingssáttmálinn var undirritaður forðum.

Norræna kvennahreyfinging vonast til þess að við öll getum nýtt okkur þetta skjal til að skipuleggja áframhaldandi starf að kynjajafnrétti, svo að við saman skapað heim þar sem konur lifa frjálsar frá ótta og ofbeldi, þar sem hver kona ræður yfir eigin líkama og kynfrelsi, þar sem við höfnum kynþáttahatri og hverskonar mismunun.

Smellið hér til að hala niður
lokaskjali Nordiskt Forum í fullri lengd

1. Femínísk hagfræði — efnahagsleg og félagsleg þróun

Við krefjumst þess:

1

AÐ fjárlög norrænu ríkjanna og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga taki mið af kynjasamþættingu þannig að jafnréttissjónarhorn sé sýnilegt í fjárhagslegum gögnum og ákvörðunum. Að markmið um jafnrétti kynjanna sé kerfisbundið haft að leiðarljósi og notað sem grunnur að nýjum ákvörðunum, þar með talið við mótun nýrra þróunarmarkmiða.

2

AÐ norræn yfirvöld stuðli að efnahagslegu sjálfstæði og réttindum kvenna, þar á meðal að tryggja aðgang að launaðri vinnu, tryggja fullnægjandi vinnuskilyrði og tryggja að tillit sé tekið til þarfa viðkvæmra hópa.

3

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar grípi til aðgerða til þess að draga úr þeim mismun sem er á tekjum kvenna og karla.

4

AÐ ólaunuð umönnunarstörf verði gerð sýnileg og tekið mið af þeim við gerð efnahagslegra líkana og samfélagsþróun.

5

AÐ alþjóðlega efnahagskreppan verði greind út frá kynjasjónarhorni bæði hvað varðar orsakir og afleiðingar, auk þess sem velferðarkerfið verði notað til þess að vernda efnahagslegt sjálfstæði kvenna.

2. Líkamar kvenna og stúlkna — kynfrelsi og kynheilbrigði

Við krefjumst þess:

6

AÐ fjármagn verði veitt í sjóði sem styrkja kynjaðar rannsóknir og þekkingaröflun á því hvernig sjúkdómar hafa áhrif á konur, þar á meðal blæðingar og tengdir kvillar, að fjármagn verði veitt til að styðja við konur með krabbamein (sérstaklega brjóstakrabbamein og krabbamein í kyn- og æxlunarfærum kvenna), að fjármagn verði veitt til vel rökstuddra aðgerða, fyrirbyggjandi aðgerða og meðferða við sjúkdómum kvenna.

7

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar og viðkomandi yfirvöld tryggi jafnrétti kynjanna í greiningu, rannsóknum, meðferð og eftirfylgni á sjúkdómum með tilliti til sérstakra þarfa ólíkra hópa. Sérsniðin heilbrigðisþjónusta fyrir konur með fötlun er nauðsynleg.

8

AÐ heilsugæslan og réttarkerfið taki reynslu kvenna af óvelkomnum kynferðislegum athöfnum, misnotkun og ofbeldi alvarlega og tryggi að tekið sé á málum með virðingu fyrir einstaklingnum og lagalegum réttindum hans.

9

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar og viðkomandi yfirvöld tryggi að kynfræðsla sé hluti af skyldunámi og að gæði kennslunnar sé góð, tryggi aðgang að getnaðarvörnum og löglegum og öruggum fóstureyðingum, og tryggi konum örugga meðgöngu og umönnun við fæðingu sem byggir á virðingu fyrir óskum hennar og þörfum.

10

AÐ norræn stjórnvöld uppfylli skuldbindingar sínar þegar kemur að kynfrelsi og kynheilbrigði kvenna (e. SRHR, sexual and reproductive health and rights), uppfylli skuldbindingar sínar gagnvart hinsegin fólki, og skoði nánar hvort staðgöngumæðrun standist þau markmið sem sett eru í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í mótun nýrra þróunarmarkmiða.

