Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, 146. löggjafarþing 2016–2017. Þingskjal nr. 568 – 436. mál.
Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir almennri ánægju með frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna.
Við höfum þó áhyggjur af eftirfylgd laganna ef frumvarpið er samþykkt, en gert er ráð fyrir því að þeim sé framfylgt af Jafnréttisstofu. Í greinargerð við frumvarpið er gert grein fyrir því að innan útgjaldaramma Jafnréttisstofu hefur verið gert ráð fyrir kostnaði sem leiðir af lögfestingu frumvarpsins, og að ekki er talin ástæða til þess að það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
Kvenréttindafélag Íslands telur að ef Jafnréttisstofu sé ætlað að sinna þeim skyldum sem fram kemur í þessu frumvarpi til viðbótar við núverandi skyldur, þurfi að tryggja og treysta stoðir hennar verulega.
Teljum við nauðsynlegt að:
- að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu til muna og bæta við sérfræðingum í þeim nýju málaflokkum sem henni er nú ætlað að sinna;
- að auka nálægð Jafnréttisstofu við stjórnsýslu ríkisins. Við teljum bráðnauðsynlegt að fjölga starfsmönnum Jafnréttisstofu sem staðsettir eru í Reykjavík til muna. Nauðsynlegt er fyrir stofnun sem sinnir svo mikilvægum málaflokki sem jafnréttismálum að vera í mikilli nálægð við þau ráðuneyti, stofnanir, frjáls félagasamtök og aðila vinnumarkaðarins sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu;
- að tryggja það að starfsemi Jafnréttisstofu sé á landsvísu. Vinnueftirlitið er dæmi um stofnun hefur starfsmenn í níu sveitarfélögum á landinu. Teljum við að starf Jafnréttisstofu sé síst veigaminna en starf Vinnueftirlitsins og hvetjum við til þess að opnaðar verði skrifstofur Jafnréttisstofu í öllum landsfjórðungum og þar með tryggt að Jafnréttisstofa geti sinnt skyldum sínum við eftirlit, fræðslu og upplýsingastarfsemi á landinu öllu.
10. maí 2017
Hallveigarstöðum, Reykjavík