Ársrit Kvenréttindafélags Íslands, 19. júní, verður nú annað árið í röð dreift með Fréttablaðinu í dagblaðabroti. Sú tilraun að dreifa 19. júní með Fréttablaðinu gafst óhemju vel í fyrra. Blaðið var borið út til mikils meirihluta heimila á landinu og vakti eftir því athygli. Það er ekki alltaf sem að almenningur hefur tækifæri til að lesa rit sem helgað er kvenréttindum!
Því er ekki hægt að neita að ákveðin eftirsjá er af því að gefa 19. júní ekki út í tímaritsformi. Ritlingurinn með Fréttablaðinu er formlega 61. árgangur blaðsins og dagblaðabrotið lítur óneitanlega ekki eins veglega út og fyrri árgangar. Kvenréttindafélagið hefur þó þurft að draga seglin mikið saman síðustu fjögur árin, eins og allir hér á landi, og því verður 19. júní dreift áfram í núverandi fyrirkomulagi a.m.k. þar til tíð og tímar batna.
Í 19. júní í ár fögnum við framtíðinni. Við fjöllum um félög og hópa sem hafa sprottið upp síðustu árin og fagna jafnrétti kinnroðalaust, kynnumst Félagi ungra jafnréttissinna en meðlimir þess eru allt niður í 14 ára gamlir. Við fjöllum um tímaritið Endemi sem rýnir í kynjaójafnvægi í lista- og menningarumfjöllun á Íslandi, um nei-hópinn, um druslugöngur hérlendis og erlendis, stiklum á jafnréttismálum á Íslandi á árinu, tölum við nýkjörinn biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, og fjöllum ítarlega um Stóru systurnar sem vöktu mikla athygli á síðasta ári með aðgerðum sínum gegn vændiskaupum á Íslandi.
Í ár fagna íslenskar konur 97 ára afmæli kosningaréttar síns. Ísland stendur nú fremst þjóða heimsins í jafnréttismálum og framtíðin er björt. Til hamingju, Ísland!