3. Konur í atvinnulífinu, launajafnrétti, menntun og starfsframi

Við krefjumst þess:

11

AÐ réttur kvenna til jafnra launa, jafnra tækifæra til starfsframa og til að sjá sér farborða verði tryggður með skýrum aðgerðum. Að norrænu ríkisstjórnirnar, samtök atvinnurekenda og stéttarfélög vinni saman að því að skapa viðunandi lífskjör sem taka mið af fjölskyldulífi og raunverulegum aðstæðum á vinnumarkaði. Að réttur til fulls starfs verði tryggður með lögum eða í kjarasamningum í þeim löndum þar sem hlutastörf kvenna eru viðtekin venja, og að möguleikinn á hlutastarfi verði til staðar en starfsöryggi sé tryggt og settar séu reglur um afleysingastörf, tímabundin störf og íhlaupavinnu til að koma í veg fyrir misnotkun.

12

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar forgangsraði uppbyggingu þannig að fjárhagslegt sjálfstæði eftir starfslok verði tryggt.

13

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar innleiði fæðingarorlofskerfi sem leiðir til jafnrar ábyrgðar kvenna og karla við umönnun barna og tryggi hágæða opinbera barnagæslu og þjónustu við aldraða.

14

AÐ viðkomandi ríkisstofnanir tryggi að námsefni sé í hvívetna gæðavottað út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og að farið verði í aðgerðir til þess að brjóta upp hefðbundið náms- og starfsval kynjanna.

15

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar setji í forgang aðgang kvenna að vísindastörfum. Fjármögnunarleiðir með áherslu á öndvegisstyrki mega ekki flytja fjármagn frá sviðum þar sem konur eru í meirihluta nemenda og rannsakenda. Tryggja skal námsleiðum kvenna, óháð sérhæfingu, jafnan aðgang að fjármagni og öðrum aðföngum.

4. Ofbeldi gegn konum og stúlkum

Við krefjumst þess:

16

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar fullgildi samning Evrópuráðsins um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningurinn 2011). Fræða þarf starfsfólk lögreglu og dómskerfisins um ofbeldi gegn konum og veita þarf fjármagn í forvarnir og saksókn glæpa gegn konum.

17

AÐ sérhver Norðurlandaþjóð skipi sjálfstæðan innlendan skýrslugjafa um mansal sem vinnur með frjálsum félagasamtökum og sérstaklega með samtökum kvenna.

18

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar styrki aðila sem vinna að réttindum kvenna til að lifa frjálsar frá ofbeldi og veita fullnægjandi og stöðugt fjármagn til starfsemi þeirra, sérstaklega til kvennaathvarfa. Við þurfum langtíma og heildstæða aðgerðaáætlun, með skýrum markmiðum og fullnægjandi fjármagni, til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, draga úr ofbeldi karla gegn konum og vernda viðkvæma hópa kvenna.

19

AÐ norræn stjórnvöld ráðist að rótum vandans þegar kemur að ofbeldi og misnotkun. Við leggjum til að farið verði í fyrirbyggjandi herferðir á landsvísu þar sem samfélagið sýnir að ekkert umburðarlyndi er gagnvart ofbeldi og misnotkun og vinnur gegn því að þolandinn beri skömmina. Það verður að leggja áherslu á orsakir ofbeldis og misnotkunar. Ástæður þess að konur leiðast út í vændi verða einnig að vera hluti af herferðinni. Upplýsingar um mannréttindi og um viðeigandi aðila sem veita aðstoð til kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi þurfa að vera fyrir hendi. Nauðgun skal skilgreina sem skort á samþykki.

20

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar undirbúi löggjöf um varnir gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum, þar á meðal að gera kaup á vændi refsiverð þar sem slík löggöf er ekki þegar til staðar. Þróa skal öruggar útgönguleiðir til þess að aðstoða einstaklinga úr vændi og styrkja getu lögreglunnar og dómskerfisins til að sækja til saka kaupendur vændis, milligöngumenn og fólk sem er þátttakendur í skipulagðri glæpastarfsemi.

21

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar viðurkenni sérstakar þarfir viðkvæmra hópa kvenna sem verða fyrir ofbeldi og misnotkun. Konur með alvarleg geðræn vandamál og/eða vímuefnavanda hafa ekki jafnan aðgang að kvennaathvörfum. Starfsemi kvennaathvarfa er ekki nógu vel aðlöguð að þörfum fatlaðra kvenna.

