Kvenréttindafélag Íslands býður upp á súpu og spjall í hádeginu mánudaginn 12. mars. Á þessum fundi verða kynntar hugmyndir um kennslu í jafnrétti og kynjafræði á framhalds- og grunnskólastigi. Verið velkomin í súpu, brauð og fróðleik milli kl. 12 og 13 á Hallveigarstöðum. Aðgangur og veitingar eru ókeypis.
Á fundinum mun Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynna námskeið sem hún hannaði til kennslu í kynjafræði við Borgarholtsskóla. Borgarholtsskóli var fyrstur framhaldsskóla á landinu til að taka upp kennslu í kynjafræði, en þrír aðrir skólar hafa fylgt í kjölfarið. Námskeið Hönnu vakti töluverða athygli í lok síðasta árs þegar einn nemandi hennar sendi aðsenda grein í Fréttablaðið og lýsti hvaða áhrif hugmyndafræði jafnréttis hefði haft á hann.
Með Hönnu mætir Þórunn Jóna Hauksdóttir, sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þórunn Jóna mun fjalla um jafnrétti og aðra grunnþætti menntunar. Hún mun fara nánar út í hvernig jafnréttiskennslu er fyrir komið á framhalds- og grunnskólastigi samkvæmt námskrá.