Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við hefndarklámi), þingskjal 668 — 436. mál.
Kvenréttindafélag fagnar því að á þessu þingi er lagt fram frumvarp þar sem ákvæði um „hefndarklám“ er bætt við kynferðisbrotakafla almennu hegningarlaganna.
„Hefndarklám“ er hugtak sem hefur verið notað hér á landi og erlendis til að vísa til klámfengis eða kynferðislegs myndefnis sem miðlað er á netinu án samþykkis þess sem þar sést. Hugtakið er að mörgu leyti villandi þar sem þessu efni er ekki alltaf dreift í hefndarskyni: Ljósmyndum er vissulega stundum dreift í hefndarskyni, en þeim er líka stolið og komið í dreifingu af einstaklingum sem engin tengsl hafa við þann sem er á myndinni, ljósmyndir eru teknar af einstaklingum í óþökk þeirra og/eða án þess að þeir viti af því, ljósmyndum er dreift af vanþekkingu, grunnhyggni, grandaleysi, í stríðni, ljósmyndum er dreift sem gjaldmiðli á spjallsíðum, ljósmyndir eru notaðar til að kúga og viðhalda þrælkun einstaklinga sem hafa verið seldir mansali, o.s.frv.
Í öllum tilvikum er um að ræða efni þar sem einstaklingur er sýndur nakinn og/eða á kynferðislegan máta og dreift án samþykkis þess einstaklings. Margir vilja því meina að betra hugtak yfir fyrirbærið sé „klám án samþykkis“ (e. „nonconsensual pornography“). Þessi þýðing er þó óþjál á íslensku og er að mati félagsins heldur ekki nógu lýsandi, þar sem þetta hugtak lýsir ekki ógninni sem felst í og fylgir með myndbirtingu kláms án samþykkis.
Kvenréttindafélagið mælir með að hugtakið „hrelliklám“ sé notað um þetta fyrirbæri. Í hugtakinu „hrelliklám“ er áherslan ekki aðeins á myndefnið heldur einnig á það að birting myndefnisins felur í sér ofsóknir og aðför að frelsi einstaklingsins, sem og á þá staðreynd að með þessum myndbirtingum fylgja oft beinar ofsóknir í símtölum, tölvupóstum, skilaboðum á netinu, o.s.frv. Hugtakið „hrelliklám“ fellur vel að íslenskri orðanotkun, en hugtakið „eltihrellir“ hefur öðlast fastan sess í tungumálinu sem þýðing á enska orðinu „stalker“, einstaklingur sem eltir annan mann, ofsækir og ógnar.
Hrelliklám er ný birtingarmynd ofbeldis þar sem efni sem tekið er í trúnaði eða án vitundar þess sem er á myndinni er sett í dreifingu á netinu og með öðrum leiðum. Hrelliklám verður sífellt algengara hér á landi og þolendur þess eiga fá ráð til að bregðast við birtingu þess. Erfitt er að eyða efni sem einu sinni er komið á netið.
Hrelliklám er sívaxandi vandamál á þessari öld. Í viðamikilli rannsókn sem gerð var árið 2013 af bandaríska tölvufyrirtækinu McAfee, sem sérhæfir sig í öryggismálum á netinu, kom í ljós að 13% viðmælanda höfðu reynslu af því að persónuleg gögn þeirra, þ.á.m. myndefni, væri komið í dreifingu.
Engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi hrellikláms hér á landi. Árið 2014 var þó gerð óformleg könnun meðal menntaskólanema til að athuga umfang þess lags kláms, í grein Ragnheiðar Davíðsdóttur „Nektarmyndamenning netheima: Krípskot og hefniklám“ sem birtist í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélags Íslands 2014. Fjórir viðmælendur, tveir strákar og tvær stelpur, voru valdir til að deila reynslu sinni, og fylgir sú grein þessari umsögn. Allir viðmælendur höfðu fengið sendar og sent sjálfir ljósmyndir og/eða myndskeið þar sem einstaklingur er sýndur nakinn og/eða á kynferðislegan máta. Sumt myndefnið var sent með samþykki og sumt án samþykkis.