5. Umhverfi, loftslag og sjálfbær þróun

Við krefjumst þess:

22

AÐ norræn yfirvöld stuðli að því konur verði virkir þátttakendur sem frumkvöðlar, skipuleggjendur, kennarar, leiðtogar og sendiherrar um sjálfbæra þróun. Þróunaraðstoð sem snýr að loftslags- og umhverfismálum verður alltaf að fela í sér kynja- og jafnréttissjónarmið.

23

AÐ konum verði tryggð aukin pólitísk þátttaka og aðkoma að ákvarðanatöku í umhverfis- og loftslagsmálum og séu að minnsta kosti helmingur fulltrúa í samningaviðræðum um loftslags- og umhverfismál á alþjóðavettvangi.

24

AÐ norræn yfirvöld tryggi rétt Samafólksins, sérstaklega samískra kvenna, til að tjá sig um umhverfismál á landsvæðum sínum.

25

AÐ norræn yfirvöld grípi til öflugri aðgerða, þar á meðal löggjafar, til að flýta fyrir því að dregið sé úr skaðlegum útblæstri sem oft er bæði óþarfur og kostnaðarsamur, auk þess að tryggja að orkan sem við notum sé í auknum mæli frá endurnýjanlegum og sjálfbærum orkugjöfum.

26

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar og stjórnvöld ásamt einkafyrirtækum í iðnaði axli ábyrgð á því að gera sýnileg samfélagsleg áhrif mengunar og losun spilliefna, og tryggi að þróun á grænum vinnustöðum, grænu hagkerfi og nýrri umhverfislöggjöf taki sérstakt tillit til áhrifa á konur.

27

AÐ kynfrelsi og kynheilbrigði kvenna sé tryggt á meðan áföll sem tengjast umhverfis- og loftslagsmálum ganga yfir. Það verður að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og börnum og mansal kvenna og barna í kjölfar náttúruhamfara.

6. Umönnunarstörf og velferðarsamfélagið

Við krefjumst þess:

28

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar forgangsraði í þágu góðra starfsskilyrða og heilsu starfsfólks í velferðargeiranum og að starfsfólk með litla menntun og ófaglært starfsfólk fái tækifæri til frekari menntunar.

29

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar leggi áherslu á mikilvægi þess að auka þátttöku karla í heilbrigðisþjónustu og umönnunarstörfum, bæði í ólaunaðri vinnu á heimilum og í launavinnu í umönnunar- og velferðargeiranum.

30

AÐ ríkisstjórnir Norðurlandanna setji í forgang menntun og rannsóknir á lýðfræðilegum breytingum sem snúa að öldrun þjóðarinnar, fjárfesti í tæknilegum og skipulagslegum nýjungum á sviðinu, og noti kynjasamþættingu við stefnumótun.

31

AÐ stjórnvöldum og viðkomandi aðilum verði falið að móta stefnu um hvernig nýta megi tækniframfarir til að bæta lýðheilsu. Sérstaklega skal huga að þörfum viðkvæmra hópa og leggja skal áherslu á virðingu fyrir einstaklingnum. Aðstoð skal veita til þess að aldraðir geti búið sjálfstætt svo lengi sem mögulegt er.

7. Friður og öryggi

Við krefjumst þess:

32

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar tryggi að konur hafi jafnan aðgang að ákvarðanatöku á öllum sviðum friðaraðgerða, að aðgerðum til að koma í veg fyrir stríð, að sáttaviðræðum í átökum, að eftirliti með friðaraðgerðum og að þátttöku í friðarviðræðum, og að norrænu ríkisstjórnirnar krefjist þess að Sameinuðu þjóðirnar skipi sérstakan fulltrúa sem beri ábyrgð á því að tryggja þennan rétt kvenna til að vera virkir þátttakendur í friðar- og öryggismálum.

33

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar endurskoði, skerpi og styrki framkvæmdaáætlanir sínar til að ná fram markmiðum ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, og tryggi fjármagn til að styrkja starf frjálsra félagasamtaka, sérstaklega kvennasamtaka, sem starfa á Norðurlöndunum við að uppfylla þau markmið.

34

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar veiti sérstakt fjármagn til að vernda og þjálfa flóttakonur, og auki stuðning sinn við þá aðila sem sækja til saka og refsa gerendum kynferðislegs ofbeldis á stríðstímum. Þolendum ofbeldis á stríðstímum skal veittur virkur stuðningur.

