Stefnuskrá, lög og reglur
1. gr. Nafn
Félagið heitir Kvenréttindafélags Íslands, skammstafað KRFÍ. Heimili þess og varnarþing er að Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík.
2. gr. Stefna
Markmið félagsins er að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Félagið leggur áherslu á mannréttindi og vinnur gegn hvers konar mismunun. Félagið vinnur samkvæmt stefnuskrá sem samþykkt er á aðalfundi.
3. gr. Aðild að alþjóðasamtökum
Félagið á aðild að Alþjóðasambandi kvenréttindafélaga (International Alliance of Women – IAW) og Hagsmunasamtökum evrópskra kvenna (European Women’s Lobby – EWL).
4. gr. Félagsaðild að KRFÍ
Félagar í KRFÍ geta orðið:
- Einstaklingar sem vilja vinna samkvæmt lögum félagsins og stefnuskrá.
- Kvenréttindafélög og önnur almannaheillafélög sem vinna að sambærilegum stefnumálum og KRFÍ. Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn KRFÍ sem samþykkir eða synjar aðild á stjórnarfundi. Ákvörðun stjórnar um aðild skal staðfest á aðalfundi.
Félaga, þar á meðal aðildarfélagi, sem starfar gegn stefnu og markmiðum KRFÍ, er hægt að vísa úr félaginu á aðalfundi, með einföldum meirihluta greiddra atkvæða.
5. gr. Félagsgjöld
Aðalfundur ákveður félagsgjöld. Greiði félagi eða aðildarfélag ekki gjöld sín í samfleytt tvö ár er heimilt að taka þá af félagaskrá.
6. gr. Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. maí ár hvert og skal boða félaga með tölvupósti skv. netfangaskrá félagsins, sem varðveitt er í félagaskrá, og með auglýsingu á vefsíðu félagsins, með minnst tveggja vikna fyrirvara.
Aðalfundur KRFÍ er jafnframt aðalfundur Menningar- og minningarsjóðs kvenna (MMK) og ungmennaráðsins Laufeyjar.
Með fundarboði skal senda tillögur um lagabreytingar, ef einhverjar eru.
Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Framboð til stjórnarsetu og setu í nefndum og samtökum fyrir hönd KRFÍ skal berast til kjörnefndar viku fyrir boðaðan aðalfund. Kosningar eru bindandi og leynilegar ef stungið er upp á fleirum en kjósa skal.
Tillögur og ályktanir skulu berast til stjórnar viku fyrir boðaðan aðalfund.
Atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi, þar á meðal í nefndir og samtök sem KRFÍ á aðild að, hafa aðeins skuldlausir félagar.
Aðildarfélög hafa hvert rétt á að tilnefna einn fulltrúa með atkvæðisrétt.
Einfaldur meirihluti mættra félaga með atkvæðisrétt ræður úrslitum mála, nema annað sé tiltekið.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Setning aðalfundar
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Lögmæti fundarins staðfest
- Skýrslur stjórna KRFÍ, MMK og ungmennaráðs Laufeyjar lagðar fram
- Endurskoðaðir reikningar KRFÍ, MMK og ungmennaráðsins Laufeyjar lagðir fram til samþykktar
- Ákvörðun tekin um upphæð félagsgjalds, sbr. 5. gr
- Tillögur um framkomnar lagabreytingar
- Kosning formanns, sbr. 10. gr.
- Kosning stjórnar, sbr. 10. gr.
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
- Kosning stjórnar MMK, sbr. 13. gr
- Kosning stjórnar ungmennaráðs Laufeyjar, sbr. 9. gr
- Kosning fulltrúa í nefndir og samtök sem KRFÍ á aðild að, þar á meðal aðal- og varafulltrúa á aðalfund EWL
- Önnur mál
- Fundi slitið
7. gr. Lagabreytingar
Breytingar á lögum ganga í gildi þegar þær hafa hlotið samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.
8. gr. Kjörnefnd
Stjórn skal skipa þrjá félaga í kjörnefnd sem tryggir framboð til trúnaðarstarfa. Tillögur nefndarinnar skulu liggja frammi á skrifstofu KRFÍ tveimur vikum fyrir aðalfund og skulu félagar skila tillögum sínum þangað eigi síðar en viku fyrir aðalfund.
9 . gr. Ungmennaráðið Laufey
Ungmennaráð Kvenréttindafélagsins ber heitið Laufey. Það starfar í umboði stjórnar Kvenréttindafélagsins og eftir eigin samþykktum sem lagðar eru fyrir og samþykktar á aðalfundi KRFÍ. Ráðið skal starfa í samræmi við stefnu Kvenréttindafélagsins eins og hún birtist í lögum þess, markmiðum, stefnuskjölum, ályktunum og umsögnum félagsins.
