Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, flutti eftirfarandi ávarp að lokinni sögugöngu um Þingholtin þar sem Auður Styrkársdóttir fræddi þátttakendur um kvennaslóðir Reykjavíkur.
Kvenréttindafélag Íslands er eitt elsta félag landsins, stofnað fyrir liðlega 107 árum. 107 ár.
Það var Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem átti frumkvæðið að því að stofna félagið og hún var einnig fyrsti formaður þess. Bríet hafði kynnst erlendum kvenréttindakonum og stofnaði félagið að erlendri fyrirmynd.
Nokkrar konur komu saman á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Þingholtsstræti 18 þann 27. janúar 1907 til þess að stofna félag sem beitti sér fyrir því að íslenskar konur nytu sömu réttinda og karlar.
Í fyrstu lögum félagsins segir að markmið þess sé „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir.“
Þessi grundvallarréttindi brunnu á konunum sem stofnuðu Kvenréttindafélagið og einhvern veginn finnst mér líklegt þær hafi talið að með því að tryggja í lagasetningu að konur hefðu sömu réttindi og karlar þá væri björninn unninn og jafnrétti náð.
Við vitum hins vegar nú að jafnrétti náðist ekki með kosningarétti og kjörgengi einu saman. Það reyndist ekki nóg að koma í veg fyrir að í lögum væri kveðið á um misrétti milli kynja. Það þurfti að ganga lengra og banna með lögum að mismuna eftir kyni; lög um launajafnrétti er dæmi um það. Síðan hefur verið gengið enn lengra í lagasetningu sem á að stuðla að auknu jafnrétti svo sem með lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.
Fyrir öllum þessum áföngum hafa konur barist, Kvenréttindafélagið og aðrar kvennahreyfingar og þrátt fyrir fjöldamarga sigra og góða stöðu Íslands samanborið við önnur lönd er björninn ekki unninn. Það er meira að segja allnokkuð í land.
Glerþökin, -veggirnir og –hnullungarnir þvælast alls staðar fyrir; hefðirnar, menningin, valdakerfið sem byggir á gömlum merg og er stundum kallað feðraveldið en mætti líka kalla frænda- og bekkjarbræðraveldið.
Og hvað er til ráða? Bara að halda áfram og nú verðum við að virkja karlana. Þetta er ekki stríð milli kynja og á alls ekki að vera það. Við verðum að sýna körlum fram á og sannfæra um að við erum að berjast fyrir betri heimi okkur öllum til handa, konum og körlum, drengjum og stúlkum. Við verðum að berjast saman.