Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lögum um tryggingagjald og lögum um ársreikninga (lækkun tryggingagjalds), þingskjal 40, 40. mál, 150. löggjafarþing


Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við þetta frumvarp, sem felur í sér breytingar á ýmsum lögum til að hvetja launagreiðendur til að stuðla að jafnrétti kynjanna í starfsemi sinni.

Í frumvarpinu eru lagðar fram breytingar á jafnréttislögum nr. 10/2008 og lögum um tryggingagjald nr. 113/1990 sem gefur launagreiðendum rétt á lækkun tryggingagjalds ef þeir uppfylla ýmis skilyrði í starfsemi sinni um jafnrétti kynjanna; sem og breytingar á lögum um ársreikninga nr. 3/2006 sem kveður á um að í skýrslu stjórnar opinberra hlutafélaga og hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal upplýsa um hlutföll kynjanna í stjórn, varastjórn, framkvæmdastjórn og annarra stjórnenda.

Telur stjórn Kvenréttindafélagsins umræddar breytingartillögur vera til bóta við núverandi ástand, sem jákvæð hvatning til fyrirtækja og stofnana að stuðla með virkum hætti að kynjajafnrétti í starfsemi sinni. 

Ekki síður er mikilvæg sú breyting sem óskað er eftir á lögum um ársreikninga, að stjórnir hlutafélaga skrái formlega á hverju ári í ársreikningum sínum kynjahlutföll í stjórnunarstöðum. Þessi skráning er ekki íþyngjandi fyrir starfsemi fyrirtækja og stofnana en þessar upplýsingar eru afar mikilvægar sem greiningartæki um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaðnum.

Aðrar fréttir