5. mars 2018
Hallveigarstaðir, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að nú liggi fram frumvarp til laga um banni við stafrænu kynferðisofbeldi.
Stafrænt kynferðisofbeldi er ný birtingarmynd ofbeldis þar sem efni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans er sett í dreifingu á netinu og með öðrum leiðum. Stafrænt kynferðisofbeldi er sífellt algengara hér á landi og þolendur þess eiga fá ráð til að bregðast við birtingu þess. Erfitt er að eyða efni sem einu sinni er komið á netið.
Kvenréttindafélag Íslands hefur síðustu árin lagt sitt af mörkunum til að stuðla að vitundarvakningu um stafrænt kynferðisofbeldi og afleiðingar þess, bæði beinar afleiðingar fyrir þolendur, svo sem sálrænar, fjárhagslegar og líkamlegar, en einnig samfélagslegar afleiðingar, en að mati félagsins er stafrænt kynferðisofbeldi bein ógn við lýðræðið þar sem myndbirtingar af viðkvæmu efni án samþykkis einstaklinga stuðlar að þöggun og getur hindrað þá í því að taka fullan þátt í samfélagslegri umræðu.
Fyrsta greinin um stafrænt kynferðisofbeldi birtist í ársriti Kvenréttindafélagsins 19. júní árið 2014 („Nektarmyndamenning netheima: Krípskot og hefniklám“ eftir Ragnheiði Davíðsdóttur), árið 2015 gaf félagið út skýrsluna Stöðvum hrelliklám: Löggjöf og umræða eftir Vigdísi Fríðu Þorvaldsdóttur, þar sem farið var yfir erlenda löggjöf um stafrænt kynferðisofbeldi, rannsökuð viðhorf ungs fólks til stafræns kynferðisofbeldis, og farið stuttlega yfir sögu og umfang stafræns kynferðisofbeldis á Íslandi.
Árið 2017 hélt félagið fagráðstefnu um stafrænt ofbeldi þar sem fólk sem vinnur að málum sem tengjast stafrænu ofbeldi og fólk sem hefur sérþekkingu á málefninu kom saman og ræddi málin, og sama ár 2017 kom út skýrslan Online Violence Against Women in the Nordic Countries og eru höfundar hennar Ásta Jóhannsdóttir, Mari Helenedatter Aarbakke og Randi Theil Nielsen sem birtu niðurstöður samnorrænnar rannsóknar sem félagið vann um stafrænt ofbeldi gegn konum á Norðurlöndum, með áherslu á upplifun þolenda á réttlæti, í samstarfi við Kvinderådet í Danmörku og KUN – Senter for kunnskap og likestilling í Noregi. Rannsóknin var framkvæmd í þremur löndum, Íslandi, Noregi og Danmörku, og var markmið hennar að rannsaka mismunandi birtingarmyndir stafræns ofbeldis í þessum þremur löndum og hvernig þolendur upplifa leitina að réttlæti vegna þessa ofbeldis. Með rannsókninni voru kortlagðar þær leiðir sem þolendur stafræns ofbeldis hafa farið til að leita réttar síns og markmið hennar var að skrásetja hvað virkar vel í því ferli og hvað betur má fara. Í rannsókninni voru tekin viðtöl við þolendur stafræns ofbeldis, við fulltrúa lögreglunnar sem hafa unnið að rannsókn mála tengdum stafrænu ofbeldi, og við fulltrúa frjálsra félagasamtaka sem hafa aðstoðað þolendur við að leita lagalegs réttar síns.
Skilningur samfélagsins á stafrænu kynferðisofbeldi hefur gjörbreyst á aðeins örfáum árum í kjölfar mikillar umræðu og hugrekkis þolenda sem hafa komið fram opinberlega til að greina frá reynslu sinni. Þegar Kvenréttindafélagið fjallaði fyrst um fyrirbærið beittum við hugtakinu “hefniklám” eða “hefndarklám”, sem er bein þýðing úr ensku, en hugtakið “revenge pornography” er í daglegu tali notað um þess lags ofbeldi í enskumælandi löndum. Síðar tók félagið að nota hugtakið “hrelliklám” í viðleitni til þess að færa skömmina frá þolendum yfir á gerendur sem dreifa efni til að hrella aðra. Síðustu tvö árin hefur þó félagið notað hugtökin “stafrænt ofbeldi” og “stafrænt kynferðisofbeldi” yfir fyrirbærið því að, eins og flutningsmenn þessa frumvarp benda á, er fyrri orðanotkun ekki talin lýsandi fyrir þann verknað sem henni er ætlað að lýsa, m.a. vegna þess að verknaðurinn felur ekki endilega í sér þann tilgang að hefna eða hrella, sem og að hugmyndir fólks um hvað teljist til kláms eru æði misjafnar.
Þetta er í þriðja skipti sem að frumvarp liggur fyrir Alþingi til að banna stafrænt kynferðisofbeldi og ber þetta frumvarp merki þess hve mikið skilningur okkar á þessum glæp hefur aukist. Við tökum undir orð flutningsmanna að framleiðsla, birting og dreifing slíks hljóð- eða myndefnis sé ekki klám í nútímalegum skilningi flests fólks, heldur form kynferðisofbeldis og að það sé skylda samfélagsins að viðurkenna ofbeldið og að tryggja að við beitingu þess séu í gildi viðurlög.
Kvenréttindafélag Íslands er sammála þessu frumvarpi í grófum dráttum. Félagið fagnar því að stafrænt kynferðisofbeldi sé sett í XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot sem tryggir það að slík brot muni ávallt sæta rannsókn þegar grunur er um brot og ákæru þegar sönnunargögn teljast nægileg. Félagið fagnar því að hámarksrefsing vegna slíkra brota verði 6 ár, sem undirstrikar alvarleika þessara brota.
Kvenréttindafélag Íslands mælir þó með að þessi grein sé flutt undir 199. grein XXII. kafla almennu hegningarlaganna nr. 19/1940 um kynferðislega áreitni. Í frumvarpinu er þessi grein sett undir 210. grein laganna sem fjallar um birtingu og dreifingu á klámi. Kvenréttindafélag Íslands vill leggja áherslu að stafrænt kynferðisofbeldi er ofbeldi og telur að löggjöfin skuli skilgreina það sem slíkt. Bann við stafrænu kynferðisofbeldi væri betur sett undir 199. grein sem tilgreinir kynferðislega áreitni.
Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að ekki megi gera ólögmætar myndbirtingar sem sýni nekt einstaklinga, ef myndbirtingin er í almannahag. Þolendur kynferðislegrar áreitni og annarra kynferðisbrota eiga að geta deilt ljósmyndum til að styðja mál sitt. Ekki á t.d. að vera saknæmt að deila ljósmyndum af einstaklingi sem „flassar“ eða afhjúpar kynfæri sín á götu úti. Einnig ætti t.d. ekki að vera saknæmt þegar einstaklingur sem hefur verið áreittur með óumbeðnum ljósmyndum af kynfærum deilir þeim til sönnunar um að áreitið hafi átt sér stað.
Einnig viljum við hvetja stjórnvöld til að innleiða Evrópuráðssáttmálann um afnám ofbeldis gegn konum, hinn svokallaða Istanbúlsáttmála. Við minnum á að árið 2016 skilaði nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum tilmæli til íslenskra stjórnvalda um hvað betur má fara í jafnréttismálum hér á landi og gagnrýnir þar íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki innleitt Istanbúlsáttmálann og uppfylli þar með ekki alþjóðlega sáttmála og samninga (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 20). Tekur Kvenréttindafélag íslands undir þessa gagnrýni.