Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur). 146. löggjafarþing 2016–2017. Þingskjal nr. 261 – 190. mál.


Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á kosningaaldri í sveitarstjórnarkosningum. Félagið styður þetta frumvarp og hvetur til þess að það verði að lögum.

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar fyrir 110 árum. Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu konur saman að heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Tilgangurinn var að ræða stofnun félags sem gengist fyrir breytingum á löggjöf landsins sem snerti konur og börn og framkvæmd laganna, eða eins og segir í 2. gr. fyrstu laga félagsins: „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“.

Síðan þá hefur Kvenréttindafélagið ávallt unnið að því að auka og styðja þátttöku kvenna í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Félagið styður því allar tillögur sem miða að því að efla lýðræði og auka þátttöku fólks, þ.á.m. kvenna, í kosningum.

Oftar en ekki er það yngra fólkið sem leiðir okkur sem eldri erum áfram til framtíðarinnar með hugmyndum sínum um jafnrétti og lýðræði, og því er nauðsynlegt að efla rödd unga fólksins í samfélaginu. Sjálfsprottnar herferðir ungra kvenna á samfélagsmiðlum, svo sem #freethenipple og „Beauty tips“ byltingin, hafa vakið mikla athygli og umræðu síðustu misseri og komið málum á dagskrá í almennri umræðu og innan stjórnmálanna.

Dræm kosningaþátttaka ungs fólks síðustu ár er mikið áhyggjuefni og því er full ástæða að gera allt sem í okkar krafti felst til að auka hana að nýju. Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kosningarréttur við kosningar til Alþingiskosninga verði rýmkaður með sama hætti og boðaður er í þessu frumvarpi.

18. maí 2017
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Aðrar fréttir