Miðvikudaginn 21. febrúar verður haldinn morgunverðarfundur á Grand hótel og hefst hann kl. 8.00. Til umræðu er kynbundið ofbeldi og aðgerðir gegn því með fulltrúum stjórnmálaflokkanna.

Örstutt erindi flytja Guðrún Jónsdóttir Stígamótum, Ása Ólafsdóttir lögfræðingur og Kristín Ástgeirsdóttir forstöðumaður RIKK. Á eftir verða pallborðsumræður með fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Fundarstjóri verður Guðrún Agnarsdóttir læknir.


Framundan eru kosningar til Alþingis. Hver er stefna stjórnmálaflokkanna hvað varðar kynbundið ofbeldi og aðgerðir gegn því? Á að samþykkja nýjan kafla um kynferðisofbeldi eins og hann liggur fyrir Alþingi en samkvæmt honum er kaup og sala á vændi löglegt? Hvað líður framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn kynferðisofbeldi? Hvað er hægt að gera til að bæta réttarkerfið? Hvernig á að bæta rannsókn kynferðisbrotamála þannig að þau skili sér inn í réttarkerfið? Hvernig má styrkja stöðu brotaþola enn betur? Á að hækka lágmarksrefsingar í kynferðisbrotamálum? Hvað um fyrirbyggjandi aðgerðir?

Ekki þarf að rifja upp hve miklar og skelfilegar upplýsingar hafa komið fram undanfarin ár um kynferðislegt ofbeldi, ekki síst gegn börnum. Hvar liggja ræturnar, hvar erum við stödd og hvernig á að bregðast við til að byrgja brunninn? Allt þetta verður til umræðu á fundinum sem er sá fyrsti í röð funda þar sem rætt verður við stjórnmálaflokkana um málefni sem snert jafnrétti kynjanna og öryggi kvenna og barna.

Morgunverðurinn kostar 1400 kr. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir

Að fundinum standa: Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgana, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við HÍ, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Stígamót og UNIFEM á Íslandi.

Aðrar fréttir