Í dag eru 100 ár síðan Skúli Thoroddsen, alþingismaður og baráttumaður fyrir kosningarétti kvenna, lést, þann 21. maí 1916. Að því tilefni afhenti barnabarn hans og alnafni, Skúli Thoroddsen, Steinunni Stefánsdóttur varaformanni Kvenréttindafélags Íslands og Tatjönu Latinovic stjórnarkonu minningarskjöld, við athöfn við leiði Skúla í Hólavallagarði.
Skúli fæddist í Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859, sonur Jóns Thoroddsens skálds og Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen. Hann sat á Alþingi 1890 til 1915 og gegndi starfi forseta sameinaðs þings á árunum 1909 til 1911. Á þingi beitti hann sér fyrir afnámi vistarbands og kosningarétti kvenna.
Skúli lifði að sjá árangur erfiðis síns, en konur á Íslandi fengu kosningarétt 19. júní 1915.
Í minningargrein um Skúla var honum lýst sem svo: „Skarpur var hann að skilningi, ljós og skilmerkilegur í orði, berorður og hreinskilinn, ágætlega orðfær; mikill rómurinn. Manna frjálslyndastur í skoðunum, fylgdi mjög fram rétti alþýðu og fremstur allra í flokki kvenréttindamálsins.“
Við andlát Skúla létu Hið íslenzka kvenfélag og Kvenréttindafélag Íslands gera fagran minningarskjöld úr silfri til heiðurs Skúla og jafnréttisbaráttu hans, með áletruninni: „Með þakklátri viðurkenningu fyrir vel unnin störf að réttarbótum íslenskra kvenna.“
Nú, á 100 ára ártíð Skúla Thoroddsens, fær Kvenréttindafélag Íslands skjöldinn aftur til varðveislu. Tekur félagið við honum með jafn miklu þakklæti í hjarta og þegar hann var veittur.