35

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar taki tillit til sjónarmiða innfæddra hópa og umhverfismála í friðar- og öryggismálum.

36

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar efli stuðning við friðaraðgerðir og friðarviðræður, minnki fjármagn til hernaðarmála, hætti sölu vopna, sem hafa ekki síst skelfileg áhrif á konur og börn, tilnefni sendiherra sem beita sér fyrir afvopnun, og styrki viðleitni sína til eyðingu kjarnavopna.

8. Stjórnmálaþátttaka og samfélagsþróun

Við krefjumst þess:

37

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar setji skýr markmið um raunhæfa möguleika kvenna til að nýta réttindi sín og taki sérstaklega tillit til þarfa þeirra hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu. Stjórnvöld skulu setja í forgang aðgerðir gegn hatursorðræðu á veraldarvefnum, og gegn áreitni og árásum á stjórnmálakonur og aðrar konur á opinberum vettvangi.

38

AÐ jöfn þátttaka kvenna og karla sé tryggð á þjóðþingum og í sveitarstjórnum, í opinberum nefndum, vinnuhópum og sendinefndum, til að mynda með því að beita kynjakvóta.

39

AÐ stjórnvöld, sveitarstjórnir, fjölmiðlar og hópar tengdir fyrirtækjum leiti eftir sérþekkingu kvenna og að sérfræðiþekking kvenna sem tilheyra minnihlutahópum fái áheyrn.

40

AÐ konur séu fulltrúar á öllum sviðum samfélagsins og þátttakendur í öllum ákvörðunum, þar á meðal í efnahagsmálum og í viðskiptum.

41

AÐ stéttarfélög axli ábyrgð á því að skipa fleiri konur í stjórnunarstöður í stéttarfélögum, starfsgreinasamböndum og samtökum atvinnurekenda.

42

AÐ kosninganefndir og aðrir opinberir aðilar sem skipa í störf og hópa beiti skýrum og gagnsæjum mælikvarða sem mismunar ekki konum, og að verkefnum sem þjálfa konur í stjórnmálum sé komið á laggirnar til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum og koma í veg fyrir að konur hætti í stjórnmálum.

9. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða

Við krefjumst þess:

43

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar skýri ábyrgð á innleiðingu kynjasamþættingar með því að festa og skýra aðferðina í landslögum, reglugerðum og verkferlum, þvert á allar stefnur, auk þess að samþykkja og fjármagna sértækar aðgerðir til innleiðingar árangursríkrar kynjasamþættingar.

44

AÐ opinberum aðilum verði skylt að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í allri sinni starfsemi og innleiða kynjasamþættingu sem felur í sér þjálfun starfsfólks, notkun á aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar, kynjagreiningu og endurskoðun stefnumótunarferla, auk þess að koma á kerfisbundnum verkferlum til að hafa eftirlit með framkvæmd þessarar kynjasamþættingar.

45

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar geri framkvæmdaáætlanir með leiðbeiningum, viðmiðum, mælanlegum markmiðum, aðgerðum, frammistöðumati, kyngreindum gögnum og tölfræði. Reglubundin greining skal fara fram, vera skráð og gefin út.

46

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar beiti kynjasamþættingu við framkvæmd allra alþjóðlegra skuldbindinga sinna, þar á meðal við mótun nýrra þróunarmarkmiða og nýrra markmiða um sjálfbæra þróun.

47

AÐ atvinnurekendur á einkamarkaði samþætti kynjasjónarmið inn í starfsemi sína.

10. Flóttamenn og fólksflutningar

Við krefjumst þess:

48

AÐ Norðurlöndin viðurkenni rétt kvenna til að krefjast stöðu flóttamanns, og sýni forystu á alþjóðavettvangi í að vernda konur og starfa að flóttamannamálum með gagnsæjum verkferlum sem unnir eru með kynjasjónarmið í huga. Allar konur sem þurfa á aðstoð og vernd að halda skulu njóta jafnræðis. Upplýsa skal konur um réttindi þeirra og þeim skulu veittar upplýsingar um hvert þær geti leitað aðstoðar ef til þarf.

