Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal (1863-1887)

Í ársriti Kvenréttindafélags Íslands 19. júní 1999 birtist grein eftir Þór Jakobsson um Sigurð Jónasson, þýðanda Kúgun kvenna eftir John Stuart Mill. Greinin var skrifuð í kjölfar endurútgáfu Hins íslenska bókmenntafélags á þessu grundvallarriti vestrænnar kvenréttindabaráttu (smellið hér til að lesa netútgáfu á þýðingu Sigurðar á Kúgun kvenna). Sumarið 2015 verður afhjúpaður minnisvarði um Sigurð í heimasveit hans, Austur-Húnavatnssýslu, og að því tilefni er greinin endurprentuð hér á vefsíðu Kvenréttindafélags Íslands.

 

Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum og „Kúgun kvenna“

Fréttabréf KRFÍ leiddi Þór Jakobsson á slóð Sigurðar Jónassonar frá Eyjólfsstöðum, þýðanda hins merka rits „Kúgun kvenna“ eftir enska heimspekinginn og stjórnmálafræðinginn John Stuart Mill. Bókin var endurútgefin af Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1997.

Í margra binda alfræðiorðabók á heimili mínu er sögu kvenfrelsisbaráttu lýst í alllangri ritgerð með upptalningu á framförum og sigrum skref fyrir skref allt frá upphafi hugmynda og tilrauna til umbóta í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar fyrir rúmum 200 árum. Lýsingin er slétt og felld og engu er líkara en átt hafi sér stað átakalaus þróun sem allir mættu vel við una. Það hefur greinilega ekki verið rými í ritinu til að orðlengja um skakkaföll og afturkippi í langri réttindabaráttu. En fátt er öflugra í baráttu gegn rótgrónu óréttlæti en þekkja söguna og halda á lofti minningu genginna brautryðjenda sem lítinn sáu árangur erfiðis síns, sumir hverjir.

Kúgun kvenna

Brot úr fundargerðabók Hins íslenzka kvenfélags, 22. febrúar 1900. Fröken Ólafía Jóhannsdóttir stingur upp á því að félagið gefi út bókina "Frelsi kvenna". Frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir leggur til að bókin komi út í einu lagi. Samþykkt einróma. Fundargerð rita Þorbjörg Sveinsdóttir og Ingibjörg Bjarnason. Þvílíkur hópur kjarnakvenna (!). Lesið fundargerðir Hins íslenska kvenfélags á handrit.is (Lbs 971 fol.)

Brot úr fundargerðabók Hins íslenzka kvenfélags, 22. febrúar 1900. Fröken Ólafía Jóhannsdóttir stingur upp á því að félagið gefi út bókina „Frelsi kvenna“. Frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir leggur til að bókin komi út í einu lagi. Samþykkt einróma. Fundargerð rita Þorbjörg Sveinsdóttir og Ingibjörg Bjarnason. Þvílíkur hópur kjarnakvenna (!). Handrit.is, lbs 971 fol.

Á vordögum 1995 skoruðu nemendur og kennarar í kvennafélagsfræði við Háskóla Íslands á Hið íslenzka bókmenntafélag að gefa út á ný fræga bók, sígilda, „Kúgun kvenna“, eftir enska heimspekinginn og stjórnmálafræðinginn John Stuart Mill. Hið íslenzka kvenfélag gaf þessa bók út í aldarlok árið 1900. Bókmenntafélagið varð við hinni hrósverðu áskorun og kom bókin út í lærdómslistaflokki félagsins árið 1997. Jafnframt voru í sama riti birtir tveir fyrirlestrar, „Um frelsi og menntun kvenna, sögulegur fyrirlestur“ eftir Pál Briem og „Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna“ eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Fyrirlestur Páls kom fyrst út árið 1885, en Bríetar árið 1888. Í upphafi endurútgáfu þessarar er fróðlegt og greinargott forspjall um sögu kvennabaráttu eftir dr. Auði Styrkársdóttur. Hún kveður ritgerðirnar þrjár höfuðrit kvenréttindabaráttu 19. aldar á Íslandi.

