Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (heimilisofbeldi) þingskjal 778 — 470. mál.

 

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að með þessu frumvarpi sé nú sett inn í almennu hegningarlögin sérstök grein sem tekur til heimilisofbeldis, að fyrirmynd Svíþjóðar og Noregs.

Birtingarmyndir heimilisofbeldis eru margar, og brot framin gegn nákomnum þurfa og eiga að hafa sérstöðu í lagabálki okkar til að viðurkenna alvarleika þeirra og auðvelda löggjafarvaldinu að taka á þessari samfélagsvá.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar sérstaklega að með þessum breytingum er það lagt í hendur lögreglu að kæra sjálfkrafa brot á nálgunarbanni, í stað þess krefjast þess að brotaþoli biðji um að mál sé höfðað.

Við gerum þó athugasemd við 2. grein b. í þessu frumvarpi, sem kveður á um að brot gegn ákvæðum í 230. grein og 231. grein skuli aðeins sæta ákæru ef sá eða sú sem misgert var við krefst þess.

231. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo: „Ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns, eða annan honum óheimilan stað, eða synjar að fara þaðan, þegar skorað er á hann að gera það, þá varðar það sektum eða [fangelsi] allt að 6 mánuðum. Þó má beita … fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru, svo sem ef sá, sem brot framdi, var vopnaður eða beitti ofbeldi eða hótun um ofbeldi eða brot er framið af fleirum saman.“

Teljum við að ótækt að ákæra á brotum gegn 231. grein skuli háð því að sá einstaklingur sem misgert er við krefjist hennar. Algeng birtingarmynd heimilisofbeldis er ofbeldi gegn fyrrum eiginkonu, sambýliskonu eða barnsmóður. Slíkt ofbeldi á sér einmitt oft stað með þeim hætti að gerandi ræðst inn á heimili brotaþola. Teljum við sjálfsagt að færa skuli þessa grein inn í 242. grein, 1. tölulið, og leggja á ábyrgð yfirvalda að kæra þessi brot.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi áfram til starfa að bæta ákvæði hegningarlöggjafarinnar sem beinast gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, og í störfum sínum að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar til að fullgilda Istanbúlsáttmálann.

2. mars 2015
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Aðrar fréttir