Árið 2015 verða liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, en þann 19. júní 1915 undirritaði Danakonungur lög sem veittu íslenskum konum þann rétt, takmarkaðan að vísu fyrst í stað við konur 40 ára og eldri.
Í tilefni þessara tímamóta bauð forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, til fundar í mars síðastliðnum þar sem samtökum kvenna og stjórnmálaflokkum var boðið sæti til viðræðna um undirbúning hátíðarhalda á þessum tímamótum. Fríða Rós Valdimarsdóttir, ritari Kvenréttindafélagsins, og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra félagsins, mættu á þennan fund fyrir hönd Kvenréttindafélags
ins.
Fundurinn var vel sóttur, og margar góðar tillögur voru lagðar fram og samviskusamlega skráðar niður. Hugmyndirnar voru eins fjölbreyttar og fundargestir voru margir. Þar kom til dæmis upp sú hugmynd að endurtaka hvítkjólagönguna 7. júlí 1915, þegar konur flykktust niður í miðbæ Reykjavíkur í hvítum kjólum til að fagna kosningarétti. Eins var lagt til að helga einn mánuð kvennasögu; að halda myndbandasamkeppnir á netinu um kvennasögu og kvenréttindi; að reisa minnisvarða um landsnámskonuna Hallveigu Fróðadóttur og/eða stjórnmálaskörunga 20. aldarinnar, svo sem Ingibjörgu Bjarnason, fyrstu þingkonu Íslands sem tók sæti á Alþingi 1922.
Kvenréttindafélag Íslands lagði til að komið yrði upp miðstöð hátíðarársins og að sú miðstöð yrði staðsett í Þjóðmenningarhúsinu. Í því húsi yrðu sýningar, fyrirlestrar og menningarviðburðir haldnir allt árið þar sem sögu kvenna og framlagi þeirra til íslenskrar menningar væri gert hærra undir höfði en gjarnan er gert.
Einn
ig lögðum við til að mikil áhersla yrði lögð á að þessi hátíð skyldi ekki einungis vera haldin í Reykjavík, heldur þyrfti hún að eiga sér stað í öllum bæjarfélögum landsins. Til dæmis væri hægt að halda ljósmyndasýningar, þar sem ljósmyndum af konum og kvenskörungum í gegnum tíðina væri varpað á byggingar í bæjarfélögum landsins. Þessi ljósmyndasýning gæti þá verið sérsniðin að hverju bæjarfélagi fyrir sig, með ljósmyndum úr sögu viðkomandi bæjarfélags sem þungamiðjan í hverri ljósmyndasýningu.
Hugmyndavinna er nú hafin að þessu hátíðarári 2015. Við teljum það mikilvægt að sem flestir taki þátt í að skipuleggja og leggja línurnar. Við viljum endilega heyra hugmyndir þínar um hvernig við getum haldið þetta hátíðarár.
Skrifið okkur bréf á krfi [@] krfi.is eða á Túngötu 14, 101 Reykjavík.
Og ef þið viljið taka þátt í undirbúningsvinnunni, þá tökum við á móti ykkur með gleði! Hafið samband!