Það eru aðeins tvö ár síðan #MeToo byltingin hófst, þegar fyrstu hópar kvenna sendu frá sér yfirlýsingar og sögur af áreitni og ofbeldi á vinnustað. 4,2% kvenna á Íslandi úr ýmsum starfstéttum skrifuðu undir áskoranir þar sem þær setu fram kröfur sínar um að fá að vakna, vinna, taka þátt í daglegu lífi og athöfnum og leggjast á koddann að kvöldi til algjörlega óáreittar.
Þessar sögur hafa gjörbylt allri umræðu í samfélaginu um áreitni og ofbeldi, en enn eigum við langt í land að skapa samfélag sem er öruggt fyrir okkur öll. Í rannsókninni Áfallasaga kvenna sem unnin er af Háskóla Íslands kemur í ljós að þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í námi eða starfi, þar af um 7% í núverandi starfsumhverfi.
Vissulega er freistandi að segja að uppreisnarbylgja eins og þessi kemur af sjálfri sér. En við vitum í dag að svo er ekki, áhrif samfélagsbyltinga verða aðeins varanleg þegar fólk tekur sig saman til að breyta heiminum og vinnur jafnt og þétt að breytingum til frambúðar. Konur á Íslandi hófu byltingu og það er okkar allra að fylgja henni eftir.
Við krefjumst þess að stjórnvöld, samtök atvinnulífsins og launafólks og fyrirtæki ráðist í alvöru breytingar til að tryggja öryggi kvenna og starfsfólks á vinnustað. Það er ekki nóg að senda út yfirlýsingar og vinna að stefnumótun meðal stjórnenda, við viljum sjá alvöru aðgerðir. Við viljum sjá tekið fast á áreitni og ofbeldi á vinnustað, í dómskerfinu og öllum sviðum samfélagsins. Umfram allt köllum við á róttæka hugarfarsbreytingu okkar allra, af því að ef hún á sér ekki stað duga aðgerðir vinnumarkaðarins lítið.
Í október í fyrra gengu tugþúsundir kvenna út af vinnustað og sóttu mótmælafundi út um allt land til að mótmæla kerfisbundnu kjaramisrétti kynjanna og ofbeldi og áreitni á vinnustað. Í yfirlýsingu kvennafrísins 2018 lýstu konur yfir hátt og snjallt að ofbeldi sem þetta líðst ekki lengur.
Konur á Íslandi skiluðu skömminni þangað sem hún á heima: til gerendanna, til atvinnurekenda, til stjórnvalda, til réttarkerfisins, til samfélagsins sem hefur látið ofbeldi og misrétti viðgangast um aldaraðir.
Nú er nóg komið! Við erum ekki búin að afgreiða #MeToo. Við krefjumst tafarlausra aðgerða stjórnvalda, atvinnurekenda og samtaka atvinnulífsins. Tökum höndum saman og sköpum saman samfélag sem byggist á jafnrétti, mannréttindum og virðingu fyrir okkur öllum. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!
Höfundur er formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi