KRFÍ hélt súpufund á lokadegi 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi, 10. desember sl. Frummælendur voru Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindamálaráðherra og Sigríður J. Hjaltested, aðstoðarsaksóknari hjá embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Leita verður leiða til að vinna bug á ómeðvituðum og jafnvel kerfislægum fordómum í garð brotaþola í kynferðisafbrotamálum. Þessi afdráttarlausa afstaða var á meðal þess sem kom fram á athyglisverðum súpufundi KRFÍ, en yfirskrift fundarins var „Góðglaðar í allt of stuttum pilsum – staða kynferðisafbrotamála á Íslandi“.


Í máli Ögmundar kom m.a. fram að beina verði sjónum stjórnvalda í ríkari mæli að gerendum í kynferðisafbrotamálum, auk þess sem forvarnarstarf þurfi að beinast að þeim í markvissari mæli en nú er. Ráðherrann sagðist þó fyrst og fremst kominn til að hlusta og má segja að hann hafi verið tekinn á orðinu, í þeim opinskáau umræðum sem fram fóru að framsögum loknum. Sigríður beindi á hinn bóginn máli sínu að rannsóknarhlið kynferðisafbrotamála, en afbrotamál eru nú öll flokkuð undir einn og sama hattinn hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Það hafi að hennar mati verið þessum vandmeðfarna málaflokki almennt til framdráttar, að nauðgunarmál séu ekki lengur meðhöndluð sér. Hins vegar megi gera betur í þeim mannafla sem embættið hafi til ráðstöfunar og einnig megi spyrja hvort gera þurfi frekari úrbætur á fyrirmælum laga.

Beinskeyttar fryrirspurnir og umræður urðu að framsögum loknum, m.a. um skerta réttarvernd kvenna gagnvart réttarkerfi sem virðist vanmegnugt þegar kemur að refsingu kynferðisafbrotamanna. Einnig var komið inn á það vantraust sem fordómar geta komið af stað hjá þolendum, með þeim afleiðingum að þeir leiti síður réttar síns. Þá var bent á að það megi ekki hamla nauðsynlegum umbótum innan málaflokksins að embættismenn taki gagnrýna umræðu persónulega til sín og að röng forgangsröðun stjórnvalda í reynd komi mjög víða fram. Rannsóknarmönnum efnhagsbrota hafi sem dæmi fjölgað ört í kjölfar hrunsins, á sama tíma og þeim fari hlutfallslega fækkandi sem sinna nauðgunum og öðrum kynferðisafbrotum.

Eins og áður segir fór fundurinn fram á loka degi alþjóðlega átaksins gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur 16 daga ár hvert. Umfjöllunarefi og yfirskrift var sótt í þau ummæli, sem einn af reyndustu stjórnendum lögregluyfirvalda í kynferðisafbrotamálum lét falla í haust í blaðaviðtali þess efnis að brotaþolar ætti að líta í eigin barm þegar þær verði fyrir nauðgun sem oftar en ekki mætti rekja til of mikillar áfengisneyslu kvennanna. Með því beindi hann sjónum að brotaþolendum frekar heldur en að beina athuglinni á þeim sem brotin fremja.

Aðrar fréttir