Þjóðríki og fylki um allan heim hafa sett lög á síðustu árum sem reyna að vernda þolendur hrellikláms og hindra dreifingu þess. Margar mismunandi leiðir hafa verið farnar í þeim efnum. Lengsta reynslan og dýpsta þekkingin á lagasetningu gegn hrelliklámi er án efa í Bandaríkjunum, en þar hafa 16 fylki sett löggjöf til að stemma stigu við hrelliklámi og fer hvert fylki sínar leiðir við útfærslu þessara laga.
Í janúar 2015 kom út grein eftir Mary Anne Franks, lagaprófessor við lagadeild Háskólans í Miami, þar sem hún ber saman þær mismunandi leiðir sem farnar hafa verið í Bandaríkjunum og í löndum utan Bandaríkjanna við lagasetningu gegn hrelliklámi. Greinin ber titilinn „Drafting an Effective ‘Revenge Porn’ Law: A Guide for Legislators“ og er sérstaklega ætluð löggjafarvaldinu sem vinnur að gerð slíkra laga, en greininni mælir Franks með svokallaðri „fyrirmyndarlöggjöf“ gegn hrelliklámi þar sem hið besta úr mismunandi lagasetningum fylkja og landa er tekið til. Umsögn Kvenréttindafélags Íslands byggist að hluta til af hugmyndum Franks, og afrit af grein hennar fylgir þessari umsögn.
***
Kvenréttindafélag Íslands gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið eins og það er lagt fyrir í þingskjali 668 – 436. máli.
1. grein
Í fyrstu grein þessa frumvarps er lagt til að á eftir 210. gr. b laganna komi ný grein, 210. gr. c, svohljóðandi: Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum þar sem einstaklingur er sýndur nakinn eða á kynferðislegan hátt án samþykkis þess sem á myndunum er, skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að ákvæði um hrelliklám sé sett inn í XXII. kafla hegningarlaganna um kynferðisbrot. Hrelliklám er kynferðisbrot.
Kvenréttindafélag Íslands mælir þó með að þessi grein sé flutt undir 199. grein XXII. kafla almennu hegningarlaganna nr. 19/1940 um kynferðislega áreitni. Í frumvarpinu er þessi grein sett undir 210. grein laganna sem fjallar um birtingu og dreifingu á klámi. Kvenréttindafélag Íslands vill leggja áherslu að hrelliklám er tegund af kynferðislegri áreitni, og telur að löggjöfin skuli skilgreina það sem slíkt með því að flytja greinina undir 199. grein sem tilgreinir kynferðislega áreitni.
Í 199. grein er kynferðisleg áreitni skilgreind sem svo: „Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“ Hrelliklám er kynferðisleg áreitni þar sem birting myndefnis eða hótun um birtingu myndefnis er beitt til að meiða, kúga og valda ótta.
Árið 2007 dæmdi Hæstiréttur Íslands karlmann sekan fyrir að deila hrelliklámi og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (sjá dóm Hæstaréttar nr. 242/2007). Grein 209 gerir sakhæft lostugt athæfi sem særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis. Refsiramminn er 4 ár í þessari grein.
Kvenréttindafélag Íslands telur að hrelliklám eigi frekar að falla undir 199. grein laganna um kynferðislega áreitni, en gerir alvarlegar athugasemdir við því að refsiramminn sé í þeirri grein aðeins 2 ár, eða helmingur af refsiramma fyrir brot á 209. grein. Kvenréttindafélag Íslands getur ekki fallist á að kynferðisleg áreitni sé léttvægara brot en lostugt athæfi sem særir blygðunarsemi manna.
Kvenréttindafélag Íslands mælir einnig með að orðalag á þessari 1. grein frumvarpsins sé skerpt. Félagið veltir fyrir sér hvort að orðalag þessarar greinar sé svo vítt að myndbirtingar foreldra af berrössuðum smábörnum sé gerð ólögleg.
Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að ekki megi gera ólögmætar myndbirtingar sem sýni nekt einstaklinga, ef myndbirtingin er í almannahag. Þolendur kynferðislegrar áreitni og annarra kynferðisbrota eiga að geta deilt ljósmyndum til að styðja mál sitt. Ekki á t.d. að vera saknæmt að deila ljósmyndum af einstaklingi sem „flassar“ eða afhjúpar kynfæri sín á götu úti. Einnig ætti t.d. ekki að vera saknæmt þegar einstaklingur sem hefur verið áreittur með óumbeðnum ljósmyndum af kynfærum deilir þeim til sönnunar um að áreitið hafi átt sér stað.
