Kvenréttindafélag Íslands býður upp á súpu og spjall í hádeginu mánudaginn 21. nóvember. Þá mun Sóley Stefánsdóttir halda erindi á Hallveigarstöðum þar sem hún kynnir verkefni sem fjallar um hönnun sem verkfæri í jafnréttisbaráttunni. Verið velkomin í súpu, brauð og fróðleik kl. 12 á Hallveigarstöðum. Aðgangur og veitingar eru ókeypis.
Sóley hefur undanfarin ár þróað alþjóðlega verkefnið DIG-Equality: Design Innovation for Gender Equality. Þar skoðar hún hvernig allur okkar efnisheimur er meira og minna hannaður, hvort sem það eru heimilisvörur, fatnaður, bílar eða byggingar. Hún spyr sig: út frá hvaða forsendum er veröldin sem við búum í hönnuð? Væri hægt að hanna hana öðruvísi ef markmiðið væri jafnrétti? Hvernig myndu bílar eiginlega líta út, ef þeir væru hannaðir af konum fyrir konur?
Sóley útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA próf í grafískri hönnun árið 2004, en hafði áður lokið háskólaprófi í guðfræði og kynjafræði frá Háskóla Íslands. Hún bjó í Mósambík í tæp tvö ár þar sem hún kenndi grafíska hönnun í höfuðborginni Maputo. Síðustu árin hefur Sóley unnið sjálfstætt við grafíska hönnun, meðal annars fyrir Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Stígamót og UNIFEM/UN Women (en hún hannaði einmitt jólakort þeirra í ár). Hún fjallaði um hönnun í víðu samhengi í pistlaröð í Víðsjá núna í haust. Árið 2007 skrifaði hún ásamt Halldóri Gíslasyni að bókina Hönnun: auðlind til framtíðar þar sem fjallað er um hönnun sem mikilvæga og vaxandi atvinnugrein og framtíðarþróun hennar í íslensku samfélagi. Í tengslum við þá vinnu hefur hún setið í nefnd um mótun hönnunarstefnu Íslands. Núna í vikunni var Sóleyju veittur hönnunarstyrkur Auroru til að halda áfram rannsóknum sínum á samspili hönnunar og jafnréttis.