Starfshópur hefur starfað í velferðarráðuneytinu í vetur og unnið drög að frumvarpi um staðgöngumæðrun (lesið drögin hér).
Þessi drög voru gerð opinber til umsagnar 18. nóvember 2014, og mun starfshópur taka tillit til þeirra athugasemda sem berast áður en frumvarpið verður afhent ráðherra til afgreiðslu á alþingi.
Kvenréttindafélag Íslands skilaði eftirfarandi umsögn um drög að frumvarpinu 2. desember 2014:
Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um drög að frumvarpi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, sem til stendur að leggja fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015
Kvenréttindafélag Íslands skilaði inn umsögn þann 8. febrúar 2011 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun, þskj. 376 – 310. mál. Þar ályktaði Kvenréttindafélagið að lagafrumvarpið væri ótímabært, að umræða í samfélaginu væri enn á frumstigi, og að veigamikil siðferðisleg rök væru gegn því að heimila staðgöngumæðrun, hvort sem er í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni.
Erfiðar siðferðislegar spurningar vakna í umræðunni um staðgöngumæðrun og siðfræðingar eins og Sólveig Anna Bóasdóttir hafa bent á að rétti kvenna yfir eigin líkama sé stefnt í hættu þegar staðgöngumæðrun sé fest í lög. Ástríður Stefánsdóttir læknir og siðfræðingur tekur í sama streng, og hefur einnig minnt á það að staðgöngumæðrun hafi tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem hún er heimiluð. Ástríður hefur einnig minnt á að Ísland hefur um áratuga skeið verið í samfloti með Norðurlöndum í flestum veigamiklum málefnum og að ekkert Norðurlandanna hefur séð ástæðu til þess að heimila staðgöngumæðrun, og í Finnlandi sé staðgöngumæðrun beinlínis bönnuð.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur að staðgöngumæðrun ætti ekki að lögfesta hér á landi. Umræðan um staðgöngumæðrun snýst að talsverðu leyti um réttindi fólks til að verða foreldri. Stjórn Kvenréttindafélagsins lítur á það sem forréttindi að eignast börn en ekki mannréttindi. Hvetur Kvenréttindafélagið til þess að stjórnsýslan beiti sér fyrir því að ættleiðingaferlið hér á landi verði gert mun skilvirkara en nú er, gert gagnsætt og einfaldað; að frumættleiðingar verði aðgengilegur valkostur fyrir fólk sem vill verða foreldrar.
Að þessu sögðu, þá skilum við hér með athugasemdum við frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni (heildarlög), sem til stendur að leggja fyrir Alþingi á 144. Löggjafarþingi 2014–2015.
7. grein: Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
Í 7. grein er gert ráð fyrir að nefnd skipuð af ráðherra skuli veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og að þessi nefnd skal skipuð til þriggja ára í senn.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands veltir fyrir sér hvort einhver tímatakmörk séu sett á setu einstaklinga í nefndinni. Getur sami einstaklingur setið í nefndinni í mörg ár eða áratugi?
Einnig veltir stjórn Kvenréttindafélagsins fyrir sér hvernig fjrármagna á störf nefndarinnar.
8. grein: Skilyrði er varða staðgöngumóður og maka hennar
Í c. lið 8. greinar er fjallað um tengsl staðgöngumóður og maka hennar við verðandi foreldra. Lagt er til að staðgöngumóðir og maki hennar megi ekki vera systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggur til að þessi grein verði víkkuð út svo að skyldleiki í beinan legg megi ekki vera milli staðgöngumóður og maka hennar við báða verðandi foreldra.
Stjórn Kvenréttindafélagsins hefur áhyggjur af því að fjölskylduþrýstingur geti haft áhrif á ákvörðun kvenna um að ganga með börn fyrir aðra, og gildir þá einu hvort að skyldleiki sé á milli staðgöngumóður og kynfrumugjafa eða við maka kynfrumgjafa.
Einnig hefur stjórn Kvenréttindafélagsins áhyggjur af því að fjölskyldutengsl, hvort sem er skyldleiki við kynfrumugjafa eða maka kynfrumugjafa, geti haft óeðlileg áhrif á ákvörðun staðgöngumóður eftir fæðingu, hvort hún vilji gefa frá sér barnið eður ei.
Stjórn Kvenréttindafélagsins bendir á að þau stundum flóknu bönd sem tengja fjölskyldur saman verða enn flóknari þegar staðgöngumæðrun á sér stað innan fjölskyldunnar, og gildir þá einu hvort að staðgöngumóðir sé skyld kynfrumugjafa eða maka kynfrumugjafa.
