Flestir vita að í ár fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. En vissuð þið að í dag eru 100 ár liðin frá því að fyrsti barnagæsluvöllur landsins var stofnaður?
Árið 1915 voru íbúar Reykjavíkur 14.000 og fór ört vaxandi. Bríet Bjarnhéðinsdóttir lagði til á aðalfundi Kvenréttindafélagsins að leita til kaupmanna og „annarra efnamanna bæjarins“ um að byggja leikvöll í Grettisgötu, ásamt því að leita til iðnaðarmanna og verkamanna að láta vinnu sína af hendi endurgjaldslaust eða gegn lítilli þóknun. Einnig lagði hún til að konur í Kvenréttindafélaginu tækju að sér gæslu á vellinum í sjálfboðastarfi.
Kostnaðaráætlun leikvallarins var 1100 krónur. Fjársöfnun gekk framar vonum, 800 krónur söfnuðust til leikvallarins og 20 félagskonur lofuðu að starfa einn dag í mánuði við gæslu á vellinum – í sjálfboðastarfi.
Leikvöllurinn var byggður á Grettisgötu, á reitinum milli Grettisgötu 9 og 11 (fyrir sunnan Bókabúð Máls og menningar þar sem nú er bílastæði). Kvenréttindafélagið afhenti bæjarstjórn leikvöllinn 25. júlí 1915 og sá Kvenréttindafélagið um rekstur vallarins til 1926 þegar Reykjavíkurbær tók við honum.
Leikvöllurinn við Grettisgötu var opinn börnum til ársins 1975, þegar hann var rifinn og malbikaður fyrir bílakost borgarbúa.
Lesið meira í Veröld sem ég vil: Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992 eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur.