Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum (stafrænt kynferðisofbeldi), 15. mál. 149. löggjafarþing 2018–2019.
27. nóvember 2018
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að nú liggi fram frumvarp til laga um banni við stafrænu kynferðisofbeldi.
Þetta er í fjórða skipti sem að frumvarp liggur fyrir Alþingi til að banna stafrænt kynferðisofbeldi og ber þetta frumvarp merki þess hve mikið skilningur okkar á þessum glæp hefur aukist.
Kvenréttindafélag Íslands tekur undir orð flutningsmanna að framleiðsla, birting og dreifing slíks hljóð- og myndefnis sé ein tegund kynferðisofbeldis og að það sé samfélagsins að viðurkenna ofbeldið og að tryggja að við því séu viðurlög. Eins og og flutningsmenn benda á, þá getur stafrænt kynferðisofbeldi haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola, og er sérstaklega varhugavert í ljósi þess að ofbeldið fer fram fyrir opnum tjöldum og hefur þannig áhrif á samfélagslega stöðu brotaþola.
Við fögnum því að stafrænt kynferðisofbeldi sé sett í XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot sem tryggir að slík brot muni ávallt sæta rannsókn þegar grunur er um brot og ákæru þegar sönnunargögn teljast nægileg. Einnig fögnum við því að ákvæðið gegn stafrænu kynferðisofbeldi sé sett í nýja 196. grein, en ekki fellt undir 210. grein laganna sem fjallar um birtingu og dreifingu á klámi. Stafrænt kynferðisofbeldi er ekki klám heldur ofbeldi.
Við fögnum því að hámarksrefsing vegna slíkra brota verði 6 ár, sem undirstrikar alvarleika þessara brota. Einnig fögnum við því að frumvarpið kveði á um að refsing verði ekki dæmd ef tilgangur og markmið verknaðarins er réttlætanlegt með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að samþykkja þetta frumvarp til laga um bann við stafrænu kynferðisofbeldi.