Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þingskjal 558 – 417. mál, 149. löggjafarþing 2018–2019.
11. janúar 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessu frumvarpi sem kveður á um að stofnað verður til óháðs embættis samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem hefur það hlutverk að bæta umgjörð samtaka og félaga til að tryggja að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.
Einnig fagnar Kvenréttindafélag Íslands þeirri lagabreytingu sem hér er lagt til að óheimilt verði að ráða til starfa eða fá til sjálfboðaliðastarfa hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um kynferðisbrot; sem og fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 á síðustu fimm árum.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur til að þetta frumvarp verði styrkt og bætt verði við ákvæði um að fjárstuðningur til íþrótta- og æskulýðsstarfs verði skilyrt við að félög hafi gert jafnréttisáætlun og öryggisáætlun í starfi sínu, hafi mótað verkferla til að takast á við mál sem tengjast áreitni og ofbeldi innan síns starfs og vinni samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Kvenréttindafélag Íslands styður annars þetta frumvarp og hvetur til þess að það verði samþykkt.