Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þingskjal 26, 26. mál, 151. löggjafarþing 2020–2021.
19. nóvember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands var stofnað 27. janúar 1907 með það að markmiði að breyta stjórnarskrá Íslands, að berjast fyrir því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Kosningaréttinn fengu flestar konur 1915 og jöfnum kosningarétti kvenna og karla var náð 1920, en það var ekki fyrr en árið 1995 að jafnrétti var tryggt í stjórnarskránni.
Viðamiklar breytingar voru gerðar á stjórnarskránni árið 1995 og var það í fyrsta skipti sem konur tóku þátt í að skrifa stjórnarskrána. Þá var meðal annars sett inn ákvæði til að tryggja jafnrétti kynjanna og var þessu ákvæði bætt inn eftir sleitulausa baráttu Kvennalistakvenna á þingi að koma málinu á dagskrá.
Grein 65, jafnréttisákvæði gildandi stjórnarskrár, er nú orðin úrelt, enda hefur skilningur samfélagsins á jafnrétti þróast mikið síðasta aldarfjórðunginn. Greinin telur upp mismununarbreytur, upptalning sem langt í frá er tæmandi. Reyndar er erfitt að sjá að þess lags upptalning geti nokkurn tímann verið tæmandi, jafnrétti er svo víðtækt hugtak að ekki er hægt að smætta það niður í lista yfir tæmandi breytur. Að þessu sögðu, er mikilvægt að í stjórnarskrá sé jafnrétti áréttað með tilliti til þeirrar mismununar sem enn á sér stað í samfélagi okkar, en þá á sama tíma verðum við að skilja að stjórnarskráin er lifandi skjal, skjal sem Alþingi sé skylt að breyta eftir því sem skilningur okkar á jafnrétti þróast.
Löngu er orðið tímabært að breyta stjórnarskrá Íslands svo að jafnrétti og mannvirðing sé undirstaða stjórnskipunar lýðveldisins Íslands.
Einnig er löngu orðið tímabært að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands svo að hún tali til alls fólks. Í núgildandi stjórnarsrá, sem og í því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi, er ávallt vísað til fólks sem hér býr á Íslandi í karlkyni. “Allir” hér og “allir þar”. Það ætti að vera lágmarkskrafa að stjórnarskrá þjóðarinnar vísi til allra kynja og ræði um okkur “öll”.