Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (umsáturseinelti). 151. löggjafarþing 2020–2021. Þingskjal 133, 132. mál.
3. nóvember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi og kveður á um að nýrri grein verði bætt við almenn hegningarlög nr. 19/1940 sem bannar umsáturseinelti.
Í Istanbúl-samningnum, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, sem Ísland fullgilti 2018 kemur fram sú skuldbinding að stjórnvöld skuli „gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að ásetningsverknaður, sem felst í ógnandi hegðun gagnvart öðrum einstaklingi og veldur ótta hjá honum um eigið öryggi, sé lýstur refsiverður.“
Við undirbúning að fullgildingu Istanbúl-samningsins var sérstöku ákvæði um umsáturseinelti ekki bætt inn í hegningarlögin, þar sem metið var að önnur ákvæði íslenskra laga tækju til þeirrar háttsemi. Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis árið 2016 kom þó fram það álit að nauðsynlegt væri að bæta inn sérstöku ákvæði, og vísaði nefndin í umsagnir sem höfðu borist til nefndarinnar „þar sem fram hefði komið að gildandi lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili hefðu ekki náð því markmiði að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og umsátureineltis, meðal annars vegna tregðu dómstóla til að staðfesta ákvarðanir lögreglustjóra um nálgunarbann í ákveðnum tilvikum eða vegna þess að sú löggjöf gengi ekki nægilega langt.“
Í grein sem birtist í Fréttablaðinu 2. september 2020 kemur fram að 65 konur sem leituðu til Kvennaathvarfsins í fyrra sögðust hafa orðið fyrir umsáturseinelti, eða 16 prósent af þeim sem leituðu til athvarfsins. Í greininni er rætt við Sigþrúði Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Kvennaathvarfsins sem segir: „Það þarf mikið að ganga á til að nálgunarbann sé veitt, sönnunarbyrðin er erfið og ekki tekið tillit til þess að þolandinn fái að ráða hverjir séu í lífi hans og hverjir ekki“.
Ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi er því miður glæpur sem enn er falinn í íslensku samfélagi. Sem dæmi má nefna að árið 2013 var gefin út skýrsla sem Edda öndvegissetur gaf út í samvinnu við innanríkisráðuneytið, þar sem Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fylgdu eftir málsmeðferð og afdrifum allra tilkynntra nauðgana á árunum 2008 og 2009 (Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð, 2013). Þar kom fram að á árunum 2008 og 2009 voru 189 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu, þar af var 88 málum vísað til ríkissaksóknara, 31 ákæra gefin út og 23 sakfellingardómar felldir. Þegar litið er á ársskýrslur Neyðarmóttöku Landspítala og Stígamóta, kemur fram að á sama tímabili leituðu 248 sér aðstoðar hjá Neyðarmóttökunni og á Stígamótum var leitað aðstoða vegna 463 nýrra mála. Tölur sem þessar benda til þess að þolendur kjósi margir hverjir að tilkynna kynferðisbrot ekki til lögreglu og þær benda einnig til þess að núgildandi löggjöf nái ekki utan um kynferðisbrot, þegar svo fáar tilkynningar leiða til sakfellidóms.
Nauðsynlegt er að löggjafinn setji skýr skilaboð um að ofbeldi gegn konum í öllum birtingarmyndum sé glæpsamlegt athæfi og gefi þar með lögreglu og dómskerfinu skýrari réttarheimild til að rannsaka, ákæra og dæma þessa glæpi. Kvenréttindafélag Íslands hvetur því Alþingi til að samþykkja þetta frumvarp sem bannar umsáturseinelti.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi í kjölfarið að halda áfram endurskoðun á almennu hegningarlögum nr. 19/1944 með það að markmiði að auka vernd kvenna og fólks gegn ofbeldi, þá sérstaklega með því að setja inn sérstakt ákvæði sem bannar rafrænt ofbeldi.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi ennfremur til þess að styðja starf lögreglu í hvívetna í rannsóknum á ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi sem og að tryggja endurmenntun aðila innan dómskerfisins, svo sem lögregluþjóna og dómara, til að glíma við þennan viðkvæma málaflokk.