Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér umsögn um um frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands. Forsætisráðuneytið, mál nr. 110/2023.
21. júlí 2023
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar frumvarpi til laga um stofnun Mannréttindastofnunar Íslands sem setur á laggirnar sjálfstæða og óháða innlenda mannréttindastofnun til að uppfylla viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir eða svokölluð Parísarviðmið.
Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) er aðildarfélag Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) sem hefur um áraraðir sinnt helstu verkefnum innlendrar mannréttindastofnunar. Frá stofnun MRSÍ árið 1994 hefur það verið yfirlýst markmið aðildarfélaga hennar að skrifstofan fái stöðu innlendrar, sjálfstæðrar mannréttindastofnunar.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að reynsla, þekking, tengslanet og starfsemi MRSÍ verði nýtt við stofnun nýrrar innlendrar mannréttindastofnunar.
Kvenréttindafélag Íslands óttast að fjárhagslegt sjálfstæði nýrrar mannréttindastofnunar sé ekki tryggt í þessu frumvarpi.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að til stofnunarinnar muni renna þær 39 milljónir sem nú fara til MRSÍ ásamt útgjaldaaukningu upp á 43,9 milljónir og mögulegri tímabundinni fjárveitingu upp á 9 milljónir til stofnkostnaðar sem er þá sú heildarfjárveiting sem stjórnvöld leggja til. Erfitt er að sjá að slík fjárveiting dugi til að halda uppi sterkri, óháðri og sjálfstæðri mannréttindastofnun. Í frumvarpinu er lagt til að réttindagæslumenn fatlaðs fólks flytjist til stofnunarinnar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu en í greinargerðinni er ekki hægt að sjá að lagt sé til að þeir fjármunir sem staðið hafa undir rekstri réttindagæslumanna fatlaðs fólks muni flytjast til stofnunarinnar samhliða verkefninu.
Mannréttindastofnun Íslands skal tryggja, gæta og fara með eftirlit með að mannréttindi séu virt og nái fram að ganga á Íslandi og hún þarf að búa yfir mannauði með fjölþætta reynslu og sérþekkingu á víðu sviði málaflokks mannréttinda ólíkra hópa. Án fullnægjandi fjármögnunar mun Mannréttindastofnun Íslands hvorki geta staðið fyrir hlutverki sínu né sinnt grunnverkefnum.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að Mannréttindastofnun Íslands sé tryggt nægt fjármagn til þess að hún geti á raunverulegan og skilvirkan hátt sinnt hlutverki sínu og verkefnum.
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að Mannréttindastofnun Íslands eigi víðtækt samráð við hagsmunasamtök í samfélaginu, þá sér í lagi að stofnuð verði ráðgjafarnefnd þar sem sæti eiga fulltrúar almannaheillafélaga sem vinna að mannréttindamálum á Íslandi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé ætluð greiðsla fyrir setu í ráðgjafarnefnd Mannréttindastofnunar Íslands, og telur félagið það fyrirkomulag ekki vera boðlegt. Félagasamtök sem starfa að mannréttindamálum hafa lítið bolmagn til að fjármagna starf fulltrúa á opinberum vettvangi. Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að stjórnvöld greiði fyrir alla vinnu og sérþekkingu fulltrúa frjálsra félagasamtaka sem þau kunna að veita.
Kvenréttindafélag Íslands leggur ríka áherslu á að stjórnvöld greiði fyrir fundarsetu í ráðgjafarnefnd Mannréttindastofnunar Íslands.
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að Mannréttindastofnun Íslands skuli hafa eftirlit með framkvæmd mannréttindasamninga sem íslenska ríkið er aðili að þar á meðal með samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, hins svokallaða Kvennasáttmála (CEDAW). KRFÍ hefur undanfarin ár í sameiningu með öðrum grasrótarsamtökum skilað skuggaskýrslu til nefndar sem starfar á grundvelli CEDAW. Mikilvægt er að innan stofnunarinnar starfi fólk sem hafi sérþekkingu á kvenréttindum og jafnrétti kynjanna til að sinna þessu eftirliti.
Ísland undirritaði Kvennasáttmálann á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn árið 1980 og var hann fullgiltur af Alþingi 1985 eftir mikinn þrýsting frá femínísku hreyfingunni. Samningurinn hefur þó ekki enn verið innleiddur í íslensk lög. Í dag eru 189 ríki aðilar að sáttmálanum og er Ísland því orðið eftirbátur þegar kemur að innleiðingu sjálfsagðra réttinda kvenna. Kvenréttindafélag Íslands leggur því ríka áherslu á að íslensk stjórnvöld innleiði Kvennasáttmálann tafarlaust í íslensk lög.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að tryggja að innan Mannréttindastofnunar Íslands sé sérþekking á kvenréttindum og jafnrétti kynjanna.
Kvenréttindafélag Íslands leggur ríka áherslu á að stjórnvöld innleiði Samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) tafarlaust.
Eins og að ofan hefur verið ritað þá fagnar Kvenréttindafélag Íslands frumvarpi til laga um stofnun Mannréttindastofnunar Íslands og að skipa fulltrúa í ráðgjafarnefnd stofnunarinnar þegar að því kemur.