Í bókarkynningu í fyrsta fréttabréfi Kvenréttindafélags Íslands árið 1998 segir m.a. um bók Johns Stuarts Mill: Mill segist einkum leitast við að sýna fram á tvennt í riti sínu. Annars vegar að þau rök sem notuð eru gegn réttindum kvenna séu haldlaus. Hins vegar að aukið frelsi kvenna og þátttaka þeirra í starfsemi samfélagsins myndi bæta almannahag. Í samræmi við þessi markmið rökræðir hann og hrekur helstu viðteknu hugmyndir gegn kvenfrelsi.

En hver þýddi þá hið stórmerka rit á íslensku? Í fréttatilkynningunni er sagt að dönsk þýðing Georgs Brandes hafi verið í umferð á Íslandi og íslenski þýðandinn, Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, hafi stuðst við hana. Hef ég þá komið mér að efninu.

Sigurður Jónasson

Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal (1863-1887)

Sigurður Jónasson (1863-1887)

Það vakti á samri stundu furðu mína og forvitni að sjá getið þýðandans frá Eyjólfsstöðum í þessu fréttabréfi KRFÍ sem borist hafði Jóhönnu konu minni. Faðir hennar, Jóhannes Nordal Þorsteinsson, sem lést 32 ára, var frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal,, og þar bjuggu foreldrar hans, Margrét Jónasdóttir og Þorsteinn Konráðsson, og á undan þeim amma hans og afi, Jónas Guðmundsson og Steinunn Steinsdóttir. Sigurður í fréttatilkynningunni var því í raun enginn annar en Sigurður Jónasson (1863 – 1887), bróðir Margrétar Jónasdóttur, en hann hafði látist ungur maður, enn við nám í málvísindum við háskólann í Kaupmannahöfn.

Hófst nú dálítil tómstundaleit sem skammt er á veg komin, þótt ég hafi orðið margs vísari. Rangt föðurnafn hefur loðað við Sigurð Jónasson í seinni tíma ritum þar sem hans er getið, hann sagður Jónsson. Þá virðast þeir sem geta um útgáfuna, árið 1900, hvorki átta sig á að 13 ár eru liðin frá láti þýðanda né því að þýðandi sé allærður maður í Kaupmannahöfn, í málvísindanámi, með þýsku sem aðalgrein, latínumaður og vísast hefur Sigurður kunnað ensku, móðurmál Mills. Og hvergi er farið viðurkenningarorðum um verkið, andlegt afrek ungs manns. Þegar Sigurður er fyrir borð úti fyrir Vestmannaeyjum og drukknar á leið út til að halda áfram námi sínu í Kaupmannahöfn er hann 23 ára.

Tvö núlifandi börn Margrétar Jónasdóttur, Hannes Þorsteinsson og Kristín Þorsteinsdóttir, reyndust vita um útgáfuna 1900 og eiga bókina. Einhverra hluta vegna var þýðanda ekki getið. Getur það hafa valdið óvissu síðar, og föðurnafnsvillunni. Stefán Stefánsson kennari, síðar skólastjóri, á Möðruvöllum, sem var samstúdent Sigurðar Jónassonar, útvegaði Hinu íslenzka kvenfélagi handritið. Við undirbúning hinnar nýju útgáfu lagfærði Kristján B. Jónasson orðalag á stöku stað, breytti stafsetningu í nútímahorf og fækkaði kommum.

Í Íslenzkum æviskrám Páls Eggerts Ólasonar er greint frá Sigurði svo sem hér segir: „Sigurður Jónasson (8. december 1863 – 7. ágúst 1887). Stúdent. Foreldrar: Jónas Guðmundsson á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal og kona hans Steinunn Steinsdóttir Guðmundssonar frá Þingeyrum. Tekinn í Reykjavíkurskóla 1878, stúdent 1884, með 1. eink. (95 st.). Stundaði málfræðinám í háskólanum í Kaupmannahöfn, efnilegur maður. Drukknaði ókvæntur og barnlaus.“

