Jafnréttissjóður og Jafnréttisráð efna til sameiginlegrar athafnar föstudaginn 24. október nk. kl. 15 í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, þar sem veittir verða fimm styrkir til rannsókna á sviði jafnréttismála og jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs verður afhent. Við sama tækifæri verða rannsóknarniðurstöður fimm styrkþega ársins 2007 kynntar.
Árið 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, sem ætlað er að veita fé til rannsókna á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Markmiðið með stofnun sjóðsins er að tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði en slíkar rannsóknir geta verið lykill að bættri stöðu kvenna og karla og flýtt fyrir framgangi jafnréttis. Sérstaklega er horft til þátttöku ungra vísindamanna í þessum rannsóknarverkefnum. Sjóðurinn starfar samkvæmt reglum nr. 513/2006. Að þessu sinni bárust 10 umsóknir. Í ár hljóta fimm verkefni styrk samtals að upphæð níu milljónum króna.
Að dagskrá Jafnréttissjóðs lokinni mun afhending á jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs fara fram.