Stefnuskrá 1992, felld úr gildi 2015

Athugið, þessi stefnuskrá var felld úr gildi á félagsfundi 24. október 2015. Lesið nýjustu stefnuskrá félagsins hér.

Markmið Kvenréttindafélags Íslands

Markmið félagsins hefur frá upphafi verið að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum þjóðlífsins. Mörg af stefnumálum félagsins hafa verið lögfest en jöfn staða hefur þó ekki náðst í raun. Enn sem fyrr leggur félagið því megináherslu á að vinna að því að konur og karlar fái jafna aðstöðu og tækifæri til að njóta hæfileika sinna.

Mörg af stefnumálum KRFÍ beinast að uppbyggingu og innra starfi fjölskyldunnar. Menn verða að gera sér ljóst að breytingar í jafnréttismálum byggjast fyrst og fremst á breyttu viðhorfi fóks í þjóðfélaginu almennt.

Hér fer á eftir nánari umfjöllun um helstu málaflokka.

Fjölskyldumál

KRFÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að sem best sé búið að fjölskyldu og heimili, sem er sá grundvöllur sem framtíð nýrrar kynslóðar hvílir að miklu leyti á.  Breyttir atvinnuhættir og þróun búsetu á landinu leiða af sér breyttar þarfir í fjölskyldumálum.

Ábyrgð á heimilishaldi og uppeldi barna hvílir enn að mestu leyti á herðum kvenna, þrátt fyrir aukna þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Þessu þarf að breyta.  Foreldrar verða að taka sem jafnastan þátt í heimilishaldi og uppeldi barna sinna.

Fræðsla um stofnun heimilis, sambúð og hjúskap, barnauppeldi og jafna stöðu kynja þarf að stórauka í skólakerfinu.  Slík fræðsla þarf einnig að ná til þeirra sem lokið hafa námi.

Vinna ber að markvissri stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar innan allra stjórnmálaflokka, þar sem m.a. er mörkuð stefna um aðlögun nútímaþjóðfélags að kröfum fjölskyldunnar.

Menntunarmál

Skólakerfið hefur mikil áhrif á uppeldi barna. Því er miklvægt að allt námsefni og umfjöllun um það sé með þeim hætti að það stuðli að jafnri stöðu kynjanna og stúlkur og piltar fái sömu hvatningu til náms.

Öll börn eiga rétt á dagvistun er miðist við félagslegar þarfir þeirra sjálfra og vinnutilhögun foreldranna. Samfelldur skóladagur, svo og aðlögun skóladags að vinnudegi foreldra, er nauðsyn. Nám og störf barna hafa að miklu leyti færst til skólakerfisins og uppeldisstofnana. KRFÍ telur það eðlilega þróun en leggur þó áherslu á mikilvægi þess að foreldrar láti þau mál meira til sín taka en nú er. Í grunnskólanum er nauðsynlegt að hvergi sé vikið frá því að piltar og stúlkur fái sömu kennslu í öllum greinum svo að þau fái jafna möguleika til framhaldsnáms á hvaða sviði sem er.

Taka þarf mið af því að kynin fá mismundandi hvatningu á ýmsum öðrum sviðum þjóðlífsins og því ber í skólakerfinu að vinna sérstaklega gegn þeim áhrifum. Við starfsfræðslu verði ýtt sérstaklega undir nýjar leiðir í starfsvali. Það er þjóðhagslega mikilvægt að gefa fólki kost á að afla sér endurmenntunar á fullorðinsárum. Sérstaklega má benda á að samdráttur eða aðrar breyttar aðstæður í atvinnulífi bitna oft meira á konum en körlum. Því eru endurmenntunarmöguleikar sérstakt baráttumál kvenna.

Atvinnu- og félagsmál

KRFÍ leggur áherslu á þjóðhagslegt mikilvægi þess að hæfileikar hvers og eins nýtist á því sviði sem hugur viðkomandi stendur til. Framtíð hvers þjóðfélags byggist á því að nýir þegnar fæðist og fái það uppeldi sem gerir þá færa til að viðhalda þjóðfélaginu og framþróun þess. Taka verður tillit til þess að konur ala nýja þjóðfélagsþegna. Skapa þarf þær aðstæður á vinnumarkaði að þátttaka kvenna í atvinnulífinu hamli ekki endurnýjun þjóðfélagsins. Vinnumarkaðinn ber að aðlaga að breyttum fjölskyldu- og þjóðfélagsaðstæðum.

Eftirfarandi aðgerðir stuðla meðal annara að þeirri aðlögun: – Konum og körlum skulu greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. – Vinna skal að endurmati starfa þannig að þau störf sem nefnd hafa verið kvennastörf verði metin til launa í samræmi við þá ábyrgð og menntun sem   þau krefjast, á sama hátt og störf karla. – Sem víðast verði komið á sveiganlegum vinnutíma. – Komið verði á fæðingarorlofi fyrir feður sérstalega. Karlar fái að öllu leyti sömu kjör og konur við töku fæðingarorlofs. – Báðir foreldrar hafi rétt til að taka sér leyfi vegna veikindi barna sinna. – Finna þarf leiðir til að draga úr atvinnuleysi og minnka aðstöðumun kynjanna við atvinnumöguleika á samdráttartímum. Sérstaklega verði könnuð áhrif aukinnar sameiningar Evrópu á atvinnumál kvenna og ýmis áunnin réttindi.

Stéttarfélög eru miklvægur vettvangur til að vinna að þessum málum.  Nauðsynlegt er að konur láti þar til sín taka.  Hvetja þarf konur til að taka að sér trúnaðarstörf í samtökum launþega og atvinnurekanda og mikilvægt er að konur beiti samstöðu við að ná fram árangri á þeim sviðum. Hvetja þarf konur til að stofna eigin atvinnurekstur og veita þeim aðstoð í því skyni, t.d. með námskeiðahaldi, ráðgjöf og fleiru.  Í því sambandi ber að athuga nýjar leiðir í atvinnusköpun, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Samþykkt á landsfundi 26. september 1992 og staðfest á landsfundi 28. sept. 1996

Athugið, þessi stefnuskrá var felld úr gildi á félagsfundi 24. október 2015. Lesið nýjustu stefnuskrá félagsins hér.