Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi. Þingskjal 257, 239. mál, 151. löggjafarþing.
26. nóvember 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands styður þessa tillögu til þingsályktunar sem ályktar að fela heilbrigðisráðherra að tryggja það að einstaklingar, sem ekki mega gangast undir þungunarrof í sínu heimalandi vegna hindrana og ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
Bakslag er í kvenréttindum víða um heim. Ráðist er að kynfrelsi kvenna og sjálfsákvörðunarrétti þeirra yfir eigin líkama alltof víða, þar á meðal í nágrannaríkjum okkar í Evrópu. Réttur kvenna til þungunarrofs er verulega skertur í sex evrópskum ríkjum. Þungunarrof er óleyfilegt með öllu í Andorra, Möltu og San Marino, og verulega skertur í Liechtenstein, Mónakó og Póllandi, skv. skýrslu Center for Reproductive Rights sem fylgir þessari umsögn (Europe’s Abortion Laws: A Comparative Overview, 2019. Rafræn útgáfa. Útgáfa til útprentunar).
Kvenréttindi í íslensku samfélagi eru samofin kvenréttindum á alþjóðlegum vettvangi. Þegar kvenréttindi eru undir árás í í einu landi hefur það áhrif út fyrir landamærin, grefur undir kvenfrelsi alls staðar. Ísland er það land sem staða kvenna er metin sem best í heimi og jafnrétti kynjanna sem mest. Kvenréttindafélag Íslands telur að með þessari þingsályktunartillögu taki Alþingi stórt skref í að treysta kvenréttindi á evrópskum vettvangi, skref sem óhjákvæmilega treystir einnig kvenfrelsi hér á landi.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur á sama tíma Alþingi einnig til að íhuga hvort að sambærileg þjónusta gæti verið veitt konum sem koma hingað til lands utan Evrópu. Fyrr á þessu ári hafði kona samband við skrifstofu félagsins til að athuga með aðgengi að þungunarrofi. Heimaland hennar var í Suður-Ameríku, land þar sem þungunarrof er bannað með öllu, og þar sem hún var ferðamaður á Íslandi vildi hún athuga hvort hún gæti farið í þungunarrof hér á landi. Okkur þótti leitt að tilkynna henni að ekki væri greið leið að þeirri aðgerð þar sem hún væri ekki með íslenska sjúkratryggingu.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að samþykkja þessa þingsályktunartillögu til að auðvelda erlendum ríkisborgurum að fara í þungunarrof hér á landi og styðja kynfrelsi kvenna og sjálfsákvörðunarrétt þeirra yfir eigin líkama og þar með kvenréttindi á alþjóðavettvangi.