Laufey hefur það að markmiði að:
- Stuðla að því að sjónarmið og áherslur ungs fólks í jafnréttisbaráttunni séu ávallt höfð til hliðsjónar í starfi KRFÍ
- Stuðla að nýliðun í KRFÍ
- Auka þekkingu og vitund meðal ungs fólks á jafnréttismálum
- Auka samstarf við önnur ungmennaráð innanlands og erlendis
Ungmennaráði ber að velja og þróa verkefni sem styðja við ofangreind markmið og markmið KRFÍ. Ungmennaráð skal halda reglulega fundi til að þróa stefnu þess og verkefni.
Formaður stjórnar Ungmennaráðs situr einnig í stjórn Kvenréttindafélagsins og upplýsir stjórn KRFÍ um verkefni Ungmennaráðsins á fundunum. Stjórn KRFÍ getur kallað eftir upplýsingum um starf Ungmennaráðsins og öfugt, þegar þörf krefur.
Framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins hefur umsjón með starfi Ungmennaráðsins.
Til að gerast félagi í Ungmennaráði þarf viðkomandi að vera félagi í Kvenréttindafélaginu.
Aðalfundur Kvenréttindafélagsins er jafnframt aðalfundur Ungmennaráðs.
10. gr. Stjórn KRFÍ
Stjórn KRFÍ er kosin á aðalfundi og samanstendur af formanni, fimm stjórnarmönnum kosnum til tveggja ára, og þremur varamönnum kosnum til eins árs í senn.
Aðalfundur kýs formann og tvo stjórnarmenn á ári með oddatölu og þrjá stjórnarmenn á ári með sléttri tölu. Aðalfundur kýs einnig þrjá varamenn í stjórn til eins árs í senn.
Formaður ungmennaráðsins Laufeyjar á jafnframt sæti í stjórn Kvenréttindafélagsins sem aðalmaður. Formaður er kosinn samkvæmt samþykktum ungmennaráðsins Laufeyjar.
Stjórn KRFÍ skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur. Hún markar stefnu félagsins utan aðalfunda, hefur eftirlit með fjárreiðum og rekstri þess og skipar í starfshópa EWL. Stjórn KRFÍ fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.
Stjórn skal undirbúa aðalfund og aðra félagsfundi.
Stjórn KRFÍ fundar minnst sex sinnum á ári. Ákvarðanir á stjórnarfundi eru teknar með einföldum meirihluta. Ef atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði formanns.
Enginn skal sitja í stjórn KRFÍ lengur en tíu ár samfellt.
Formaður, stjórn og framkvæmdastýra eru málsvarar KRFÍ út á við.
11. gr. Reikningar KRFÍ
Stjórn KRFÍ ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Reikningshald félagssjóðs og blaðsjóðs 19. júní skal vera aðskilið. Reikningsár skal vera almanaksárið.
12. gr. Starfsfólk KRFÍ
Stjórn KRFÍ ræður framkvæmdastýru Kvenréttindafélags Íslands og annað starfsfólk. Framkvæmdastýra, í umboði stjórnar, ber ábyrgð á daglegum rekstri og sér um að stefnu sem stjórn og aðalfundur markar sé framfylgt.
13. gr. Menningar og minningarsjóður kvenna (MMK)
Aðalfundur kýs stjórn MMK í samræmi við skipulagsskrá sjóðsins. Stjórn MMK leggur fram skýrslu um störf sín og setur sér starfsreglur.
14. gr. 19. júní
KRFÍ gefur út tímaritið 19. júní sem kemur út 19. júní ár hvert. Stjórn skipar ritnefnd blaðsins.
15. gr. Kvennaheimilið Hallveigarstaðir
Stjórn KRFÍ skipar fulltrúa í húsefnd Kvennaheimilisins Hallveigarstaða sbr. reglugerð Kvennaheimilisins Hallveigarstaða.
16. gr. Félagsfundir
Félagsfundir skulu haldnir þegar þörf krefur eða þegar tveir stjórnarmenn, endurskoðandi eða að minnsta kosti 10% félaga óska þess. Á félagsfundum má fjalla um öll þau mál er KRFÍ varðar. Til félagsfunda skal boða með að minnsta kosti sjö daga fyrirvara, skv. netfangaskrá félagsins, sem varðveitt er í félagaskrá, og með auglýsingu á vefsíðu félagsins.
17. gr. Varðveisla gagna
Verðmæt skjöl og sögulegar heimildir um félagið varðveitast í Kvennasögusafni Íslands.
18. gr. Félagsslit
KRFÍ verður lagt niður þegar það hefur náð markmiðum sínum eða með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi tvö ár í röð. Verði KRFÍ lagt niður skulu eignir þess renna til Menningar- og minningarsjóðs kvenna.
Lesið eldri lög félagsins: hér (2001), hér (2015), hér (2016), hér (2017), hér (2019) og hér (2023).