2. grein
Í annarri grein þessa frumvarps er lagt til að á eftir 229. gr. laganna komi ný grein, 229. gr. a, svohljóðandi: Hver sem birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum og birting eða dreifing er til þess fallin að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir þolandann skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.
Kvenréttindafélag Íslands styður það að hrelliklám birtist á tveimur stöðum í almennu hegningarlögunum 19/1940, bæði undir XXII. kafla um kynferðisbrot sem og XXV. kafla um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þó teljum við mun mikilvægara að hrelliklám falli undir kynferðisbrot, frekar en brot á friðhelgi einkalífs.
Að þessu sögðu, ef ákveðið verður að setja inn ákvæði um hrelliklám inn í XXV. kafla um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, teljum við mjög mikilvægt að einnig séu gerðar breytingar á 242. grein þess kafla þar sem tilgreint er hvernig saksókn fari fram gegn brotum í þeim kafla. Eins og frumvarpið er orðað núna, þá myndi ný 229. grein a um hrelliklám falla undir 3. málslið 242. greinar, sem þýðir það að mál gegn birtingu hrellikláms „getur sá einn höfðað, sem misgert er við.“
Kvenréttindafélag Íslands telur að gerendur hrellikláms skuli skýlaust sæta ákæru sem sé höfðuð af ákæruvaldinu, ekki af þolandanum. Það er óásættanlegt að leggja það á herðar þolendur kynferðisbrota og hrellikláms að þurfa að standa í einkamálsóknum til að ná fram rétti sínum. Mælir félagið með að gerð verði breyting á 242. grein 1. málslið, og að ákvæði um hrelliklám sé skilyrt sem brot ákært af yfirvöldum, líkt og brot á 233. grein hegningarlaganna eru í dag.
Hallveigarstaðir, Reykjavík
2. mars 2015
5 Comments
Comments are closed.
Góðan daginn
Mig langar að koma á framfæri athugasemd við þessa grein. Eins og Kvenrétindafélagið gerir sér grein fyrir þá skiptir orðræðan gríðarlega miklu máli.
Tökur og dreifing kynlífsmynda- eða myndbanda er brotaflokkur sem er tiltölulega nýtilkominn og á þessu ári hafa verið fjöldi atvika, atburða og fjölmiðlaumfjallana sem hafa tekið á þessum kynferðisbrotum.
Ég er með eitt slíkt mál í gangi þar sem var tekið kynlífsmyndband af mér án minnar vitundar og samþykkis og sett í dreifingu á netinu. Myndbandið fór í gríðarlega dreifingu og sýnir svart á hvítu hversu skætt internetið er þegar kemur að þessu.
Ég er sammála ykkur að „hefndarklám“ sé mjög slæmt hugtak og langt því frá lýsandi fyrir brotið. En athugasemdin sem ég vil gera er að „hrelliklám“ er ekki betra orð. Upptökur og dreifing á kynlífsmyndum og myndböndum er kynferðisbrot og þar sem verið er að skilgreina brotið í lögum þá er gríðarlega mikilvægt að það sé skýrt að þetta sé kynferðisbrot.
Að kalla þetta „klám“ er normalisering á alvarlegu kynferðisbroti. Fæstir átta sig á hversu alvarlegt brotið er nema hafa upplifað það á eigin skinni. Að kalla þessi brot „klám“ dregur úr alvarleika brotanna og normaliserar kynferðisbrot. Upptökur og dreifing svona mynda er stafrænt kynferðisbrot og það þarf að kalla það sem slíkt.
Svona er orðabókaskýringin á „hrella“
hrella -di S
1
• valda hugarangri, valda leiða, angra
hrella e-n
hrella ljósið blása á ljósið (án þess að slökkva það)
• hryggja
• hræða
Að mínu mati er það smættun á alvarlegu kynferðisbroti, bæði að nota orðin „hrella“ og „klám“ Að sjálfsögðu valda þessi brot hugarangri, hryggð og hræðslu en það er bara örlítið brot af því tilfiningunum sem þolandi upplifir.