Í e. lið 8. greinar er gert ráð fyrir að staðgöngumóðir eigi að baki fæðingu a.m.k. eins fullburða barns eftir eðlilega meðgöngu.
Stjórn Kvenréttindafélagsins leggur til að þessari grein verði breytt svo að staðgöngumóður eigi að baki fæðingu a.m.k. eins fullburða barns „eftir eðlilega meðgöngu og eðlilega fæðingu.“
Í g. lið og h. lið 8. greinar er gert ráð fyrir að a.m.k. tvö ár hafi liðið frá fæðingu barns staðgöngumóður og að ef staðgöngumóðir hafi misst barn séu a.m.k. tvö ár liðin frá andláti barnsins.
Stjórn Kvenréttindafélagsins veltir fyrir sér hvort að skýra þurfi viðmið þessarar tímasetningar. Er átt við tvö ár áður en umsókn er lögð fram um staðgöngumæðrun til nefndar um staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni? Eða tvö ár áður en staðgöngumóðir gengur undir glasafrjóvgun fyrir verðandi foreldra? Eða tvö ár áður en staðgöngumóðir fæðir skipulagt barn? Stjórn Kvenréttindafélagsins álítur að tímaviðmiðið eigi að vera tvö ár hið minnsta frá fæðingu og andláti barns þar til umsókn er lögð fram um staðgöngumæðrun.
9. grein: Skilyrði er varða væntanlega foreldra
Í 9. grein er gert ráð fyrir að einhleypir geti fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef „sérstaklega stendur á“.
Stjórn Kvenréttindafélags þykir þessi grein afar óljóst orðuð og veltir fyrir sér hvort hægt sé að skilgreina betur hvenær einhleypir geta fengið leyfi til staðgöngumæðrunar og hvenær ekki.
Einnig veltir stjórn Kvenréttindafélagsins fyrir sér hvort sömu tímatakmörk eigi að gilda um hversu lengi verðandi foreldri þarf að hafa verið einhleypt og þau sem gilda um hve lengi verðandi foreldrar hafi verið í hjúskap. Í greininni eru sett skilyrði þess að verðandi foreldrar skuli hafa búið saman í a.m.k. þrjú ár til að mega sækja um að kona gangi með barn fyrir þau. Engin slík tímatakmörk eru sett á einstaklinga, og gæti t.d. leitt til þess að par komist undan þriggja ára reglunni með því að sækja um sem einstaklingar.
13. grein: Ráðgjöf
Í 13. grein er gert ráð fyrir því að nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skuli sjá til þess að umsækjendur fái víðtæka ráðgjöf og upplýsingar um þau læknisfræðilegu, lögfræðilegu, siðferðilegu, félagslegu og önnur áhrif sem staðgöngumæðrun kann að hafa.
Stjórn Kvenréttindafélagsins telur að lögin þurfi að kveða á um hver greiði fyrir þessa ráðgjöf. Er það nefndin sjálf, sjúkratryggingar, verðandi foreldrar, eða staðgöngumóðirin?
Stjórn Kvenréttindafélagsins leggur áherslu á að hugsað verði fyrir fjármögnun þessarar ráðgjafar, og að ráðgjöf eigi sér stað á öllum stigum málsins.
Einnig leggur stjórn Kvenréttindafélagsins þunga áherslu á að verðandi foreldrar og staðgöngumóðir njóti ekki ráðgjafar á sama tíma og hjá sama aðila. Staðgöngumóðir og verðandi foreldrar skulu hafa eigin ráðgjafa sem bera hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti. Þetta verður að mati stjórnar Kvenréttindafélagsins að vera skýrt í lögunum.
16. grein: Gagnkvæm viljayfirlýsing
Í 16. grein er talað um gagnkvæma viljayfirlýsingu milli staðgöngumóður og verðandi foreldra um „samskipti eftir afhendingu barns“.
Kvenréttindafélag Íslands mótmælir því að rætt sé um „afhendingu barns“ og finnst það orðalag afar óviðeigandi. Á kynningarfundi um frumvarpið kom formaður starfshóps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni með uppástungu til að nota í staðinn, „að afsala sér barninu“.