49

AÐ konur sem dvelja á Norðurlöndunum með dvalarleyfi sem veitt var vegna fjölskyldutengsla verði veitt dvalarleyfi sem er ekki háð maka þeirra, að tafarlaust verði hætt að reka konur sem flýja ofbeldissambönd úr landi, og að konur sem eru þolendur mansals verði veitt aðstoð og vernd hvort sem þær vilji bera vitni fyrir dómstólum eður ei.

50

AÐ norrænar ríkisstjórnir og yfirvöld beiti mannúðlegri flóttamannastefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til flóttakvenna, samanber samning Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna (e. UN Convention Relating to the Status of Refugees).

51

AÐ ríkisstjórnir og yfirvöld stuðli að aukinni þátttöku kvenna af erlendum uppruna í samfélaginu og tryggi viðeigandi þjálfun ómenntaðra eða illa menntaðra kvenna. Læsi skal sett í forgang í menntakerfinu.

52

AÐ farandverkakonum og konum af erlendum uppruna sem starfa á vinnumarkaði verði tryggð sambærileg laun og vinnuaðstæður og starfsfólki sem fætt er á Norðurlöndum.

11. Fjölmiðlar og ný tækni

Við krefjumst þess:

53

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar komi á laggirnar langtíma rannsóknaraðila sem athugar fréttaflutning fjölmiðla og mælir þátttöku kvenna, framsetningu kvenna, framsetningu málefna sem tengjast konum, fjölda kvenna í stjórnunarstöðum í fjölmiðlum, og svo framvegis.

54

AÐ ríkisreknir fjölmiðlar á Norðurlöndunum fái það hlutverk að þróa verkferla sem tryggja jafna og sambærilega framsetningu og þátttöku kvenna og karla í fjölmiðlum, verkferla sem geta nýst öðrum fjölmiðlum, einkareknum og opinberum.

55

AÐ menntastofnanir, kennaraháskólar og blaðamannaskólar þrói námsefni og verkefni sem auka fjölmiðlalæsi ungs fólks á Norðurlöndunum og auka skilning þeirra á flóknu samspili samfélags og fjölmiðla. Fjölmiðlalæsi er undirstaða virks lýðræði.

56

AÐ norræn yfirvöld fylgi eftir banni við auglýsingum sem byggjast á kvenhatri og kvenfyrirlitningu, og að auglýsingaiðnaðinum sé gert skylt að veita upplýsingar um hvort og þá hvernig ljósmyndum í auglýsingum hefur verið breytt í myndvinnsluforritum. Auglýsingar byggja og styrkja kynbundnar staðalímyndir og hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, sérstaklega ungs fólks.

57

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar samþykki löggjöf sem er fær um að takast á við ofsóknir á veraldarvefnum og komi á laggirnar sjálfstæðum aðila sem getur tekið við kvörtunum og kært mismunun gegn konum og stúlkum í fjölmiðlum.

12. Framtíð femínisma á Norðurlöndum og skipulagning
kvennahreyfingarinnar

Við krefjumst þess:

58

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar fjármagni frjáls félagasamtök í kvennahreyfingunni að jöfnu við önnur frjáls félagasamtök, svo að femínismi hafi raunveruleg áhrif á samfélagsumræðuna og að jafnrétti kynjanna náist í samfélagi okkar.

59

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar tryggi aukna þátttöku kvennasamtaka í stefnumótun, sem umsagnaraðila og sem samstarfsaðila í gagnsærri og heildrænni stefnumótun sem stuðlar að jafnrétti kynjanna. Við óskum þess að norrænu ríkisstjórnirnar hafi langtímamarkmið í huga við skipulagningu sjálfbærrar þróunar, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

60

AÐ kvennasamtökum sé tryggt fjármagn og gefið tækifæri til að taka þátt í stefnumótun á sveitarstjórnarstigi, á landsvísu og á alþjóðavettvangi, samanber kröfur Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Pekingsáttmálans.

61

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar styðji samnorrænt samstarf kvennasamtaka og styrki það samstarf fjárhagslega og á allan máta.

62

AÐ norrænu ríkisstjórnirnar leiti til og styrki kvennasamtök til að kynna Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Pekingsáttmálann meðal almennings til að sýna hvaða áhrif þessir sáttmálar hafa á stefnumótun.