Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Þingskjal 416, 342. mál, 151. löggjafarþing.
8. febrúar 2021
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar framkomnu frumvarpi til laga um skattalega hvata fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla. Almannaheillasamtök gegna veigamiklu hlutverki í samfélagi okkar, stuðla að bættri stöðu borgaranna og efla lýðræðið. Þetta frumvarp er bragarbót í málefnum þriðja geirans og mun koma til með að styrkja stöðu þeirra og efla starfsemi þeirra okkur öllum í hag.
Kvenréttindafélag Íslands leggur þó til að það verði gert skýrt að samtök sem berjast fyrir réttindum fólks sem af ýmsum ástæðum er jaðarsett í samfélaginu falli undir þessa löggjöf.
Í málslið b. í fyrstu grein frumvarpsins er talin upp sú starfsemi sem telst til almannaheilla, en ekki er augljóst að þar falli undir félög sem berjast fyrir t.d. réttindum kvenna, hinsegin fólks, fatlaðs fólks, innflytjenda og fleiri. Leggur Kvenréttindafélag Íslands til að við þessa upptalningu verði bætt við „starfsemi í þágu jafnréttis“.