Kvennaheimilið Hallveigarstaðir er eina húsið enn í eigu kvennahreyfingarinnar á Íslandi. Það er staðsett á Túngötu 14 í miðbæ Reykjavíkur. Hallveigarstaðir voru byggðir af kvennasamtökum hér á Íslandi og ætlað að vera miðstöð þeirra. Húsið var vígt 1967 og var gefið nafnið Hallveigarstaðir í minningu Hallveigar Fróðadóttur, fyrstu húsfreyjunnar í Reykjavík, eiginkonu Ingólfs Arnarsonar. Kvennaheimilið Hallveigarstaðir var reist sem aðsetur kvennasamtaka í landinu og til að styrkja menningar- og mannúðarstarf þeirra. Draumurinn um sérstakt hús kvenna varð til skömmu eftir að konur hlutu kosningarétt 1915. Á þeim tíma starfaði fjöldi kvenfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem öll unnu að velferðarmálum og var þörfin fyrir sameiginlegt fundarhús orðin brýn.
Árið 1919 hélt Laufey Vilhjálmsdóttir (1879–1960) erindi þar sem hún hvatti konur til að taka höndum saman og byggja sérstakt hús kvenna. Átti húsið að vera heimili kvenfélaga fyrir starfsemi sína ásamt því að geyma lesstofur, matsölu, upplýsingamiðstöð og gistiheimili fyrir ungar konur utan af landi sem voru við nám eða störf í Reykjavík. Laufey vann það sem eftir var ævi sinnar að því að láta þennan draum kvenna rætast og var um árabil formaður fjáröflunarnefndar.
Kvennaheimilið var nefnt Hallveigarstaðir til minningar um Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu landnámskonunnar í Reykjavík. Var hlutafélag stofnað um byggingu hússins og gafst konum og kvenfélögum um allt land kostur á að kaupa hlutabréf. Nýttu fjölmargir sér þann kost og komu þannig að fjáröflun Hallveigarstaða. Fyrsta skóflustungan var tekin árið 1954. Hallveigarstaðir voru loks vígðir 19. júní 1967, um hálfri öld eftir að hugmyndin að húsi kvenna kviknaði.
Þrenn kvennasamtök eru eigendur hússins í dag: Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands.
Fjölbreytt flóra samtaka kvenna hefur aðsetur sitt og fundaraðstöðu á Hallveigarstöðum, svo sem Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Druslubækur og doðrantar, W.O.M.E.N. in Iceland – Samtök kvenna af erlendum uppruna, Félag einstæðra foreldra og Kvennaráðgjöfin.
Kvennaheimilið Hallveigarstaðir stendur fyrir tilstilli fjölmargra kvenna og samtaka sem í áratugi störfuðu að byggingu þess. Það er tákn fyrir samvinnu og samtakamátt kvenna og vilja þeirra til að efla hag þjóðarinnar og vinna að almannaheill.
Aðgengismál
Stólalyfta sem tekur 225 kg var sett upp á Hallveigarstöðum í apríl 2015 og nýtt salerni fyrir fatlaða byggt í kjallara hússins.