Í byrjun árs fór Jafnréttisstofa ásamt forsætisráðuneytinu og Kvenréttindafélagi Íslands af stað með #játak þar sem stjórnmálaflokkar voru hvattir til að huga að fjölbreytileika við uppstillingar á lista og við prófkjör fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fara fram næstu helgi. Það er nefnilega mikilvægt að fjölbreyttar raddir komi að allri ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstigi.
Konum hefur fjölgað jafnt og þétt sem kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum og eftir síðustu kosningar árið 2018 voru konur 47% fulltrúa. Vert er að taka fram að það er mjög flottur árangur en honum má alls ekki taka sem sjálfsögðum hlut og það er mikilvægt að viðhalda honum og reyna að koma í veg fyrir bakslag líkt og gerðist í Alþingiskosningunum 2017, þegar hlutfall kvenna á Alþingi fór úr 47% í 38%.
Það er þó ekki nóg að horfa bara á kyn í þessu samhengi því samfélagið er ekki einskyns heldur allskyns og því þurfum við að huga að fjölbreytileika í víðari skilningi, má þar nefna erlendan uppruna, fötlun, kynhneigð, kynvitund, aldur og fleira. Við viljum að sveitarstjórnir endurspegli fjölbreytileika samfélagsins því þannig náum við mestum árangri og tryggjum að hagsmunir allra íbúa séu hafðir að leiðarljósi.
Við þurfum á því að halda að sem flest kyn á fjölbreyttum aldri og með allskyns uppruna og bakgrunn sameinist um að móta samfélag okkar.
Kjósum jafnrétti – kjósum fjölbreytni!
#Játak er hluti af byggðaáætlun stjórnvalda og var unnið í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands, Fjölmenningarsetur, Samband íslenskra sveitarfélaga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Þessi grein birtist fyrst á síðu Jafnréttisstofu
Höfundur: Anna Lilja Björnsdóttir