Þó svo klám sé ólöglegt í íslenskum lögum þá er það lagabálkur sem er úreltur, ALDREI notaður (og þegar brot á lögum eru eins almenn og brot á lögum um klám án þess að það komi til kasta refsivörslukerfisins þá eru lögin dauður bókstafur á blaði). Ekki má gleyma því að klám er mjög víða löglegt, undir eðlilegum aðstæðum með samþykki þeirra sem koma að (ef það er ekki samþykki allra hlutaðeigandi aðila þá er þetta ekki klám lengur heldur kynferðisbrot) og hvort sem fólki líkar betur eða verr þá er klám og klámáhorf samfélagslega viðurkennd í okkar samfélagi. Vegna þess að klám er samfélagslega samþykkt þá er og verður „hrelliklám“ það líka.
Að kalla stafræn kynferðisbrot klám er mínum huga það sama og að kalla nauðgun kynlíf og MMA ofbeldi.
Það er ótrúlegur fjöldi af „venjulegu“ fólki sem sér ekkert athugavert við að horfa á svona myndbönd og á síðunni http://www.chansluts.com er verið að kalla eftir myndum og myndböndum af nafngreindum kvenmönnum. Mitt myndband fór þar inn með fullu nafni og tengli í Kastljósviðtalið.
Til þess að skilnningurinn á alvarleika brotanna verði almennur þá ÞARF að kalla þetta kynferðisbrot en ekki klám. Á upphafsskrefunum er gríðarlega mikilvægt að taka orðræðuna föstum tökum og þess vegna ákvað ég að senda ykkur ábendingu og mína rökfærslu fyrir henni.
Ég vil hvetja ykkur (jafnvel ganga svo langt að skora á ykkur) að taka þennan póst til umfjöllunar og endurskoða umsögn ykkar með hugtakanotkunina í huga.
Kveðja Júlía Birgis
Sæl Júlía!
Takk fyrir að skrifa okkur. Ég hef fylgst með baráttu þinni með óendanlega djúpri aðdáun síðasta mánuðinn.
Það er semsagt ég sem smíðaði orðið hrelliklám (ég heiti Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, og er framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins), og er að mörgu leyti sammála þér að orðið er alls ekki nógu gott.
Þegar ég smíðaði hugtakið fyrst, þá hugsaði ég lengi hvort ég ætti að pæla í að breyta seinni orðstofninum, en ákvað að lokum halda orðinu „klám“, a.m.k. að til að byrja með… Það voru tvær ástæður sem þar lágu að baki, ein praktísk og hin hugmyndafræðileg. Sú praktíska er að orðið „hefndarklám“ var þegar mikið notað daglegu tali á Íslandi, og til að fá fólk til að breyta orðnotkuninni taldi ég mikilvægt að tillaga að nýju orði væri sem líkust. Hugmyndafræðilega ástæðan var sú að ég taldi að með glæpnum, myndbirtingunni sjálfri, þá væru myndirnar gerðar að klámi, þ.e. að myndirnar sjálfar væru ekki klám eða klámfengnar (þá sérstaklega þegar ég hafði það í huga að margar þessar myndir eru teknar með samþykki þeirra sem á þeim eru), heldur væru þær gerðar að klámi með glæpnum, að gjörningurinn sjálfur sé klámfenginn.
Í umsögninni sem Kvenréttindafélagið sendi við frumvarpinu um breytingar á lagabókstafnum, þá lögðumst við mjög gegn þeirri hugmynd að þess lags myndbirtingar án samþykkis væru færðar undir lagagreinina gegn klámi. Sú grein er dauður bókstafur í lagabálknum, og (úrelt, enda frá 1869 (mín skoðun, ekki endilega/enn Kvenréttindafélagsins)). Við hvöttum til þess að þessi grein væri sett undir kaflann um kynferðislega áreitni, þar sem þess lags myndbirtingar eru ofbeldi og áreitni eins einstaklings gagnvart öðrum.
Varðandi hugtakið sjálft, og reyndar bara varðandi málið almennt, þá langar mig afskaplega mikið að hitta þig og ræða málin. Er „stafrænt ofbeldi“ hugtakið sem þér finnst best? Við erum reyndar farnar að fikra okkur út í þetta hugtak. Við vorum einmitt núna í upphafi þessa árs að hefja nýtt, samnorrænt verkefni sem tengist „Online Violence Against Women in the Nordic Countries“. (sjá hér: http://www.nikk.no/en/calls-for-applications/apply-for-fundings/projects-that-recieved-funding-2015/online-violence-against-women-in-the-nordic-countries/).
Geturðu sent mér póst? Bestu kveðjur, Brynhildur