Ingibjörg Einarsdóttir hét eiginkona Jóns Sigurðssonar, þjóðhetju Íslendinga. Hennar er einkum minnst sem hinnar ófríðu eldri konu, sem sat í festum í mörg ár. En hver var hún? Og hversu sönn er sú mynd sem hefur verið dregin upp af henni?
Margrét Gunnarsdóttir sagnfræðingur mun velta þessum og fleiri spurningum fyrir sér í erindi sem hún flytur í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu 5. desember kl. 12-13.
Margrét er doktorsnemi í sagnfræði en hefur um árabil starfað sem sögukennari í framhaldsskóla. Hún er höfundur bókarinnar Ingibjörg sem Bókafélagið Ugla gefur út. Fyrirlesturinn er í boði Kvennasögusafns Íslands, en 5. desember var afmælisdagur Önnu Sigurðardóttur, frumkvöðuls að Kvennasögusafni.
Í Þjóðarbókhlöðu stendur nú yfir stór sýning á völdum handritum og skjölum Jóns og Ingibjargar. Henni er ætlað að varpa ljósi á einkahagi Jóns, vísindastörf og stjórnmálaþátttöku og þar eru að finna fjölmörg handrit, skjöl, bréf og bækur, meðal annars frá heimilishaldi þeirra hjóna í Kaupmannahöfn, handrit frá heimilisfólkinu á Hrafnseyri, gögn frá námsárum Jóns, handrit sem tengjast fræðastörfum hans og margt fleira. Þá er úrval af handritasafni Jóns til sýnis í Íslandssafni á 1. hæð.
Öllum er heimill aðgangur. Verið velkomin. Kvennasögusafnið.