Einnig veltir Kvenréttindafélagið fyrir sér hvort nefndin og/eða skipaðir ráðgjafar muni aðstoða viðkomandi aðila við að semja og skrifa undir viljayfirlýsinguna. Félagið óttast að þrýstingur fjölskyldunnar geti haft óeðlileg áhrif á verðandi staðgöngumóður og telur eðlilegt að henni verði útvegaður lagalegur ráðgjafi að kostnaðarlausu til að styðja hana í gegnum þetta ferli. Lögin yrðu þá að kveða á um hvaðan fjármagn til þeirrar ráðgjafar kæmi.
17. grein: Heimild til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni
Kvenréttindafélagið benti á í umsögn sinni dagsettri 11. febrúar 2011 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun þskj. 376 – 310. mál á umfjöllun Ástríðar Stefánsdóttur læknis og siðfræðings um staðgöngumæðrun. Ástríður skrifaði grein í Fréttablaðið 29. janúar 2011 þar sem hún bendir á að staðgöngumæðrun hafi tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem hún hefur verið heimiluð.
Konur eru ekki markaðsvara, og meðganga er ekki þjónusta.
Erfitt er að sjá hvernig hægt er að koma í veg fyrir markaðsvæðingu staðgöngumæðrunar ef hún verður lögfest hér á landi í velgjörðarskyni. Þetta er ein ástæða þess að stjórn Kvenréttindafélags Íslands leggst gegn lögfestingu staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.
Að þessu sögðu, ef staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður lögfest, stjórn Kvenréttindafélagsins það afar mikilvægt að ströng skilyrði verði um fjárhagsleg tengsl milli móður og verðandi foreldra.
Að sama mati stjórnar Kvenréttindafélags Íslands er sjálfgefið að verðandi foreldrar greiði fyrir nauðsynlegan kostnað en veltir fyrir sér hver mun meta þennan kostnað og einnig hvaða kostnað má skilgreina sem eðlilegan kostnað.
Stjórn Kvenréttindafélagsins telur að enginn möguleiki sé í raun á að koma í veg fyrir að fólk greiði staðgöngumóður fyrir meðgönguna. Því hefur stjórnin þungar áhyggjur af að í því frumvarpi sem stendur til að leggja fyrir Alþingi séu engin ákvæði um hver skuli fylgjast með greiðslum milli verðandi foreldra og staðgöngumóður. Er það lögreglan? Landlæknir? Velferðarráðuneytið? Einhver bókhaldsskrifstofa?
Stjórn Kvenréttindafélagsins bendir á að erfitt er að fylgjast með því að greiðslur fyrir meðgöngu eigi sér ekki stað, því að þóknun getur verið í ýmsu formi, svo sem í formi peningagreiðslna, gjafa, fjárhagslegrar aðstoðar, aðstoðar til náms, aðstoðar til ferðalaga, aðstoðar í formi starfsframlags, o.s.frv.
Kvenréttindafélagið telur nauðsynlegt að hafa skýr ákvæði í lögunum um að ef upp komist um slíkar greiðslur teljist það refsivert og teljum að viðurlögum við brotum á þessari grein skuli bætt inn í 33. grein sem varða refsingar.
33. grein: Refsingar
Í 33. grein er gert ráð fyrir sektum að lágmarki 500.000 kr. eða fangelsi allt að þremur árum við ýmsum brotum á lögum um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því sérstaklega að viðurlög eru við því að fólk kaupi sér líkama kvenna t.d. í svokölluðum „baby factories“ í þróunarlöndum, og einnig að viðurlög eru við staðgöngumæðrun án leyfis nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni, við banni um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, og við bann við auglýsingu um staðgöngumæðrun.
Stjórn Kvenréttindafélagsins veltir þó fyrir sér hvort að nauðsynlegt sé einnig að telja refsivert ef ætlaðir kjörforeldrar þvinga aðra til að ganga með börn fyrir sig.
Einnig veltir stjórn Kvenréttindafélagsins fyrir sér hvort að telja ætti refsivert ef verðandi foreldrar neita að taka við barninu þegar það er fætt.
Að lokum telur stjórn Kvenréttindafélags Íslands nauðsynlegt að setja skýrt í lögin að það sé refsifert athæfi að greiða staðgöngumóður umfram það sem eðlilegt getur talist vegna meðgöngu, og hvetur til þess að viðurlögum við brotum á 17. grein skuli bætt inn í 33. grein sem varða refsingar.
39. grein: Breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands veltir fyrir sér hvaða breytingar verði gerðar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof til að tryggja rétt staðgöngumóður og maka hennar að fæðingarorlofi.
Stjórn Kvenréttindafélagsins telur mikilvægt að maka staðgöngumóður sé tryggt foreldraorlof ásamt staðgöngumóður.
Comments are closed.