Í Kaupmannahöfn

Í fjörlegu bréfi frá Kaupmannahöfn til kunningja heima á Íslandi lýsir Sigurður lífi stúdenta í starfi og leik, misgóðum kennurum,, námsefni, aðstæðum á stúdentagarði, leikhúsum bæjarins og tónlistarlífi. Hann telur upp leikrit sem hann hefur séð: „Það kemur kalt vatn um mann þegar Ibsen-stykki eru leikin t.d. Gengangere og það nýja: Vildanden, sem er verst af því öllu.“ Honum er tíðrætt um tónleika: „Operur hef ég líka sjeð t.d. Don Juan eptir Mozart. Titilrulluna leikur Lange, frægur operusöngvari við Konungl. leikhúsið. Hann syngur óviðjafnanlega, enda er hann svenskur. Maður er „exalteraður“ þegar maður gengur heim á kvöldin, eptir að hafa sjeð svoleiðis og heyrt slíkan söng.“ Hann lætur í ljós velþóknun á þátttöku stúlkna í námi og íþróttum.

Og ekki gleymir hann að stríða vini sínum norður í Skagafirði með nákvæmri skýrslu um bjórverð og segir með tilhlökkun frá undirbúningi 200 manna útiveislu í háskólanum. Hann lýkur bréfinu í galsa líkt og hann byrjaði, klykkir út: „Skrifaðu aptur og sýndu engum, ekki einum einasta brjefið. Heilsaðu þeim kunningjum frá mér sem þú þekkir og þjer sýnist í Vatnsdalnum. Lifðu svo sjálfur eins og blóm í eggi. Tuus ad urnam. Sigurður Jónasson.“

Í dagbók sem Jónas Guðmundsson á Eyjólfsstöðum hélt um áratugi greinir hann frá ferð þeirra feðga suður síðla sumars árið 1887. Þeir gista í Borgarfirði en í Reykjavík stígur Sigurður á skipsfjöl dag einn í ágúst snemma. Seinna í mánuðinum bætist við orðknappa greinargerð um veður og búskap í dagbók bóndans á Eyjólfsstöðum: „Fréttist lát Sigurðar míns, drukknaði af skipi við Vestmannaeyjar.“ Meðal heimafólks á Eyjólfsstöðum voru auk þeirra hjóna, Jónasar og Steinunnar, átta ára gömul dóttir þeirra, Margrét, og fóstursonur þeirra, um það bil árs gamall, Sigurður Jóhannesson Nordal, bróðursonur Jónasar. Löngu seinna skrifar Sigurður Nordal í fallegri minningargrein um fóstru sína og sorgina á heimilinu: „…með Sigurði var sólin gengin til viðar. Eftir var ekki nema aftanskin. En sárið greri yfir dótturinni, …“ og sárabót hefur hann sjálfur verið og huggun harmi gegn.

Eyjólfsstaðir í Vatnsdal

Hér verður látið staðar numið. Sigurður sjórekinn vitjar í draumi skólabróður síns, Einars Benediktssonar, en þeirri martröð lýsir verðandi skáld í ljóði er nefnist „Draumur“. Vísast er hann harmdauði skólabræðrum í Höfn, svo sem afa mínum Jóni Finnssyni síðar presti á Djúpavogi, en þeir eru saman á skólamynd í Lærða skóla frá 1879, samstúdentar 1884.

Nú eru þeir löngu látnir sem syrgja efnismanninn unga frá Eyjólfsstöðum. En af þremur ástæðum virðist mér að mætti kanna betur stutta ævi Sigurðar og verk hans: a) hann er í hópi fyrstu kvenréttindamanna á Íslandi, b) hann er ritsnillingur; stíll hans minnir þó fremur á Brahms en Mozart sem hann dáist að í bréfinu hér að ofan og c) hann er merkur þýðandi á íslensku en fræðum um þýðingar vex fiskur um hrygg.

Athyglisvert er að á heimili Jónasar og Steinunnar á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal alast upp tveir afburðamenn orðsins listar, skammlífur sonur en honum endist aldur til að gera garðinn frægan. Í dagbókum húsbóndans á Eyólfsstöðum sem haldin var um áratugi leynist ef til vill vísbending innan um lýsingar á veðri, búskap og viðskiptum, stöku setning um nám og andlega iðju sona sem vaxa úr grasi og öðlast skilning á nýjustu straumum mannsandans. Eða var þeim kannski nóg að venjast því frá blautu barnsbeini að sjá föður sinn, fóstra sinn, munda pennann að kvöldi hvers dags, ljúka hverjum degi með fáeinum orðum í bók.

Comments are closed.

Aðrar fréttir